Ýmsum var brugðið þegar framkvæmdastjóri SA, í drottningarviðtali í Silfrinu, romsar upp athugasemdalaust staðleysum sem hann hafði áður birt í Morgunblaðinu og étur upp ýmsar þær bábiljur sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur borið á borð í kosningabaráttunni. Þessi viðbrögð manna við þættinum koma ekki á óvart. En rétt er að hafa í huga að sú ritstjórnarstefna Silfursins að vera vettvangur mismunandi skoðana og viðhorfa er virðingarverð og nauðsynleg fyrir þjóðmálaþátt. Sú spurning vaknar þó hvort það flokkist undir umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra eða hlutleysi að leyfa pólitískum erindreka í dulargerfi flytja áróðursræðu án þess að vera spurður gagnrýninna spurninga sem augljóslega var full þörf á, einkum vegna þess að tími hefði gefist til að undirbúa þær. Umræðuefnið var jöfnuður á Íslandi og til einræðu um það var af öllum mönnum valinn talsmaður samtaka þar sem auðmenn landsins ráða ríkjum og berjast á pólitískum vettvangi fyrir sérhagsmunum sínum.
Framkvæmdastjórinn byggir málflutning sinn á skýrslu OECD sem út kom fyrir nokkru og fjallar um samanburð á tekjujöfnuði á grundvelli sérstakrar könnunar. Telur hann niðurstöðuna stóradóm í þessum málum sem ekki þurfi að ræða frekar. Flestir vita þó að þessar kannanir og einkum samanburður á millli landa á grundvelli þeirra er afar umdeilanlegur m.t.t. þeirrar aðferðafræði sem beitt er og ekki síður vegna þess að ýmsir þættir sem hafa afgerandi áhrif eru misjafnir milli landa. Skýrslur OECD eins og þessi o.fl. eru vissulega mikilvæg sem innlegg í umræðu um viðkomandi efni en því aðeins að þær séu metnar af skynsamlegu viti en ekki gerðar að trúarsetningum.
Fjölþjóðlegur samanburður um jöfnuð er flókið efni sem ekki verður reynt að gera hér skil en bent skal á nokkur atriði varðandi skýrslu þessa sem benda sterklega til þess að trú framkvæmdastjórans og fleiri sem hafa hampað henni sé ekki á bjargi byggð.
Í fyrsta lagi er skýrslan byggð á upplýsingum um árið 2014 þegar landið hér var rétt að rísa úr efnahagslegum hamförum og þættir, sem hafa mjög mikil áhrif á tekju- og eignaskiptingu svo sem umfang eignatekna og verðmat eigna, voru langt frá “eðlilegu” ástandi. Flestum er ljóst að á síðustu þremur árum hefur orðið mikil breyting þar á og að skýrslan lýsi því ekki núverandi ástandi.
Í öðru lagi er að samanburðurinn byggir á nokkuð staðlaðri úrtakskönnun sem endurspeglar stöðu einstakra landa misvel. Í úrtakinu hér voru um 3000 aðilar sem spurðir voru um ýmis atriði og fjárhagsupplýsingar sóttar í skattframtöl. Það má vera ljóst að ekki má mikið út af bera við val í úrtakið til að það 1% sem á hér mestar eignir og tekjur hafi ekki rétt vægi. Auk þess er reynsla fyrir því í slíkum könnunum að oftast er erfitt að fá upplýsingar frá jaðarhópum hvort sem er neðst eða efst í tekjuskalanum. Þá er þess að geta að í könnuninni er ekki verið að reikna mismun á tekjum einstaklinga heldur fjölskyldueininga, sem reiknaðar eru eftir ákveðnum reglum. Sá umreikningur er líklegur til að valda bjögun í samanburði milli landa.
