Síðsumars rölti ég heim til mömmu minnar sem býr í Þingholtunum, á eftir fylgdu sex ára sonur minn og litla frænka okkar á níunda ári. Íbúarnir sleiktu sólina og þegar nær dró sá ég að mamma hafði stillt upp garðborði og tveimur stólum úti á gangstétt. Þar reykti hún nautnalega en spurði samstundis hvort það mætti bjóða okkur eitthvað.
Þú átt ekkert glúteinfrítt – er það? spurði ég.
Nei, elskan, sagði hún, svo afsakandi að ég flýtti mér að þiggja vatnsglas.
Krakkar, þið skuluð líka fá ykkur vatn, sagði hún svo en þá gall í litlu frænku minni: Þú mátt ekki segja okkur að drekka, við verðum að vilja drekka.
Og þú átt heldur ekki að reykja! botnaði hitt barnið.
Nú, fyrirgefið mér, elskurnar, sagði mamma en dæsti laumulega á leiðinni inn að ná í vatnsglas.
Litlar orðalöggur
Þegar hún kom aftur út huggaði ég hana með því að börnin siðuðu fleiri til en hana, sjálf væri ég ennþá að jafna mig eftir óvissuferð með þeim deginum áður.
Við höfðum farið á japanskt te- og kökuhús í húsnæði sem ég mundi síðast eftir sem Grandakaffi fyrir gamla karla að gúffa í sig uppáhellingu og flatkökur með hangikjöti á milli þess sem þeir röngluðu út í upphitaða viðbyggingu að svæla sígarettur í kjaftaglöðu munaðarmóki. Á japanska tehúsinu hafði ég flett Haruki Murakami á klósettinu meðan börnin fúlsuðu við handskreyttum tertusneiðum og sulluðu blómatei yfir manga-teikningar. Þegar við stigum aftur út skildist mér að ég hefði gleymt mér aðeins of lengi í Hard-Boiled Wonderland. Getið þið gengið hraðar, annars verð ég of sein að hitta vinkonu mína, bað ég börnin sem veltu upp hverri steinvölu á leið sinni.
Þú ert að hóta okkur! sagði frænka mín með krosslagðar hendur, ákveðin í að hvika ekki fyrr en ég hefði gengist við glæpnum.
Hvernig þá? spurði ég hrelld.
Þú sagðir annars, svaraði hún ströng. Annars þýðir að hóta. Ef við gerum ekki það sem þú vilt, þá annars bara ... eitthvað! Það er að hóta.
Já! Þú varst að hóta, ítrekaði sonur minn og krosslagði líka hendur.
Af því að þú sagðir annars, endurtók stelpan, mæðuleg eins og kennari andspænis treggáfuðum nemanda.
Ég var bara að biðja ykkur um að taka tillit til mín svo ég næði að hitta vinkonu mína, útskýrði ég, óþægilega mikið í vörn.
Þú varst sko ekki að biðja, sagði hún og hristi hausinn.
Ó, nei, staðfesti strákurinn. Þú varst að hóta, mamma!
Fram með píkuskrímslið
Þau eru orðin alveg óþolandi pólitískt rétthugsandi, þessi börn, það má bara ekkert segja við þau, flissaði mamma þegar ég hafði sagt henni frá óvissuferðinni.
Ekki boffs, samsinnti ég og eitt augnablik vorum við systur frekar en mæðgur, afsprengi tíma sem virtist eins fjarlægur tíðarandanum í dag og Grandakaffi japanska tehúsinu.
Börnin urðu eftir hjá mömmu þegar ég fór síðan að dansa í Kramhúsinu á blönduðu námskeiði. Kennarinn í það skiptið var Margrét Maack og í flækingslegu spori kallaði hún glaðhlakkalega sposk eitthvað á þessa leið: Fram með píkuskrímslið!
Sumar konurnar flissuðu meðan aðrar roðnuðu lítillega en Edda Björgvinsdóttir, leikkona og æskuvinkona móður minnar, minntist þess að hafa verið ung að dansa hjá kennara sem hafði í þessu sama spori sagt: Fram með prinsessuna!
Helvítis píkan hann Jón
Við hlógum allar að þessum gamla kennara en um leið hvarflaði að mér að flest það sem þótti óviðkunnanlegt að segja þegar ég var krakki tengdist kvenlíkamanum. Á sama tíma þótti viðeigandi að tengja kynfæri kvenna við allt niðrandi. Fólk sagði: Helvítis píkan hann Jón, píkuskrækir í henni Gunnu, píkulæti í smástelpunum og allt eftir því. En ef talið beindist beinlínis að kynfærum kvenna var gjarnan talað um prinsessu og buddu og framrass og pjötlu. Að einhver hefði talað um að beina píkunni fram – til að ná fram rétta attitjútinu, stelpur! – var álíka fjarstæðukennt og hitabylgja á Svalbarða.
