Maður sem var dæmdur fyrir að nauðga stjúpdóttur sinni nær daglega frá því hún var um 5 ára gömul þar til hún var tæplega 18 ára, fékk uppreist æru þann 16. september síðastliðinn, sama dag og barnaníðingurinn Robert Downey.
Maðurinn var dæmdur í 5 og hálfs árs fangelsi fyrir brotin árið 2004 og gert að greiða stúlkunni eina og hálfa milljón króna í miskabætur. Um er að ræða þyngsta dóm sem fallið hafði vegna kynferðisbrota gegn barni á þessum tíma, en Hæstiréttur taldi einsýnt að maðurinn hefði gerst sekur um „grófa kynferðislega misnotkun gagnvart kæranda sem stóð yfir í langan tíma, eða um 12 ár allt frá unga aldri hennar“. Maðurinn hefði misnotað freklega vald sitt yfir henni sem stjúpfaðir og valdið henni djúpstæðum skaða.
Í dóminum yfir manninum kemur fram að hann hafi neitað allri sök. Þegar Stundin hafði samband við manninn kvartaði hann undan því að níðst hefði verið á sér og sagðist hafa verið dæmdur án sannana. „Sko, það er eitt að vera dæmdur án sannana, það er mjög alvarlegt og ég er ekki að hanga í því af því að það hentar mér. Málið er að það er enn verið, þegar þú ert búinn að sitja af þér og búinn með allt saman, þá er enn verið að níðast á þér,“ segir maðurinn. Rétt er að taka fram að bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur Íslands töldu fullsannað að maðurinn hefði brotið gróflega og ítrekað gegn stjúpdóttur sinni.
Mikil reiði blossaði upp í vor eftir að greint var frá því að kynferðisbrotamaðurinn Robert Downey hefði fengið uppreist æru og öðlast lögmannsréttindi á ný. Robert var dæmdur í þriggja ára fangelsi árið 2008 fyrir að brjóta gegn fjórum stúlkum, einni sem var fjórtán ára þegar brotin voru framin og þremur sem voru fimmtán ára. Hann komst í samband við stúlkurnar með blekkingum og tældi þær til kynmaka með peningagjöfum. Árið 2010 var hann dæmdur á ný fyrir brot gegn fimmtu stúlkunni án þess að honum væri gerð refsing í því máli. Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, lagði til við forseta Íslands þann 14. september 2016 að Robert fengi uppreist æru og óflekkað mannorð en bréfið var undirritað af Guðna Th. Jóhannessyni forseta tveimur dögum síðar og öðlaðist þá formlegt gildi.
Nú er orðið ljóst að annar kynferðisbrotamaður, sem fékk þyngri refsingu og framdi brot gegn barni sem var enn yngra en fórnarlömb Roberts, fékk einnig uppreist æru sama dag. Maðurinn staðfesti þetta sjálfur þegar Stundin hafði samband við hann. „Jú, ég fékk uppreist æru eftir að hafa verið rekinn 13 sinnum úr vinnu,“ sagði hann.
Stundin ræddi einnig við þolanda mannsins sem hafði ekki vitneskju um málið. Henni varð brugðið þegar hún frétti að ríkið hefði veitt manninum óflekkað mannorð.
Misnotuð frá því að hún man eftir sér
Brotin voru framin á tímabilinu 1988 eða 1989 til 2000. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafði fyrst afskipti af heimilinu árið 1997 eftir að tilkynning barst um hugsanlega kynferðislega áreitni stjúpföðurins gagnvart stúlkunni og í janúar árið 2002 kærði stúlkan hann til lögreglu. Sagði hún manninn hafa misnotað sig kynferðislega „frá því hún man eftir sér og fram að þeim tíma er hún fór að heiman 18 ára gömul“.
Maðurinn var ákærður í september sama ár og gefið að sök að hafa „nær daglega haft við hana samræði eða önnur kynferðismök“ á umræddu tímabili og fundinn sekur í Hæstarétti tveimur árum síðar. Um leið var hann sýknaður af ákærulið um að hafa einnig framið kynferðisbrot gegn frænku stúlkunnar þegar hún var 13 ára gömul, þrátt fyrir að framburður hennar væri metinn trúverðugur og ljóst þætti að hún hefði orðið fyrir áfalli og fengið áfallastreituröskun.
Vildi vera „bæði faðirinn og afinn“
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2003 sem staðfestur var í Hæstarétti þann 25. mars árið 2004 koma fram ítarlegar lýsingar á grófu og margvíslegu kynferðislegu ofbeldi sem maðurinn beitti stjúpdóttur sína allt frá því hún var lítið barn. Verða grófustu lýsingarnar ekki hafðar eftir hér, en brotin fóru meðal annars fram heima hjá þeim, í bifreið fjölskyldunnar, í fjallgöngum og á ferðalögum erlendis.
Eftir að stúlkan varð eldri og fór að kynnast strákum ráðlagði stjúpfaðirinn henni að segja strákunum ekki frá því sem hann hefði gert, því þá myndi enginn líta við henni. Henni leið eins og ofbeldi mannsins væri sér að kenna og það var ekki fyrr en hún varð 18 ára sem hún skildi að sökin var ekki hennar. „Stúlkan segir að ákærði hafi iðulega sagt við hana að ef hún segði öðrum frá háttsemi hans myndi enginn trúa þessu upp á hann því allir vissu hvað hann væri góður maður, en hún væri viðbjóður og fólki myndi finnast það. Hann hafi líka sagt að ef hún tryði einhverjum strák fyrir þessu myndi enginn líta við henni,“ segir í dóminum.
Athugasemdir