„Þetta mál sem þótti svo stórt að það var ástæða til stjórnarslita, það man varla nokkur hvað þetta er.“ Þetta sagði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og starfandi fjármálaráðherra, í Forystusætinu í kvöld, viðtalsþætti þar sem rætt er við leiðtoga allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram í komandi þingkosningum. Hann tók undir orð Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttisráðherra, um að ekki hefði verið tilefni til að slíta stjórnarsamstarfinu.
Samstarfi slitið vegna trúnaðarbrests
og leyndar í máli barnaníðinga
Björt framtíð átti frumkvæði að því að samstarfinu var slitið að kvöldi dags 14. september. Þá hafði komið í ljós að Hjalti Sigurjón Hauksson, maður sem var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi árið 2004 fyrir að hafa brotið gegn stjúpdóttur sinni nær daglega í tólf ár, hafði fengið meðmæli frá Benedikt Sveinssyni, föður Bjarna Benediktssonar núverandi forsætisráðherra og frænda Benedikts Jóhannessonar, árið 2016 vegna umsóknar sinnar um uppreist æru.
Dómsmálaráðuneytið og þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu þá vikum saman beitt sér gegn því að upplýsingar um mál kynferðisbrotamanna og annarra sem fengið höfðu uppreist æru litu dagsins ljós eða fengju opinbera umfjöllun. Þetta var gert undir þeim formerkjum að um viðkvæmar persónuupplýsingar væri að ræða sem ættu lögum samkvæmt að fara leynt.
Þegar úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að upplýsingaréttur almennings næði til gagnanna – að dómsmálaráðuneytið hefði með öðrum orðum gengið lengra í upplýsingaleynd en lög heimila – og þegar Sigríður Andersen dómsmálaráðherra viðurkenndi að hafa greint Bjarna Benediktssyni einum frá því mörgum vikum áður að faðir hans hefði veitt Hjalta Sigurjóni uppreist æru ákvað stjórn Bjartrar framtíðar að ganga út úr stjórnarsamstarfinu.
Málið fullrannsakað og öll svör komin fram
Benedikt telur að þetta hafi verið misráðið „Ef þetta hefði verið stjórnarslitamál þá ætti þetta að vera eitt aðalkosningamálið núna,“ sagði hann í viðtalinu. „Þetta var auðvitað mjög sorglegt mál og óhugnanlegt mál að mörgu leyti.“
Benedikt telur að málið hafi verið upplýst til fulls af hálfu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. „Það sem við lögðum alltaf áherslu á var að það ætti að rannsaka málið, komast til botns í því, það var það sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþinigs gerði. Hún fór í gengum málið og komst að þeirri niðurstöðu.“
Aðspurður hvort hann telji að öll svör hafi komið fram segir Benedikt: „Jájá, og við erum öll sammála um það. Það er búið að upplýsa málið.“
Samkvæmt heimildum Stundarinnar hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ekki fengið þær upplýsingar frá dómsmálaráðuneytinu sem nefndin kallaði eftir seint í septembermánuði að frumkvæði Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata. Ráðuneytið hefur heldur ekki svarað ítarlegri upplýsingabeiðni Stundarinnar um málsmeðferðina.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skilaði sameiginlegri bókun og skýrslu um „uppreist æru, reglur og framkvæmd“ fyrir þinglok. Hins vegar er ekki eining um það í nefndinni hvort þar með hafi farið fram fullnægjandi skoðun á embættisfærslum dómsmálaráðherra og forsætisráðherra í málinu. Fjallað verður nánar um málið og sjónarmið nefndarmanna á vef Stundarinnar í vikunni.
Uppfært 10. október 11:04:
Benedikt Jóhannesson baðst í morgun afsökunar á ummælunum. Hann segir að það sé fjarri sér að gera lítið úr þeim sársauka sem þolendur kynferðisbrota og aðstandenda verða fyrir. „Öllum ber að tala af virðingu og auðmýkt í þessu samhengi og ég bið alla aðila málsins innilega afsökunar. Það er óásættanlegt að slík mál séu hjúpuð leyndarhyggju og það er skýr skoðun mín og Viðreisnar að upplýsa um alla þætti málsins. Hefði það sjónarmið verið haft í heiðri hefðu allar upplýsingar legið á borðinu frá upphafi. Ég ítreka hve leitt mér þykir að hafa talað með þessum hætti,“ skrifar Benedikt á Facebook-síðu sína.
Athugasemdir