Píkan var samnefnari yfir eitthvað svo óþægilegt að ég veit varla hvað það var og mæðrum fannst það ekki síður óþægilegt en dætrunum. Þegar ég var unglingur las mamma eitt sinn pistil eftir konu sem skrifaði opinskátt um náin samskipti sín við karlmenn í tilraun til að skilgreina veruleika sinn út frá þeim. Mamma las allan andskotann en kannski var nýtt og óþægilega nálægt að lesa eitthvað í þessum dúr á íslensku því hún fussaði í hálfkæringi: Hvernig nennir hún að skrifa með píkunni á sér?
Hugsa eins og karlmaður
Mér fannst athugasemdin voðaleg og orðin sátu í mér þó að mamma hafi líkast til gleymt þeim jafnóðum og myndi líkast til ekki segja þetta í dag. Kannski á hún eftir að þræta fyrir að hafa sagt þetta, svo fjarri er þetta konunni sem hún er núna, þessari sem virðir fyrir sér ferðafólk frá Kína þar sem hún situr fyrir utan heimili sitt og ræðir orðanotkun við hin pólitískt rétthugsandi barnabörn sín. Nú myndi hún líklega setja ofan í við þann sem segði eitthvað álíka við hana, meðvituð um samspil orða og veruleika. Hvernig orðin móta veruleikann, ýmist sögð eða ósögð.
Svipaða sögu er að segja um mig. Gott ef ég hef sjálf ekki einhvern tímann talað um að skrifa með píkunni. Í það minnsta finnst mér að árum saman hafi ég forðast að skrifa – og þar með hugsa – nokkuð sem gæti fallið undir þessa undarlegu skilgreiningu að skrifa með píkunni. Sem getur verið ansi margt á margs konar hátt þegar maður er kona. Við nánari umhugsun held ég að fram eftir aldri hafi ég leitast við að skrifa eins og karlmaður, þó að ég væri að skrifa um veruleika kvenna.
Hugsa eins og karlmaður.
Hvað sem felst nú í því.
Félagslegt taumhald
Hvað þýðir það að skrifa eins og karlmaður?
Ég gat ekki fest fingur á það, þó mér fyndist ég vita það óljóst, svo ég leitaði ráða hjá föðursystur minni sem er með doktorsgráðu í mannvistarlandafræði, eins konar samblandi af félagsfræði og mannfræði. Hún útskýrði hugsanir mínar fyrir mér: Þú hefur verið þjökuð af moral anxiety, sagði hún, letilega viss í sinni sök.
Hvernig þá? spurði ég skelfd.
Siðferðileg togstreita sem býr til félagslegt taumhald, sagði hún og strauk hendi í gegnum pönkaralegt hárið. Leið samfélagsins til að passa upp á að einstaklingar hagi sér á ákveðinn hátt samkvæmt þeim gildum sem samfélagið leggur upp með. Og fyrir konur gilda ákveðin gildi og viðmið. Í þessu tilviki á það við þig sem kvenrithöfund, konu að skrifa. Þú býrð við félagslegt taumhald sem rithöfundur, við það eitt að vera kona.
Ósýnilegt kvenveski
Að reyna að skrifa eins og karlmaður þýðir í huga mínum að kona ritskoði hugsanir og tjáningu sína. Skrif snúast svo mikið um leit að svörum en sá sem ritskoðar sig of snemma í ferlinu nær aldrei að leita eða uppræta tabú heldur tjáir fyrirfram gefnar hugmyndir. Skrifin falla inn í viðurkennda ramma og væntingar um aga og gildi.
„Blygðun er ósýnilegt kvenveski“
Blygðun er ósýnilegt kvenveski; konur hafa löngum þurft að laga sig að hugmyndum ríkjandi menningarheims um hvað séu siðsamlegar hugsanir og tilfinningar og hvernig líkami þeirra eigi að vera. Stundum hefur það jafnvel virst vera tabú fyrir konur að gangast við því að vera mannlegar. Besta leiðin til að halda þeim niðri og stöðva nýja hugsun í fæðingu er að fá þær til að skammast sín fyrir eigin veru; líkama, hugsanir og tilfinningar. Og þess vegna hef ég gaman af pólitískri rétthugsun barnanna, þó að þau séu stundum frakkir beturvitrungar. Börnin kalla eldra fólk til ábyrgðar að hugsa um hvernig við notum orðin og hvernig við tjáum okkur.
Athugasemdir