Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Farið fram á nauðungaruppboð hjá Birni Inga Hrafnssyni

Far­ið var fram á nauð­ung­ar­upp­boð hjá Birni Inga Hrafns­syni, að­aleig­anda Vefpress­unn­ar, DV og fleiri fjöl­miðla. Hann fékk kúlu­lán frá Kviku banka með veiku veði. Hann hef­ur keypt sjón­varps­stöð og tíma­rita­út­gáfu á sama tíma og hann hef­ur ver­ið í van­skil­um. Hann seg­ir mál­ið ekki tengj­ast fjöl­miðla­rekstri hans, það hafi ver­ið leyst og að óeðli­legt sé að fjalla um það.

Farið fram á nauðungaruppboð hjá Birni Inga Hrafnssyni
Björn Ingi Hrafnsson Hefur keypt upp fjölda fjölmiðla á undanförnum árum en hefur á sama tíma verið í vanskilum.

Aðeins mánuði eftir að tilkynnt var að Björn Ingi Hrafnsson, aðaleigandi Pressunnar og DV, væri að kaupa stærstu tímaritaútgáfu landsins, var farið fram á nauðungaruppboð á mikið veðsettu húsi hans. 

Björn Ingi fékk 12 milljóna króna kúlulán þremur dögum fyrir yfirtöku á blaðaútgáfunni Fótspori í fyrra sem átti að greiða fyrir ári síðan. Kvika banki fór fram á uppboð á húseign Björns Inga á Másstöðum 2 í Hvalfirði vegna 14,4 milljóna króna skuldar.

Á meðan Björn Ingi hefur verið í vanskilum hefur fjölmiðlaveldi hans stækkað ört. Meðal fjölmiðla sem Björn Ingi hefur keypt upp á undanförnum tveimur árum eru DV, Séð og heyrt, Nýtt Líf, Gestgjafinn, Vikan, Reykjavík, Akureyri, Vesturland, Vestfirðir og sjónvarpsstöðin ÍNN. 

Samtals eru 90 milljón króna skuldir með veð í fasteign hans í Hvalfirðinum frá Íslandsbanka, Glitni HoldCo, Landsbankanum og Kviku banka. Síðasta lánið, upp á 12 milljónir króna, hlaut Björn Ingi í júlí í fyrra. Um var að ræða kúlulán til sex mánaða. 

Björn Ingi segir í samtalið við Stundina að um hafi verið að ræða lága upphæð og að málið hafi nú verið leyst. Hann segir að foreldrar sínir búi á eigninni sem farið var fram á uppboð vegna og að málið tengist ekki fjölmiðlarekstri hans. „Þetta er algjört prívatmál. Þetta er að mínu mati ekki fréttaefni, bara svo það liggi fyrir,“ segir Björn Ingi.

Hann er skráður 100% eigandi að eigninni, er handhafi lánanna og var uppboðið síðast auglýst í Lögbirtingablaðinu 20. desember síðastliðinn með nafni Björns Inga. „Ég var að segja þér það,“ segir Björn Ingi. „Þessi eign kemur fjölmiðlafyrirtækjum ekkert við. Hún tengist ekki því með neinum hætti. Þannig þetta er algjörlega fyrir utan það.“

Fékk lánið frá Kviku dagana fyrir yfirtöku á blaðaútgáfu

Björn Ingi fékk lánið, með veði í mikið veðsettri eign í Hvalfirði, þremur dögum áður en tilkynnt var um kaup hans á blaðaútgáfunni Fótspori í júlí 2015, sem gefur meðal annars út Reykjavík vikublað og Akureyri vikublað. Eftir kaupin var skipt um ritstjóra á báðum blöðum og var einn þekktasti frjálshyggjumaður landsins, Björn Jón Bragason, gerður að ritstjóra Reykjavíkur vikublaðs.

