Kosningabaráttan er í fullum gangi og fráfarandi stjórnvöld berja sér á brjóst og þakka sér góðan árangur, eins og gengur. Sjálfstæðisflokkurinn birti á Facebook myndrit undir flennistórum texta sem segir „húsnæðiskostnaður ungs fólks undir meðallagi.“
Myndritið sýnir reyndar alls ekki húsnæðiskostnað ungs fólks, heldur hlutfall ungs fólks sem ver meiru en 40% ráðstöfunartekna sinna í húsnæði. Reyndar gildir þá einu hvort fólk býr í heimahúsum eða ekki, en samkvæmt Hagstofu Evrópusambandsins (e. Eurostat), er Ísland þó ekki ofarlega á blaði í þeim efnum. Skýringuna hvers vegna myndritið samræmist ekki upplifun almennings á húsnæðismarkaðnum er þó að hluta að finna þar. Í þeim þremur Norðurlöndum sem Sjálfstæðisflokkurinn sýnir að standi verr á þessu sviði hafa nefnilega mun mun fleiri ungmenni flutt úr foreldrahúsum — með tilheyrandi kostnaði. Í Bretlandi, sem einnig er fyrir ofan Ísland á myndritinu, er hlutfallið svipað, en í flestum öðrum Evrópulöndum búa fleiri í foreldrahúsum og standa líka „betur“ á þennan mælikvarða.
Eitt sem Sjálfstæðisflokkurinn gleymdi svo að nefna (þar til undirritaður sendi flokknum fyrirspurn) er að gögnin eru frá 2015. Það skiptir máli vegna þess að af þeim 29 löndum þar sem Hagstofa Evrópusambandsins mælir hækkanir á húsnæðisverði, kemst ekkert land með tærnar þar sem Ísland hefur hælana frá því ágæta ári 2015. Á Íslandi hefur húsnæðisverð síðan þá hækkað um 30%, en meðalhækkun í Evrópusambandinu er 8,5%. Hækkunin er í Finnlandi 3%, og hinum Norðurlöndunum 11-16%. (Næst á eftir Íslandi er Ungverjaland, þar sem hækkunin nemur 20,5%). Úbs.
En hefur kaupmáttur ungs fólks ekki aukist þeim mun meira á tímabilinu? Svarið við því er nei. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni jukust heildartekjur einstaklinga á aldrinum 25-29 um 10% milli áranna 2015 og 2016, og 30-34 ára um 7,5%. Ef heildartekjur þessa hóps jukust ekki um eins og 18-21% (!) milli 2016 og 2017 er svarið sannarlega nei.
Heimild: http://px.hagstofa.is/pxis/sq/1c768480-e17b-4bd6-bb1a-441da4fbade5
Athugasemdir