Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fullyrðir að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hafi neitað að undirrita tillögu um uppreist æru brotamanns í vor. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem Jón birti á Facebook í kvöld.
Sigríður Andersen hefur ítrekað vísað til þess í umræðum um veitingu uppreistar æru og mál Roberts Downey að ráðuneytið hafi talið ráðherrum bera skylda til að undirrita tillögur um uppreist æru dæmdra manna samkvæmt lögum, stjórnsýsluhefðum og jafnræðissjónarmiðum.
Þann 22. júní birti ráðuneytið fréttatilkynningu þar sem fram kom að ef ráðherra eða forseti hygðist synja umsókn um uppreist æru, þrátt fyrir að umsækjandi uppfyllti öll lagaleg skilyrði, yrðu að vera fyrir því málefnalegar ástæður.
„Menn hafa líka viljað halda sig við
jafnræðið og stjórnsýslureglur“
Á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar þann 30. ágúst, sagði svo Sigríður að fyrri ráðherrum hefði verið mjög „þungbært“ að veita ákveðnum brotamönnum uppreist æru. „Á endanum hefur í öllum tilvikum verið tekin sú ákvörðun að bregða ekki út af þeirri stjórnsýsluhefð sem hefur myndast,“ sagði hún. „Menn hafa líka viljað halda sig við jafnræðið og stjórnsýslureglur“.
Á fundinum neitaði hún að svara spurningu Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Vinstri grænna, um hvort ráðuneytið hygðist setja ferlið við veitingu uppreistar æru „í frost“ meðan vinna við endurskoðun lagaákvæða stæði yfir.
Vék frá venjunni
Jón Gunnarsson, samráðherra og flokksbróðir Sigríðar, segir í Facebook-færslu sinni að dómsmálaráðherra hafi síðan í vor haft beiðni á borði sínu um uppreist æru dæmds sakamanns og ákveðið að afgreiða hana ekki með sama hætti og hefð er fyrir.
„Hún kynnti sér þá strax þær reglur sem um þetta gilda og í framhaldi neitaði að skrifa undir. Þá setti hún vinnu af stað til að undirbúa breytingu á þessum reglum. Þetta er nokkrum vikum áður en þessi mál koma í almenna umræðu,“ skrifar hann.
„Henni var greint frá því að hún gæti tæplega vikist undan því að samþykkja erindið“
„Eins og fram mun koma á næstu dögum hafa allir dómsmálaráðherrar í áratugi unnið eftir þessum reglum og henni var greint frá því að hún gæti tæplega vikist undan því að samþykkja erindið. Það er því dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sem fyrstur ráðherra ákveður að spyrna við fótum og hefja vinnu við breytingar á því regluverki sem um þessi mál gildir. Þetta staðfestir enn og aftur það ábyrgðarleysi sem Alþingismenn sýna þegar þeir ákveða að slíta ríkisstjórnarsamstarfi vegna þessara mála.“ Á meðal þeirra sem læka stöðuuppfærslu Jóns er Glúmur Björnsson, eiginmaður Sigríðar.
Athugasemdir