„Það veit enginn hvaðan peningarnir koma í það sem menn eru að gera“

Sjálfur segir Björn Ingi við Stundina að 12 milljóna króna lánið sem fékkst þremur dögum fyrir kaupin á Fótspori hafi verið ótengt kaupunum. „Það er bara það sem verið er að gera. Það er verið að byggja þrjú lítil hús á jörðinni. Svona 20 fermetra sæluhús eða svona litla svefnkofa. Það er bara það sem málið snýst um. Það er ekkert annað. Þetta tengist ekkert fjölmiðlafyrirtækinu. Nú er stundum sagt að það veit enginn hvaðan peningarnir koma í það sem menn eru að gera, en þarna er það samt þannig að ég á einhverja eign og ég er að taka lán út á hana, er það ekki það sem menn eru að gera út um allt í sínu lífi? Það er eitthvert veð á bak við lán og skilurðu hvað ég á við? Það er bara eðlilegt.“ 

Hús Björns Inga í HvalfirðiBjörn Ingi Hrafnsson náði að veðsetja hús sitt, sem er með brunabótamat upp á 56 milljónir króna, fyrir 90 milljónir.

Lánið umfram fasteignamat

Brunabótamat á fasteignir Björns Inga á Másstöðum 2 í Hvalfirði er samtals 56,4 milljónir króna. Engu að síður eru lán upp á 90 milljóna króna með veð í eigninni. Samtals er fasteignamat á einbýli, bílskúr, alifuglahúsi, verkfærageymslu og ræktun á Másstöðum 2 rétt rúmar 27 milljónir króna.

Lánin sem eru á eigninni eru því 63 milljónir umfram fasteignamatið. En það segir ekki alla söguna.

Ef bætt er við fjósi og hlöðu á Másstöðum 3, sem Björn Ingi á einnig, hækkar fasteignamatið um rúmar tvær milljónir króna. Lóðamat er hins vegar 2.350.000 krónur samkvæmt fasteignamati. 

„Þetta er margra hektara jörð, sjávarjörð undir Akrafjalli. Þú getur ekkert miðað bara við fasteignamatið, hún er miklu meira virði heldur en lánið. Það er fullt af húsum á jörðinni og svo er hún margir hektarar. Þannig þetta er að sjálfsögðu langt undir, það er miklu minna áhvílandi á jörðinni og á húsinu heldur en sem nemur verðmæti hennar,“ segir Björn Ingi.

Upplýsingar um verðmæti jarða eru ófullkomnar hjá Fasteignamati ríkisins. Samkvæmt Fasteignamati ríkisins er jörð Björns Inga milli Akraness og Grundartanga í Hvalfirði um 7 til 8 hektarar að stærð. Sumarbústaðalóðir í Hvalfirðinum eru seldar á rúmlega milljón hver hektari og má því gera ráð fyrir að verðmeta mætti eignirnar á milli 60 til 70 milljónir króna með góðum vilja, sem er um 20 til 30 milljónir króna undir veðsetningu þeirra. Þar sem lán Kviku er á 8. veðrétti er staða bankans afar veik.

Fjárkúgunarmálið tengdist Kviku

Björn Ingi Hrafnsson er góður vinur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Mágur Sigmundar Davíðs er forstjóri Kviku, sem áður hét MP banki, sem veitti Birni Inga kúlulán í kringum kaupin á blaðaútgáfunni Fótspori, með veði í yfirveðsettu húsi Björns Inga í Hvalfirði.

Forsætisráðherra og fjölmiðlaeigandiForsætisráðherra og fjölmiðlaeigandiBjörn Ingi Hrafnsson sést hér á mynd Morgunblaðsins í afmæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Sagt var frá því sumarið 2015 að fyrrverandi kona Björns Inga Hrafnssonar, Hlín Einarsdóttir, reyndi að fjárkúga Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra með ásökun um að þeir tveir hefðu lagt á ráðin um yfirtöku Björns Inga á DV.

Hlín sagði síðar í viðtali við DV, sem Björn Ingi hafði eignast, að fréttir um að hótunin hefði varðað aðkomu Sigmundar Davíðs að yfirtöku á DV væru uppspuni. „Ég get þó sagt það að fjölmiðlar, eins og til dæmis Vísir, bókstaflega fabúleruðu um innihaldið í fyrstu fréttum af málinu og fréttaflutningur um að það tengdist yfirtöku á DV er uppspuni fréttamanna.“

Þó hefur komið fram í málflutningi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og ákæru gegn Hlín að hótun hennar hafi snúið að því að upplýsa um tengsl forsætisráðherrans við fjármál Vefpressunnar, útgáfufélags Björns Inga.

