Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja og fyrrverandi þingkona og ráðherra Samfylkingarinnar til margra ára, sagði sig úr uppstillingarnefnd vegna framboðs flokksins í Suðvesturkjördæmi í morgun.
Stundin greindi frá setu hennar í uppstillingarnefndinni í gær og spruttu umræður um málið víða á samfélagsmiðlum.
Katrín sagði sig úr nefndinni snemma í morgun og greinir frá því í athugasemdum á Facebook þar sem rætt hafði verið um málið.
„Ég sagði mig úr nefndinni snemma í morgun. Er með fótgönguliðaeðli í mér og fannst sjálfsagt og eðlilegt að nota pólitíska reynslu í flokksstarfi nú þegar lítill tími er til stefnu. Sósíaldemókratinn í mér lifir nefnilega góðu lífi og vildi ég nú bara hjálpa til,“ skrifar Katrín og bætir við: „Er ekki handbendi neins og vil ekki að ákvarðanir mínar eftir þingstörfin þvælist fyrir þeim sem nú fara fram. Eitt atriði sem ég vil nefna er að í SFF eru tæplega 30 fyrirtæki þmt bankarnir sem að 2/3 hluta eru í eigu ríkis og í samtökunum eru einnig sparisjóðirnir. Væri gaman að eiga efnislegt samtal um þróun þessa umhverfis og markmið við tækifæri. En einblínum nú á fólkið sem er að fara fram í öllum flokkum og ræðum málefnin.“
Katrín var þingkona Samfylkingarinnar á tímabilinu 2003 til 2016, iðnaðarráðherra frá 2009 til 2012 og fjármála- og efnahagsráðherra frá 2012 til 2013. Hún hefur svo starfað sem framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja frá því í nóvember 2016.
Athugasemdir