Kjósendur eiga rétt á því að vita hvað tekur við eftir kosningar. Það er því ekki nema sanngjarnt að þeir flokkar sem eiga hvað mesta samleið lýsi yfir hvaða flokkum þeir vilja starfa með eftir kosningar. Ef menn vilja félagshyggjustjórn þá liggur beinast við að kjósa Vinstri græna, Pírata eða Samfylkinguna. Í pistli þessum fjalla ég svo í nokkrum orðum um aðra flokka.
Stefnumál félagshyggjustjórnar
Auðvelt er að útbúa lista yfir sameiginleg stefnumál þessara flokka sem örugglega komast í framkvæmd undir þeirra stjórn. Þar má telja: Réttlæti til handa öldruðum og öryrkjum, mannúðleg stefna gagnvart flóttamönnum svo og útrýming fátæktar á Íslandi. Auk þess munu flokkarnir vinna gegn spillingu í samfélaginu; meðal stóreignamanna, í atvinnurekstri og hjá fjármálastofnunum. Þessir flokkar munu einnig sameinast um gerð nýrrar stjórnarskrár – stjórnarskrár fólksins – í stað rykfallinnar skræðu sem skrifuð var fyrir uppþornaða embættismenn, ráðherra og þingmenn.
Björt framtíð og Viðreisn
Nokkuð ljóst er að í næstu kosningum munu kjósendur refsa bæði Bjartri framtíð og Viðreisn fyrir svikin kosningaloforð. Þegar þessir flokkar gengu í eina sæng með íhaldinu, þá gáfu þeir flest stefnumál sín upp á bátinn – eingöngu til þess að komast í ráðherrastólana.
Sjálfstæðisflokkurinn
Um Sjálfstæðisflokkinn er það að segja að allir stjórnarsáttmálar sem þeir hafa staðið að einkennast af því að vera nánast að öllu leyti stefna flokksins. Þeir leggja meðal annars áherslu á að viðhalda núverandi kvótakerfi í fiskveiðum og þeir eru ekki tilbúnir að koma á réttlátari gjöldum vegna afnota af auðlindum landsins. Þeir viðurkenna ekki að breytinga sé þörf í fjármálastefnu ríkisins. Og skattalækkanir þeirra hafa haft í för með sér að skattbyrði stóreignamanna lækkar ótæpilega á meðan skattar fólks með lægstu laun og meðaltekjur hækka.
„Hann er leikari af guðsnáð og í hlutverki fórnarlambsins nær hann hæstu hæðum.“
Barátta þeirra gegn spillingu er í skötulíki. Það sést kannski best á því að formaður flokksins sat á tveimur mikilvægum skýrslum fyrir síðustu kosningar – skýrslum sem þingmenn og kjósendur áttu fullan rétt á að skoða. Önnur þeirra fjallaði um stórfelldar eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Og hin fjallaði um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána vegna breyttra forsendna í kjólfar hrunsins. Þar gat fólk áttað sig á því í hverju leiðréttingin svokallaða var fólgin. Í ljós kom að hún fór aðallega til hátekjufólks á höfuðborgarsvæðinu. Það er deginum ljósara nú að það hefði verið mun skynsamlegra að styðja við það fólk sem átti sannanlega í miklum erfiðleikum í stað þess að lauma þessum fjármunum í vasa þeirra sem enga þörf höfðu fyrir féð. Og núna síðast fréttum við svo af leyndarhyggju í kringum málefni sem varða kynferðisafbrotamenn. Þegar hulunni var lyft að upplýsingum um málin kom í ljós að þekktir aðilar í samfélaginu höfðu vottað að glæpamennirnir væru hættir að brjóta af sér. Þessir þekktu menn höfðu í fæstum tilfellum kannað hegðun brotamannanna eftir afplánun dóms.