Í þriðja lagi þarf að hafa í huga að launamismunur er ekki afgerandi fyrir misskiptingu tekna og það einkum hér á landi. Fjármagnstekjur eru meiri áhrifavaldur. Vöxtur þeirra og misskipting á áratugnum fyrir hrun var drifkrafturinn í vaxandi tekjuójöfnuði á þeim tíma. Í hruninu duttu þær tekjur niður sem leiddi til meiri tekjujöfnuðar en á síðustu árum hefur sótt í fyrra horf. Hlutur fjármagnstekna hjóna í heildartekjum þeirra jókst um tæp 2% á milli áranna 2012 og 2015. Höfðu þær vaxið um 53% frá 2012 á meðan launatekjur höfðu hækkað um tæp 20%. Fimm prósent tekjuhæstu hjón fengu í sinn hlut yfir 60% fjármagnsteknanna. Þetta sýnir tvennt. Ójöfnuðurinn sem ríkti fyrir hrun er kominn á fulla ferð og að árið 2014 er ekki marktækt fyrir stöðuna nú.
Í fjórða lagi er vitað að skattstofn samkvæmt skattframtölum er ekki áreiðanlegur mælikvarði á raunverulegar fjármagnstekjur og að misjafnt er milli landa hvernig þær eu meðhöndlaðar. Eignir eru hér færðar á kaupverði eða stofnverði og verðaukning þeirra, t.d. hækkun hlutabréfa vegna hagnaðar undirliggjandi eigna, kemur ekki fram. Kemur þetta t.d. fram í því að við útreikning viðbótarauðlegðarskatts vegna hluta- og hlutabréfaeigna kom í ljós að sá stofn var u.þ.b. eins stór og hinn framtaldi hluti eignanna.
Í fimmta lagi hefir Ísland mikla sérstöðu að því leyti að eignarhaldsfélög eru líkast til hvergi eins mikið notuð og hér sem skeljar til að aðgreina fjármagnseignir og tekjur af þeim frá hinum raunverulega eiganda, þ.e einstaklingnum. Má reikna með því að stór hluti slíkra eigna og tekna rati alls ekki inn á framtal einstaklinganna sem stuðst er við. Nýleg frétt af Vísi.is er lýsandi dæmi um þetta. Þar er greint frá því að eignarhaldsfélag í eigu einstaklings hafi skilað 375 milljón króna hagnaði á árinu 2016 og eigið fé þess hafi numið um 1,6 milljarði króna. Um var að ræða eignir í íslenskum fjármála- þjónustu- og ferðamálafyrirtækjum. Líklegt er að í þessu og fjölmörgum öðrum áþekkum tilvikum skili lítið af raunverulegum tekjum og eignum sér inn á framtöl einstaklinganna.
Allt þetta og margt fleira gerir það að verkum að trú framkvæmdastjórans um tekju- og eignajöfnuð hér á landi er byggð á sandi. Rangt mat hans á raunveruleikanum í þessum efnum leiðir einnig til þess að ályktanir hans um tekjur og áhrif af auðlegðarskatti er rangar. Bæði er meiri tekjuöflun með honum möguleg eins og reynslan sýnir en fyrst og fremst þarf að hafa í huga að tilgangur með slíkum skatti er fyrst og fremst sá að skapa viðunandi jafnræði milli borgaranna þannig að hinum auðugustu og tekjuhæstu sé ekki hlíft við sambærilegri skattlagningu og aðrir sæta.
Grýla hans um væntanlegan flótta auðmanna úr landi er gamalkunn og ástæðulaust að óttast hana. Tekjusköpun fer ekki fram með höndum þeirra sem sitja einhvers staðar með sín hlutabréf og hirða arðinn heldur í fyrirtækjunum sem starfa hér á landi og þau eru ekkert á förum hvort sem um er að ræða sjávarútveg, fjármálastarfsemi eða skúringar. Það gildir litlu hvar eigendurnir kjósa að skrá heimili sitt og hafa þeir ýmsir hvort sem er þegar flutt það til annarra landa til að forðast skattlagningu eða fela raunverulegt eignarhald. Það væri kannske bara hreinsun að losna við þá aðila sem hvorki vilja borga hér skatt né taka þátt í atvinnustarfsemi með opnum hætti en krefjast hér réttinda og áhrifa.
Athugasemdir