Ráðandi kenningar um Alzheimersjúkdóminn ganga ganga út á að aðalorsök sjúkdómsins séu útfellingar á eggjahvítuefnum í heilanum sem gera út af við taugafrumur hans og valda truflunum eins og minnisleysi.
Í tveimum greinum í Kvennablaðinu, þeirri fyrri 23. september 2016 og hinni síðari 23. mars 2017, greindi ég frá þeim athugunum, mínum á framgangi rannsókna og lækningatilrauna á Alzheimer-sjúkdómnum
Árangursleysi þeirra rannsókna, sem mest hafa verið í sviðsljósinu hingað til, hefur leitt til þess, að fjölmargir vísindamenn hallast að þeirri kenningu að lækning við Alzheimer-sjúkdómnum verði ekki fundin með áhrifum virkra efna (lyfja) á einstök efnaskipti í heilanum, heldur sé hér um að ræða samspil margra þátta eða efnaskipta, sem kalla á samþætta notkun virkra efnasambanda og þjálfunaraðferða.
Þar sem allt virðist benda til þess, að langt sé í það að virk lyf verði markaðshæf, hafa vísindamenn jafnframt bent á að óforsvaranlegt sé að bíða aðgerðalaus, og velta því fyrir sér, hvernig meðhöndla beri sjúklingana á meðan beðið er eftir nothæfum lyfjum.
Þá vitneskju, sem ég hef talið vera gagnlega fyrir íslenskt áhugafólk um sjúkdóminn, hef ég safnað saman á vefsíðu minni. Greinum mínum er ætlað að koma inn á þau aðalatriði, sem vísindamenn hafa litið til fram að þessu, við að finna virk lyf og meðferðarúrræði fyrir sjúkdóminn.
Ný nálgun gagnvart orsök og lækningu Alzheimer
Einn öflugasti talsmaður nýrrar nálgunar á Alzheimersjúkdóminn í Þýskalandi er sameindaerfðafræðingurinn dr. Michael Nehls. Hann leysti orsakir ýmissa erfða-sjúkdóma við störf sín við háskólana í Freiburg, Heidelberg, Frankfurt og Hannover, en einnig við háskóla San Diego í Kaliforníu. Í dag vinnur Nehls sem sjálfstæður læknisfræðilegur vísinda-rithöfundur og kennari. Hann hefur sett sér það markmið að útskýra orsakir menningar-sjúkdóma á skiljanlegu máli fyrir almenning og heldur erindi hjá háskólum og á ráðstefnum. Fyrir brautryðjandi þekkingu sína á Alzheimer-sjúkdómnum var Nehls sæmdur Hanse-verðlaununum í sálfræði við læknaháskólann í Rostock árið 2015. Sama ár lauk hann við og gaf út bók, sem hann nefnir: Alzheimer er læknanlegur (Alzheimer ist heilbar, Wilhelm Heyne Verlag München 2015). Í bókinni greinir Nehls frá kenningu sinni um orsakir og meðhöndlun Alzheimer-sjúkdómsins. Hann telur hann vera menningarsjúkdóm (skort-sjúkdóm), sem skapist af breyttu líferni mannsins. Sérstaklega nefnir hann þar vestræna menningu og lífsstíl. Segir hann í því sambandi, að áhrif langvarandi streitu á nútímamanninn sé ráðandi í upphafi sjúkdómsins og leiði til vítahrings neikvæðra efnaskipta, t.d. insúlin-viðnáms (insulin resistance) og síðar Alzheimer.
Um svipað leiti og bókin kom út, birtist rannsóknagrein í læknablaðinu Aging (Aging (Albany NY ) 2014 Sep; 6( 9 ) : 707–717) eftir Dale Bredersen, prófessor við háskólann í suður Kaliforníu (UCLA: University of California Los Angeles), en niðurstöður hennar bentu til þess að tekist hefði að lækna níu Alzheimer-sjúklinga (af 10), með aðferðum, sem byggðar voru á kenningum Nehls. Að auki benti Nehls á aðra rannsókn, sem óbeint studdi kenningu hans, þ.e. stór rannsókn með 1260 einstaklingum, framkvæmd í Finnlandi (FINGER- rannsóknin: Finnish Geriatric Intervention Study to Prevent Cognitive Impairment), þar sem könnuð eru áhrif vestrænna lífshátta á andlega getu aldraðra.
