Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem nú er í sigti héraðssaksóknara vegna leynilegrar peningaeignar í gegnum skattaskjólsfélag á Panama og bankareikning í Sviss, skrifaði meðmæli fyrir lögmann sem dæmdur var í sex mánaða fangelsi fyrir skilasvik árið 2005.
Þetta kemur fram í gögnum dómsmálaráðuneytisins sem Stundin fékk afhent eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að almenningur ætti rétt á upplýsingunum, þvert á afstöðu dómsmálaráðuneytisins og meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Maðurinn sótti um uppreist æru árið 2008, enda hugðist hann endurheimta lögmannsréttindin og hefja lögmannsrekstur á nýjan leik.
Fram kemur í umsögn Júlíusar að maðurinn hafi gott lag á að nálgast skjólstæðinga sína af yfirvegun, stillingu og varfærni. Hann hafi reynst mörgum þeirra sem til hans leita „hjálparhella og stuðningur á erfiðum tímum“. Þeir Júlíus þekkjast bæði gegnum störf sín sem lögreglumenn og sem lögmenn.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, lagði til við forseta Íslands að maðurinn fengi uppreist æru og varð Ólafur Ragnar Grímsson við beiðninni þann 21. október 2008 í samræmi við lög og stjórnsýsluhefðir. Maðurinn starfar sem lögmaður í dag.
Athugasemdir