Eftir að risaeldgosið á Reykjanesskaga 2019 gerði Ísland nær óbyggilegt, þá flúði stærstur hluti eftirlifenda land og leitaði hælis í ýmsum Evrópuríkjum.
Misjafnlega var tekið á móti flóttafólkinu en flest gerði það sér vonir um að geta snúið heim fljótlega aftur.
Það dróst hins vegar.
Ísland var áfram afar illa farið eftir eldgosið. Samfélag þeirra sem þar hírðust ennþá var grimmt og hrottalegt.
Í löndunum, þar sem flóttafólkið hélt til, fór brátt að bera á óþolinmæði í þess garð.
Sumir sögðu: „Við getum ekkert verið að hjálpa þessum Íslendingum endalaust. Það kostar peninga. Við ættum frekar að nota peningana í að hjálpa gamla fólkinu okkar.“
Og aftur og aftur heyrði flóttafólkið: „Og hvað koma þessir Íslendingar okkur svo sem við?“
Rúmum áratug eftir eldgosið var flóttamaðurinn Guðni enn á hrakhólum. Hann hafði farið land úr landi og virtist nú hvergi velkominn. Guðni hafði eignast dóttur skömmu eftir flóttann frá Íslandi. Móðir stúlkunnar hvarf í haf flóttamannanna en Guðni reyndi eftir bestu getu að sjá um dóttur sína.
Hún var góð og gáfuð stúlka en leið greinilega illa eftir hrakninga og barning síðustu ára. Sums staðar vildi fólk ekkert með þau hafa og atyrti þau á almannafæri.
Sums staðar höfðu þau upplifað skelfingar sem við segjum ekki frá.
Guðni hafði skírt dóttur sína Vigdísi.
Að lokum bar Guðna og Vigdísi að ströndum enn eins ríkis þar sem þau vonuðust til að fá hæli.
Og viti menn - þeim var vel tekið. Guðni fann sér stuðningsmenn og þegar Vigdís átti afmæli var haldið upp á það með viðhöfn. Það stóð til að Guðni fengi vinnu. Vigdís fékk að ganga í skóla og hún eignaðist vini.
Vini!
Hugsið ykkur hvað það var mikils virði fyrir barnunga flóttastúlku eins og Vigdísi. Í fyrsta sinn á ævinni átti hún sína eigin vini!
Og það var útlit fyrir að hún gæti fengið hjálp við að takast á áföllin á sálinni sem hún hafði orðið fyrir á flóttanum um löndin mörgu.
Eftir meira en áratugar hrakning fannst flóttamönnunum þau loksins komin heim.
En hvað gerðist þá?
Yfirvöldin í þessu landi voru ekki sama sinnis og vinir þeirra Guðna og Vigdísar.
Yfirvöldin ákváðu að senda þau úr landi. Þau gætu hunskast til þess lands þar sem þau höfðu verið síðast.
Þar höfðu þau verið í flóttamannabúðum og Vigdís verið einmana og vinalaus.
Og það var jafnvel talað um að senda þau alla leið til Íslands sem enn var í rúst og ofbeldi og grimmd réðu ríkjum. Þangað hafði Vigdís raunar aldrei komið og varð óttaslegin við tilhugsunina.
Þetta var hræðilegt áfall.
Guðni og Vigdís þráðu það eitt að fá að búa áfram í þessu landi þar sem þau höfðu eignast vini og heimili.
En yfirvöldunum varð ekki þokað.
Og enn fengu Guðni og Vigdís að heyra hin hrollköldu orð:
„Hvað koma þessir Íslendingar okkur við?“
- - - -
Góðir Íslendingar.
Þessi saga gæti alveg gerst. Myndum við vilja það? Myndum við vilja að svona væri farið með landa okkar?
En þessi saga er raunar að gerast einmitt núna.
Og hún er að gerast einmitt hér á Íslandi.
Mætum á Austurvöll klukkan þrjú í dag til að mótmæla því að þær Haniye og Mary og þeirra nánustu verði vísað úr landi.
Þau koma okkur við.
Mætum á Austurvöll klukkan þrjú.
Athugasemdir