Eins og þegar hefur verið minnst á hafa Alzheimer-rannsóknir á síðastliðnum árum aðallega beinst að sameinda-samsetningum við efnaskipti í heilanum og eru þær taldar ástæða fyrir sjúkdómnum í þróun öldrunar eða jafnvel erfðabreytingar. Til einföldunar má segja að rannsóknirnar beinist helst að breytingum á einstökum efnaskiptaferlum, og leit að réttum efnum sem færa efnaskiptaferilinn í fyrra horf, þ.e. lyfi sem „leiðréttir“ viðkomandi efnaskipti. Því má segja að þetta sé einskonar viðgerðarlæknisfræði.
Aftur á móti byggist kenningin um samþætta lækningaraðferð á heildrænni nálgun. Nehls hefur komist að þeirri niðurstöðu að í Alzheimer-sjúkdómnum liggi fyrir margs konar skortur, sem nútíma lífsstíll veldur, og líkamskerfi okkar geta ekki lagað. Í ofannefndri bók fjallar Nehls á aðgengilegan hátt um kenningar sínar, sem grundvallast á fjölmörgum rannsóknum fræðimanna. Bóki Nehls er einungis aðgengileg á þýsku, en á heimasíðu minni hef ég þýtt stóran hluta hennar, áhugasömum til glöggvunar.
Upptök Alzheimers í heilanum eru talin eiga sér aðallega stað í drekasvæðinu. Drekinn (hippocampus) er miðstöð minninga um einstaklingsbundna atburði. Það sérstaka við þennan hluta heilans er, að hann getur endurnýjað sig í svefni allt lífið (neurogenese). Drekinn býr því yfir sjálflækningar-kerfi, sem við þurfum að örva en einnig er nauðsynlegt að trufla ekki eða hindra starfsemi þessarar mikilvægu heilastöðvar með lífsmáta okkar. Nehls gerir ráð fyrir að Alzheimer-sjúkdómurinn hefjist í drekanum, nákvæmlega þar sem eðlileg nýmyndun taugafrumnanna verður, og einmitt þá, ef þessi nýmyndun er trufluð í lengri tíma, nái sjúkdómurinn yfirhöndinni. Talið er að koma megi í veg fyrir sjúkdóminn ef hin eðlilega nýliðun taugafrumnanna er endurheimt nógu snemma, þ.e. ef sjúkdómurinn takmarkast við drekann. Ef sjúkdómurinn hefur breitt úr sér, eftir margs konar taugabrautum í aðra hluta heilans, dregur mjög úr sjálflækningarmætti drekans, batahorfur minnka verulega og það næst e.t.v. aðeins stöðvun eða það hægir á sjúkdóms-þróuninni. Því er tímanleg greining mjög mikilvæg, og í raun óskiljanlegt, hvers vegna möguleikar tímanlegrar greiningar hafa ekki verið prófaðar meira en raun ber vitni.
Þó eru ýmsar breytingar í farvatninu. Nýjar rannsóknaniðurstöður, sem kynntar voru á alþjóðaráðstefnu Alzheimersamtakanna í London 16-20 júlí 2017 (AAIC 2017) auka skilning á áhættuþáttum Alzheimer-sjúkdómsins og annarra heilabilunar-sjúkdóma og skýrir möguleika á að koma í veg fyrir þá. Aðrar mikilvægar upplýsingar sem kynntar voru á AAIC 2017, voru niðurstöður úr rannsóknum á áhrifum kynþáttar og félagslegrar stöðu á líkindi þess að fá heilabilun, svo og framfarir í notkun greiningartækja og tímanleg greining sjúkdómsins. Á ráðstefnunni kynntu bandarísku Alzheimer-samtökin nýtt afar spennandi verkefni sem er kallað US POINTER (PrOtect through a lifestyle INTErvention to Reduce Risk). Leggja samtökin fram fjármuni að upphæð 20 milljóna Bandaríkjadala í rannsóknaverkefnið, en í því er ætlunin að prófa gagnsemi margháttaðra lífshátta-breytinga, í því skyni að koma í veg fyrir andlega hrörnun og heilabilun hjá 2.500 eldri einstaklingum sem þegar eru í hættu á að verða andlegri hrörnun að bráð.
Fyrstu vísar að samþættri læknismeðferð við Alzheimersjúkdómnum
Bók Nehls og rannsóknir prófessors Bredersen hafa leitt til þess, að boðið er upp á Alzheimer-meðferðir, bæði í Freiburg frá hausti 2015, og í grennd við Los Angeles fyrir stuttu síðan. Alzheimermeðferðin í Freiburg hefur nú verið prófuð í rúmt ár og virðist lofa góðum árangri. Henni er stjórnað af hjónum, sem bæði eru læknar, þ.e. (titill: Dr. med.) Brigitte og Wolfgang Karner. Wolfgang Karner lýsir Alzheimermeðhöndluninni sem svo:
„Nákvæm sjúkdómssaga, er grundvöllur faglegrar taugafræðilegrar greiningar, því sagan gefur upplýsingar um sjúkdómsþætti tilkomna vegna lífsmáta. Allir þættir er trufla nýmyndun taugafruma eru greindir. Nákvæm blóðrannsókn – með sérstökum rannsóknarþáttum fyrir Alzheimer-sjúkdóminn - og taugasálfræðilegar prófanir er grunnur meðferðar. Örvun nýmyndunar taugafrumanna er undirbúin og framkvæmd af læknum í samræmi við niðurstöðu rannsóknanna og sjúkrasögunnar.