Nú síðast hefur komið í ljós að að Bjarni hafi notað upplýsingar sem hann fékk sem þingmaður um veika stöðu Glitnisbanka og í framhaldinu forðað fjármunum sínum sem voru í vörslu bankans og komið þeim í öruggari geymslu. Einnig vekur athygli að fjársterkir ættingjar hans gerðu slíkt hið sama. Upp koma orð eins og innherjaviðskipti og hagsmunaárekstur. En að sjálfsögðu man BB lítið eftir þessu og þvertekur að hann hafi verið óheiðarlegur eða brotið af sér. Reyndar má sjá núna að umræðan um ávirðingar Bjarna í leyndarhyggju og fjármálaumsvifum virðist ætla að verða honum til framdráttar. Hann er leikari af guðsnáð og í hlutverki fórnarlambsins nær hann hæstu hæðum. Og nú þegar það er orðið nokkuð ljóst að Viðreisn mun ekki ná inn á þing þá má má búast við að kjósendur þess flokks munu snúa til baka til móðurflokksins.
Framsókn
Athygli vekur að Framsókn er nú orðinn stjórntækur flokkur eftir að SDG hefur yfirgefið skútuna. Afstaða flokksins til breytinga á stjórnarskránni eru mjög jákvæðar og það má búast við að flokkurinn muni styðja félagshyggjustjórn í vænlegum breytingum á henni.
Eins og við mátti búast hefur Lilja Alfreðsdóttir varaformaður flokksins lagt áherslu á að flokkurinn gangi óbundinn til kosninga. Hann getur því snúið sér til hægri eða vinstri - allt eftir hentugleikum - opinn í báða enda eins og sagt var hér áður fyrr. Það er nóg komið af slíkum tvískinnungi í íslenskum stjórnmálum.
Miðflokkurinn
Framsókn vann stórsigur í kosningum undir stjórn SDG og aðalskýringin á velgengni flokksins var sú að SDG lofaði stórkostlegum „leiðréttingum“ til allra þeirra sem höfðu orðið illa úti í kreppunni. Í dag sjáum við að aðgerðin var hreint glappaskot. Hún hjálpaði alls ekki því fólki sem SDG hafði lofað bót og betrun.
Aðild SDG að Wintrismálinu svokallaða er mjög svo dapurleg. Af hverju gat hann ekki sýnt ofurlitla auðmýkt? Í skilningi laganna hafði hann kannski ekki brotið af sér en siðferðislega þá var gjörningurinn á mjög svo gráu svæði. Ef hann hefði brugðist skynsamlega við, þá væri hann ennþá formaður Framsóknarflokksins. Hann hefði rúllað yfir Sigurð Inga í formannskjöri.
Flokkur fólksins
Að útrýma fátækt á Íslandi er mjög mikilvægt málefni. En það er eins og forystumenn þessa flokks átti sig ekki á því að það er jafnframt hægt að innleiða mannúðlegar reglur gagnvart flóttafólki.
Kjósendur krefjast heiðaleika
Dæmin hafa sýnt að við höfum ekkert að gera við teflonhúðaða stjórnmálamenn eins og Bjarna Ben á Alþingi. Hann snýr sig út úr hverju hneykslismálinu á fætur öðru og kennir öðrum um glappaskotin. Og við höfum heldur ekkert að gera við tréhesta eins og Sigmund Davíð. Einnig er rétt að benda á að kjósendur mega ekki kasta atkvæði sínu á flokka sem ganga óbundnir til kosninga. Dæmin hafa sannað að þeim er ekki treystandi – þeir snúast líkt og vindhanar – allt eftir því hver áttin er hverju sinni.
Forseti vor hefur lagt ríka áherslu á nauðsyn þess að ný stjórnarskrá líti dagsins ljós. Völd hans og starfsskyldur þurfa að vera skýrar. Einnig þarf stjórnarskráin að vera sáttmáli okkar allra um það hvernig við viljum skapa mannúðlegt og réttlátt samfélag. Ríkisstjórn sem byggir á félagshyggju mun örugglega skapa þennan sáttmála í samvinnu við þjóðina.
Athugasemdir