I. Tíðarandinn
Þjóðin er fólkið í landinu, almenningur, borgararnir, hópur sem getur komið sér saman um gildi, hugsjónir og yfirlýsingar. Gildin eru siðferðileg verðmæti sem þjóðin tileinkar sér eða sækist eftir. Hvert tímabil í sögu þjóða má einnig tengja ákveðnum gildum.
Gildin eru siðferðileg ásýnd þjóðar, samfélags og einstaklinga. Þjóðgildin heiðarleiki, dugnaður og kærleikur hafa oft verið hátt skrifuð á Íslandi og má greina það í bókum og könnunum. Ekki má þó gleyma því að þjóðin hefur verið sökuð um ýmsa lesti eins og leti, deilugirni, fláræði, óhóf og saurlifnað samkvæmt vitnisburðum erlendra gesta á 18. öld.
Tíðarandinn í blábyrjun 21. aldar einkenndist ekki af kostunum heldur af andgildum eins og taumleysi, agaleysi, ofmetnaði, græðgi, spillingu, óbilandi bjartsýni og skeytingarleysi gagnvart öðrum.
Þessi tíðarandi hefur ekki enn yfirgefið landið, það er svo margt sem heldur í hann. Við alþingiskosningar verður iðulega einhver stefnubreyting og hugur þjóðarinnar birtist með einum eða öðrum hætti, til dæmis í átt til sjálfsaga og nægjusemi.
II. Sjálfsagi
Flestallar þjóðir finna til löngunar til að ráða sér sjálfar og að geta af fúsum og frjálsum vilja játast því sem þær vilja játast og hafna því sem þær vilja hafna og vera sáttar við eigið val og stöðu sína meðal þjóða.
Þessi löngun krefst sjálfsaga, því engin þjóð getur verið sjálfstæð nema sú sem býr yfir nægum aga til að ná markmiðum sínum, efla kostina og vinna á ókostunum. Aðeins þannig getur hún notið þeirrar virðingar sem hún þráir.
Sjálfsagi og nægjusemi haldast í hendur. Löngunin til að temja sér sjálfsaga vaknar vegna þess að jafnvægið sem nægjusemin gefur skortir. Án sjálfsaga og nægjusemi verður þjóðin annaðhvort doða og meðvirkni að bráð eða hroka og græðgi.
III. Doði
Dugnaður og þrautseigja einkennir víst sjálfsmynd Íslendinga. Það er ágætt að vera dugleg til verka – en það er ekki nóg. Dugleg þjóð þó getur flotið hugsunarlaust að feigðarósi, því það krefst tíma að rannsaka málin og mynda sér heilsteypta afstöðu.
Dugleg þjóð getur orðið löt að mæta á kjörstað í kosningum. Meirihlutinn vill ef til vill hafa það huggulegt heima eftir vinnudaginn en í sömu andrá kýs minnihlutinn eitthvað allt annað samfélag.
Doðinn getur birst sem skeytingarleysi, að vera sama um auðlindir sínar, náttúru, náungann og að nenna ekki að hugsa um það sem skiptir máli. Búast við að aðrir sjái um málin og hafi mikið vit á þeim.
Það er því nauðsynlegt að taka þátt í samfélaginu og leggja því og öðrum lið. Þannig verður til samfélag þar sem borgararnir eru virkir og er ekki sama um aðra. Þjóð sem er ekki skeytingarlaus um æskuna eða þjáningar annarra.
IV. Græðgi
Græðgi er önnur birtingarmynd skorts á sjálfsaga og á vörnum og eftirlitsstofnunum. Þjóðin hefur þá ofmetnast og talið sér trú um að mikið fái ævinlega meira – og eigi það skilið.
Græðgin steypir þjóðum sennilega oftar af stalli en nokkurt annað afl. Nauðsynlegt er af þeim sökum að þekkja græðgina.
Græðgin er helsti ókostur mannkyns og kemst iðulega á flug í samfélagi þar sem of margir eru óvirkir og kæra sig kollótta um réttlæti. Ef græðgi verður einkenni þjóðar birtist hún sem hömluleysi gagnvart valkostum og mögulegum ávinningi. Hún vill fá allt og þolir ekki að missa af neinu. En á áfangastað er hinn gráðugi enn hungraður.
Græðgin felst í því að kunna sér ekki hóf og vilja sífellt auka magn og afköst og hámarka gróða. Græðgin tortímir blygðunarlaust fegurð, fossum, fuglum og fiskum. Hún skilur eftir sig sviðna jörð og súrt haf.
Græðgin felst í því að vilja fullnægja sem flestum hvötum, löngunum, þrám og hugmyndum.
V. Nægjusemi
Nægjusemi er feikilega vanmetið þjóðgildi. Nægjusemin er hinn græni vegur á milli doðans og græðginnar, það er þangað sem löngunin um sjálfsaga stefnir. Nægjusemi felst í því að velja úr kostunum og sinna þeim af alúð og aga.
Nægjusemi er dygð sem æfa þarf af kappi og sjálfsaginn felst í því að fækka löngunum sem á að fullnægja og markmiðum um óbilandi hagvöxt og meiri einkaneyslu.
Nægjusemi vísar á jöfnuð og dreifingu á valdi og störfum. Jöfn tækifæri til mennta og starfa. Nægjusemin er nauðsynleg til að skapa réttlátt samfélag, eigna-, launa- og mannjöfnuð. Jöfnuður er úr sögunni ef hennar nýtur ekki við.
Nægjusemi er ekki níska eða þreytandi aðhaldssemi. Hún felst ekki í því að hætta við þegar aðrir ana áfram, heldur í því að velja veginn af kostgæfni.
VI. Þjóðgildi
Sjálfsagi og nægjusemi haldast ávallt í hendur og nú er verkefnið óbeint að velja þjóðgildi til að móta tíðarandann eftir kosningar 28. október 2017. Spurningin er einnig: Hefur þjóðin nægan sjálfsaga til að temja sér nægjusemi?
Á þjóðfundum 2009 og 2010 kölluðu þúsund kjörnir fulltrúar helst eftir heiðarleika, jafnrétti, virðingu, réttlæti, kærleika, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni, lýðræði, fjölskyldugildum, jöfnuði, trausti, menntun, mannréttindum, gagnsæi og sjálfstæði.
Það getur alltaf hent að þjóðin verði áhugalaus um helstu auðlindir sem hún og landið búa yfir. Það er einnig alltaf hætta á að hún ofmetnist og vilji (aftur) vera fremst þjóða og ríkust án þess að leggja sitt af mörkum. En hvaða gjafir gáfu Íslendingar umheiminum á oflátsárum sínum, gullöldinni, góðærinu? Ekkert svar.
Hefur þjóðin eitthvað að gefa öðrum um þessar mundir? Kannski þekkingu, hugvit, vinsemd, jafnrétti, umhyggju? Svar óskast …
– það er auðvelt ef þjóðin vill.
Athugasemdir