Læknismeðferðin tekur um 6 mánuði með reglulegum eftirlitsprófunum. Á þessum tíma örvum við (lækningateymi sem samanstendur af lækni, sjúkra-, iðjuþjálfa ofl.) með ýmsum aðgerðum nýmyndun taugafrumanna í drekanum. Notuð eru fæðubótaefni og lífræn lyf, Næringarfræðileg ráðgjöf er einnig grunnsteinn meðferðarinnar. Hreyfingar- og afslöppunar-þjálfun svo og þýðing andlegs stöðugleika eru kennd á skemmri námsskeiðum, sem eru vikulega.
Umönnunaraðili sjúklingsins er alltaf þýðingarmikill þátttakandi í meðferðinni. Þetta er sérstaklega mikilvægt, þar sem umönnunaraðili er oftast aðstandandi/-endur, en þeir eru í talsverðri hættu að fá líka Alzheimer-sjúkdóminn. Þetta er því jafnframt hugsað sem forvörn. Þar að auki verður breytingin á lífsmynstri þá fyrst áhrifamikil, ef aðstandandi/umönnunaraðili er tilbúinn að taka þátt.
Fyrir 50 árum síðan gengum við að meðaltali 20 km á dag. Í dag ganga margir aðeins nokkur hundruð metra. Það er sorglegt, því að líkamleg hreyfing er skilyrði þess að örva myndun taugafruma í drekanum. Aðeins með hreyfingu veit heilinn, að búast má við nýrri upplifun. Til þess þarfnast hann meiri minnis-geymslu og losun hormóna sem örva nýmyndun í drekanum fer af stað. Þar að auki verkar hreyfing gegn bólgumyndun og örvar efnaskipti líkamans, sem brýtur niður „Alzheimer-eitrið“ (þ.e. beta-amyloid sem er ákveðin próteinsameind sem safnast upp í heilavef Alzheimersjúklinga og veldur eituráhrifum sem drepa heilafrumur). Hreyfingarleysi veldur skorpnun drekans og áhættan á Alzheimer-sjúkdómnum vex. Vísindalegar rannsóknir sýna glöggt, að regluleg úthalds- og kraft-þjálfun er góð vörn gegn Alzheimer og heldur verulega aftur af þróun sjúkdómsins. Það þarf aðeins 40 mínútna rösklega göngu daglega, til þess að minnka áhættuna um helming eða hægja á ferlinu hjá einstaklingum, sem þegar hafa sjúkdóminn.
Krónisk streita er mjög slæm fyrir drekann. Aðferðir, sem grundvallast á eftirtektarsemi svo sem MBSR (Mindfulness Based Stress Reduction), jóga og hugleiðslu, hjálpa til við að róa hugann og minnka streitu. Í ástandi íhugunar er gott að koma reiðu á hugsanir sínar og komast í stöðuga ró. Sá sem æfir reglulega minnkar streitu.
Sérhver einstaklingur þarf á félagslegu neti að halda. Þetta á auðvitað einnig við um Alzheimer-sjúklinga og aðstandendur þeirra, sem þurfa að breyta lífsmynstri sínu í samræmi við Alzheimer-meðferðarkerfið. Að segja skilið við ýmsar vinsælar venjur, og ávana, leiðir oft af sér innri og ytri ágreining. En átökin geta einnig leitt til verðmætrar lífsreynslu. Hvort lífsmynstursbreytingarnar takast fer eftir vilja hvers og eins, svo og því hvort þessar breytingar mæta velvilja eður ei.
Svo er svefn mjög mikilvægur fyrir heilastarfsemina. Í djúpsvefni fer nýmyndun taugafrumanna fram. Og í svefni skeður líka eins konar afeitrun eða hreinsun. Því að til þess að vera vel upplagður næsta dag og viðbúinn að nema nýja atburði og upplifanir, verður það beta-amyloid, sem fellur út, að ná að brotna niður og vera flutt í burtu. Ef þetta gerist ekki, kemur það í veg fyrir að heilinn geti unnið úr nýjum upplifunum - og það sem er enn verra: beta-amyloid klístrast og verður Alzheimer-eitur. Nýmyndaðar heilafrumur geta því aðeins vaxið, að þær fái rétta næringu. Sé í henni rétt efni þ.e. næringar- og verndar-efni geta taugafrumur endurnýjað sig.
