Ríkisstjórnin féll og við vitum öll af hverju. Síðan þá hafa móðgaðir og svekktir Sjálfstæðismenn tjáð sig um stjórnarslitin. Gegnumgangandi í málflutningi þeirra er að það hafi verið óábyrgt hjá samstarfsflokkunum að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu og að engin raunveruleg ástæða hafi verið fyrir þessu upphlaupi þeirra um miðjar nætur. Formaðurinn kallaði eftir því að sterk stjórn tæki við, skipuð öflugum stjórnmálaflokkum með góðar rætur. Flokkum sem leggjast ekki flatir í vindi eins og strá. Brestir í smáflokkakerfinu felldu ríkisstjórnina.
Þetta er orðræða hinna sterku á kostnað þeirra sem veikari eru og ástæða til að staldra við hana og greina betur. „Anda í kviðinn,“ eins og Bjarni Benediktsson ráðlagði og hlusta aftur á upptökur af hinum undarlega „blaðamannafundi“ hans í Valhöll. Eins og menn vita þá er það einkum í ráðstjórnarríkjum þar sem flokkurinn og ríkið rennur saman í eitt með þeim hætti að eðlilegt geti talist að forsætisráðherra ávarpi þjóð sína í félagsheimili flokksins. Eða var hann kannski ekki að tala við okkur?
Því er sem sagt haldið fram að það hafi verið vegna tilfinningasemi og veikleika sem ríkisstjórnin féll. Betra hefði verið að kyngja ælunni og halda áfram eins og strá sem ekki bognar. En hvað er að því að leyfa tilfinningunum að ráða? Af hverju þurftu allir að kyngja ælunni í þessu stjórnarsamstarfi sem augljóslega var ekki á vetur setjandi? Og af hverju mega strá ekki bogna? Átta menn sig ekki á því að strá sem ekki bogna brotna en þau sem sveigjast með vindinum rísa upp aftur og halda áfram að vaxa?
„Við gerum það samt af því að okkur líður þannig. Okkur finnst við ekki heil nema láta reyna á drauminn.“
Allar stærstu og mikilvægustu ákvarðanir lífsins tökum við út frá tilfinningum frekar en rökhugsun. Flest höfum við fundið ástina og ákveðið í kjölfarið að breyta lífi okkar til að rýma til fyrir henni. Fæst okkar ákveða búsetu eingöngu út frá efnahagslegum og röklegum forsendum. Við höfum tilfinningar til ákveðinna hverfa eða viljum vera í námunda við fjölskyldu og vini. Eðlilega. Við setjum ekki verðmiða á börnin okkar eða nefnum þau með númerum þótt það væri örugglega bæði hagkvæmt og leysti ýmsan vanda. Ekkert er dýrmætara en þau – það vitum við í hjarta okkar. Og mörg okkar dreymir stóra drauma og ákveðum að elta þá út í óvissuna. Stundum kostar það peninga, stundum tökum við áhættu og endrum og sinnum kostar það miklar fórnir. En við gerum það samt af því að okkur líður þannig. Okkur finnst við ekki heil nema láta reyna á drauminn. Og án þess verða engar framfarir, engir sigrar, engin gleði.
Á sama hátt geta fæst okkar gert hvað sem er. Okkur líður illa ef við særum aðra. Við getum ekki meitt aðra viljandi. Samviskan leyfir það ekki.
Sumir ættflokkar frumbyggja Norður-Ameríku eiga sögn sem útskýrir hvernig samviskan virkar. Sagan segir að í brjósti sérhvers manns sé þríhyrningur. Þegar fólk gerir eitthvað rangt snýst hann þannig að eitt hornið skerst í hjartað. Það er sársaukafullt og þannig lærum við að hegða okkur betur. En maðurinn er breyskur og öllum verður einhvern tímann á. Og þá snýst þríhyrningurinn aftur með tilheyrandi þjáningum í hjartanu. Gerist þetta of oft og reglulega myndast sigg á hjartanu og við hættum að finna til. Við verðum samviskulaus. Og þá er örugglega auðveldara að vera sterkur, ósveigjanlegur og kyngja ælunni þegar sérhagsmunir krefjast þess. Eða vera þingmaður sem klappar fyrir foringjanum í Valhöll.
Þótt þessi skýring þjóðsögunnar standist vart læknisfræðilega skoðun virkar hún vel sem myndlíking. Við eigum ekki að taka þátt í hlutum sem láta okkur sjálf eða aðra líða illa. Verum sveigjanleg og leitum lausna sem allir geta sætt sig við en ekki bara þeir sterku.
Látum hjartað ráða för. Verum góð og hættum að kjósa varðhunda valdsins. Annað er óábyrgt.
Athugasemdir