„Ég er duglegur að heimsækja fólkið í kjördæminu,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, aðspurður um hvað hann hafi sent Alþingi háa reikninga vegna aksturs á bifreið sinni á síðasta kjörtímabili. Ásmundur neitar að gefa upplýsingar um hversu háar fjárhæðir hann fékk endurgreiddar en svipaða sögu má segja um ansi marga aðra þingmenn.
Stundin sendi fyrirspurn um þetta á alla núverandi þingmenn á Alþingi Íslendinga og var einungis einn þeirra sem hefur innheimt akstursgjöld sem sendi blaðinu sundurliðaðar upplýsingar um þetta, Eva Pandóra Baldursdóttir úr Pírötum. Í svörum Evu Pandóru kemur fram að hún leigði sér bílaleigubíl vegna starfa sinna og innheimti svo akstursgjöld til að greiða fyrir hann; innheimt akstursgjöld hennar í fyrra og í ár voru rúmlega 52 krónum lægri en rúmlega 680 þúsund króna akstursgjöldin sem hún innheimti. Aðrir hafa ekki svarað spurningunum með sundurliðuðum hætti. Þó er ljóst að fjöldi þingmanna hefur nýtt sér þessa heimild til greiðslu úr ríkissjóði.
Skattfrjálsar greiðslur til þingmanna
Á síðasta kjörtímabili og það sem af er þessu hefur Alþingi greitt þingmönnum rúmlega 171 milljón króna vegna aksturs þeirra á eigin bifreiðum í kjördæmum sínum samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Alþingis. Endurgreiðslurnar eru skattfrjálsar og eru skilgreindar sem endurgreiddur kostnaður. Hinn möguleikinn sem þingmenn hafa á ferðalögum sínum um kjördæmi sín er að nota bílaleigubíla.
Kostnaðurinn við endurgreiðslurnar til þingmanna er hins vegar umtalsvert meiri en að nota bílaleigubíla og hefur skrifstofa Alþingis beint þeim tilmælum til þingmanna að þeir noti frekar bílaleigubíla þegar því verður komið við, samkvæmt Helga Bernódussyni, skrifstofustjóra Alþingis: „Skrifstofa Alþingis hefur jafnan reynt að svara fyrirspurnum fjölmiðla um rekstur þingsins og greiðslur fyrir alþingiskostnað bæði fljótt og greiðlega, alveg eins og tök eru á að keyra út úr bókhaldi og vinna þær upplýsingar. Erfitt er að áætla sparnað með því að nota bílaleigubíla, en hann gæti orðið einhver. Bílaleiga hefur lækkað mjög mikið á undanförnum árum og bílaúrvalið aukist. Það er ástæðan fyrir því að lækka má kostnað við ferðir þingmanna. Því verður þó ekki alltaf komið við.“
Kostnaður Alþingis vegna greiðslna til þingmanna út af notkun þeirra á eigin bílum hefur lækkað á liðnum árum, til dæmis var þessi kostnaður tæplega 52 milljónir árið 2014 en tæplega 38 milljónir króna árið 2015.
Athugasemdir