Magnús Þór Hafsteinsson, ritstjóri héraðsblaðsins Vesturlands og frambjóðandi Flokks fólksins í síðustu þingkosningum, sakar Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um „helför“ vegna stefnu fráfarandi ríkisstjórnar í málefnum sauðfjárbænda.
Flokkur fólksins hefur mælst hátt í skoðanakönnunum undanfarna mánuði og vakið athygli fyrir þjóðernispopúlískan málflutning. Eitt af einkennum þjóðernispopúlískra hreyfinga í Evrópu er tilhneiging þeirra til að gera lítið úr atburðum á borð við helförina.
„Stöðvið helför landbúnaðarráðherra!“ er titillinn á leiðara Magnúsar í Vesturlandi um stöðu sauðfjárræktar sem var endurbirtur á Eyjunni um helgina. „Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra Viðreisnar vill láta lóga fimmtu hverju [sic] kind í landinu,“ segir í leiðaranum. „Það verður að stöðva fyrirætlaða helför landbúnaðarráðherra. Það verður að koma í veg fyrir það með öllum tiltækum ráðum að hatur Viðreisnar á íslenskum landbúnaði og fyrirlitning þessa flokks á fullveldi þjóðarinnar fái að brjótast út með þessum barnalega hætti.“
Magnús Þór var þingflokksformaður Frjálslynda flokksins á árunum 2003 til 2007 og vakti meðal annars athygli fyrir þingræður og greinarskrif um að takmarka ætti frjálst flæði launafólks frá nýjum ríkjum EES og „stýra flæði erlendra nýbúa til landsins“.
Hann rataði svo í fréttirnar árið 2008 þegar hann lagðist gegn því að Akranesbær tæki á móti þrjátíu palestínskum flóttamönnum. Nýlega þýddi hann bókina „Þjóðarplágan íslam“ eftir Hege Storhaug, norska baráttukonu gegn múslimum sem gagnrýnd hefur verið fyrir að ala á hatri gegn innflytjendum.
Athugasemdir