Því miður koma þessi mikilvægu næringarefni sjaldan á matardiska okkar á tíma streitu og markaðsráðandi lífsstíls. Einnig hafa iðnaðartengdar söluherferðir og næringar-meðmæli með matvöru leitt til næringar-goðsagna og rangra matarvenja. Skortur á DHA (omega- 3 fitusýrur) leiðir til hægara viðhalds heilans og þar með minni hugar-færni. Við innbyrðum aftur á móti allt of mikið af omega-6 fitusýrum. Þetta skaðar heilsu okkar og leiðir til krónískrar bólgu-tilhneigingar í fjölmörgum vefjum, einnig í heilanum. Jafn hættulegar eru trans-fitusýrurnar, því þær líkjast DHA, og rata ranglega sem innviðir í taugafrumur, sem síðan leiðir til ofmyndunar beta-amyloids og hætta á Alzheimer eykst svo um munar. Því er umbreyting yfir á sem mest „ketogen“ mataræði (lágkolvetna-mataræði, innskot höf.) nauðsynleg.
Auk réttra fituefna, er þýðingarmikið fyrir viðhald drekans, að vernda taugafrumurnar fyrir takmarkalausri sykurstreitu. Alzheimer-sjúklingar hafa ónothæft sykur-eftirlitskerfi, þannig að orkuútvegun drekans og alls heilans er hindruð. Þetta er nefnt tauga-insulin-hindrun (neural insulin-resistance).
Breyting á fæði er því mjög nauðsynleg, til þess að vinna gegn Alzheimer-sjúkdómnum. Í meðferð okkar kennum við hvernig úrval réttra fæðuefna virkar og að hægt er að flétta það inn í daglegt líf okkar til verndar heilanum.
Þá er það meltingarkerfi okkar, sem er inn- en jafnframt útrennsli út í umhverfi okkar. Ekkert af því sem við borðum og drekkum gæti nært okkur, ef meltingarkerfið myndi ekki brjóta niður fæðuna, leysa hana upp með meltingarvökva og soga hana úr þörmunum. Hjá mörgum er fyrir hendi truflað meltingarkerfi, þannig að mikilvæg næringarefni nýtast ekki, eða aðeins að hluta. Þannig geta, þrátt fyrir að fæðan sé holl, komið fram skortseinkenni eða efnaskipta-truflanir, einfaldlega vegna þess að þarmarnir eru vanvirkir. Nokkrir þessara ófullkomnu næringarhluta eru einnig skaðlegir taugafrumum og heilastarfseminni.
Það var ekki fyrr en á síðustu árum, sem vísindamenn uppgötvuðu mikilvægi þarma-flórunnar. Mikrobiom eins og þarmaflóran er nefnd á sérfræðimáli, hefur geysimikla þýðingu fyrir heilsu okkar og einnig fyrir heilastarfsemina. T.d. mynda þarmabakteríur mörg vítamín, sem eru mikilvæg fyrir heilastarfsemina. Verði truflun á „mikrobiom“ þá er meðhöndlun hennar og þarmanna mikilvæg.“
Að lokum dregur dr. Karner saman:
„Ekkert er erfiðara en að víkja frá þekktum leiðum/gömlum vana, breyta lífsvenjum og endurmeta skoðanir sínar. En ef laun þessa erfiðis er bætt heilsa, meira sjálfstæði og endurheimt minninga eða hugarfærni, er tilraunin alla vega þess virði. Þessi breyting á lífsháttum er allt annað en einföld og tekst sjaldnast án hjálpar. Þess vegna bjóðum við á stofunni okkar kerfisbundna líffræðilega Alzheimer-meðferð, sem er sú fyrsta í Þýskalandi. Í 6 mánaða meðferðar-áætlun okkar lærið þið skref fyrir skref, hvernig þið breytið daglegu lífsmynstri ykkar þannig að heilastarfsemin nær fyrra heilbrigði“.
Samþætt lækningameðhöndlun Alzheimersjúkra á Íslandi? Þar sem ég er aðstandandi Alzheimersjúklings, en hef ekki séð fjallað um þessar nýjungar hér á landi finnst mér mikilvægt að gefa íslendingum færi á að kynna sér þær. Ef Nehls og félagar hafa rétt fyrir sér, um að ná megi fram miklum umbótum bæði fyrir einstaklingana sem veikjast, sem og heilbrigðiskerfið í heild, er þá ekki kominn tími til að skoða málið og prófa?
Athugasemdir