Það getur verið flókið að taka þátt í umræðum um dægurmál á Íslandi. Í fyrsta lagi þarf að fylgjast vel með, því það sem rifist er um í dag er sennilega alls ekki til umræðu eftir helgi. Í öðru lagi finnst manni nú oft ýmislegt – sem stangast á við annað sem manni finnst líka.
Þessi klemma kemur iðulega upp í umræðunni um gagnrýni á konur í stjórnmálum. Margir, meðal annars konur sem hafa tekið þátt í stjórnmálum, segja að gagnrýni á konur í pólitík sé óvægnari en gagnrýni á karla sem láta nákvæmlega sömu apalátunum.
Nýlega var ritari og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, staðin að því að óska eftir hlekk á ólöglegt niðurhal höfundarréttarvarins sjónvarpsefnis á Twitter. Augljóslega gengur ekki að formaður allsherjar- og menntanefndar Alþingis, þeirrar nefndar sem fer með menningarmál og þar með höfundarrétt og fjölmiðlun en einnig neytendamál, dóms- og löggæslumál og fleira, geri það. Skjáskot náðist af tísti Áslaugar sem hún eyddi eftir að hafa fengið hlekk á vafasama síðu. Í afsökunarbeiðni sinni sagðist hún bæði hafa vitað betur og misst af góðum bardaga og bar við hvatvísi og hugsunarleysi.
„Karlar í stjórnmálum gera líka gloríur. Og stundum getur maður ekki annað en velt því fyrir sér hvernig og hvers vegna þeir komast upp með alla vafningana.“
Stundum eru lög heimskuleg og stefna stjórnmálaflokka snýst um breytingar, meðal annars með löggjöf. Ef þingmaður Pírata hefði opinberlega beðið um hlekk á ólöglegt streymi værum við kannski ekkert að ræða þetta því endurskoðun höfundarréttar er eitt af stefnumálum þeirra. Sjálfstæðisflokkur Áslaugar Örnu lítur hins vegar svo á að eignarrétturinn séu æðstu mannréttindin. Þegar hún biður um aðstoð við að stela horfir það öðruvísi við en þegar sjóræningjarnir gera það. Þeir voru búnir að láta okkur vita fyrirfram.
En fengi sjálfstæðiskarl vægari meðferð fyrir sambærilegan dómgreindarbrest? Síðustu ár hefur stjórnmálaþátttaka kvenna aukist mikið, sem betur fer. Tölur sýna okkur þó að þær staldra styttra við og sumir vilja meina að þær séu hreinlega hraktar á brott um leið og þeim verða á mistök. Og allir gera mistök einhvern tímann. Að minnsta kosti tveir kvenráðherrar hafa borið því við að þær hafi fengið harðari meðferð en karl í sömu stöðu. Hanna Birna Kristjánsdóttir orðaði það svo að konur væru ennþá „gestir í stjórnmálum“. Ég er ekki sammála því og vona að karlráðherra sem hefði komið sér í sama fen og hún hefði fengið nákvæmlega sömu meðferð. Ég er þó hrædd um að hvaða ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem er hefði komist upp með sambærilegan leka úr ráðuneyti sínu fyrir hrun. Þjóðin gerir nú aðrar kröfur til stjórnmálamanna. Björt Ólafsdóttir veifaði svo feðraveldistrompinu í stóra kjólamálinu þar sem hún tók þátt í auglýsingaherferð fyrir fataframleiðanda inni í sal Alþingis. Hún sá að sér, baðst afsökunar og viðurkenndi að hennar eigin afglöp hefðu ekkert með feðraveldið að gera.
Karlar í stjórnmálum gera líka gloríur. Og stundum getur maður ekki annað en velt því fyrir sér hvernig og hvers vegna þeir komast upp með alla vafningana. Forsætisráðherra vor er sérlega teflonhúðaður maður. Það er sama í hverju hann lendir; það tollir ekkert á honum. Hjá siðmenntaðri þjóð ætti Borgunarmálið eitt og sér að nægja honum til að víkja og snúa sér að öðru. Ég tala nú ekki um eignarhald á félagi í skattaskjóli.
Þótt ég sjái ekki ástæðu til að gefa Áslaugu Örnu siðferðislegan afslátt sökum kynferðis eða aldurs sé ég ekki betur en að nokkuð sé til í því að gagnrýni á konur í stjórnmálum geti verið harkalegri en gagnrýni á karla. Vandinn er þó ekki að við gerum of miklar kröfur til kvenna heldur miklu frekar sá að við höfum of litlar væntingar til karlanna. Það er fáránlegt að í forsætisráðuneytinu sitji maður flæktur í ótal neyðarleg spillingarmál. Gagnrýnum það. Af fullri hörku.
Athugasemdir