Sjálfur hefur Björn Ingi sagt yfirtökuna á DV hafa verið fjármagnaða með seljendaláni.

Umfangsmikil uppkaup á fjölmiðlum

Tilkynnt var um kaup Björns Inga á Máli og menningu í maí í fyrra. Hann og Pressan ehf. tóku yfir rekstur sjónvarspsstöðvarinnar ÍNN í október. Í nóvember var síðan greint frá kaupum á tímaritaútgáfunni Birtíngi.

Eiginkona hans, Kolfinna Von Arnardóttir, tilkynnti um yfirtöku á Reykjavík Fashion Festival í apríl í fyrra og kaup hennar og nokkurra annarra á fatahönnun JÖR í júní. Í lok nóvember greindi Guðmundur Jörundsson, stofnandi JÖR, frá því að fjárfestar hefðu brugðist.

Mánuðina áður hafði Björn Ingi þegar verið í vanskilum á fleiri en einu láni sínu. Auk þess átti Björn Ingi að hafa greitt upp 12 milljóna króna lán frá Kviku, en ekki gert það, þegar tilkynnt var um kaupin á Máli og menningu, Reykjavík Fashion festival, fatahönnun JÖR, sjónvarpsstöðinni ÍNN og tímaritaútgáfunnar Birtíngs. 

Ekki er vitað hver staðan er á fjölmiðlaútgáfum hans, Pressunni og DV, þar sem hvorugt félagið hefur skilað ársreikningi frá árinu 2014. „Ég vísa bara í ársreikninga og annað í þeim dúr,“ segir Björn Ingi, spurður út í stöðu félaganna.

Þykir óeðlilegt að fjalla um málið

Björn Ingi segir að óeðlilegt sé að fjalla um boðun á nauðungaruppboði á eign hans. „ Langflest nauðungaruppboð sem eru auglýst verða ekki að veruleika. Þú áttar þig á því að þetta er bara eins og ákveðinn frestur, það bara gefur auga leið. Það er ekkert lengur í þessu máli. En það sem ég var hins vegar að höfða til þín með í þessu tilviki er að þarna er um jörð að ræða sem foreldrar mínir búa á. Þau eru ekkert aðilar að mínum fjölmiðlarekstri. Fölmiðlar segja aldrei frá svoleiðis fjárhagsmálum einstaklinga nema auðvitað það sé bara eitthvað sem komi til og sé þá auglýst opinberlega,“ segir Björn Ingi.

Björn Ingi er skráður til heimilis á eigninni í Þjóðskrá ásamt eiginkonu sinni. Boðun á nauðungaruppboðinu var auglýst í Lögbirtingablaðinu.

„Eins og í hruninu var annar hver Íslendingur sem lenti í því að vera auglýstur á nauðungaruppboð út af einhverjum misháum skuldum, en fjölmiðlar sögðu aldrei frá því, var aldrei gert. Það er bara þetta sem ég á við. Því fólk gerir greinarmun á. Ef þú telur að einhver önnur lögmál gildi um mig heldur en aðra þá get ég svo sem ekkert gert í því, en mér þætti það mjög sérstakt og þá frekar bara gert í því skyni að koma höggi á mig.“

Stefnur sendar

Samkvæmt heimildum Stundarinnar var farið með stefnur til framkvæmdastjóra fjölmiðlafélaga Björns Inga í vikunni. Samkvæmt öðrum heimildum hafa verktakar átt erfitt með að fá greiðslur frá útgáfum Björns Inga, Pressunni og DV. 

„Oftast er lofað að borga en síðan er reynt að draga það fram á langinn þangað til það er komið í lögfræðing,“ segir einn verktakinn, sem Stundin ræddi við, sem hefur glímt við langvarandi vanskil af hálfu fjölmiðlafélagsins.

Ekki fékkst samband við Arnar Ægisson, framkvæmdastjóra Vefpressunnar, og ekki hafa borist svör við spurningum sem sendar voru á hann.

Samkrull viðskipta, fjölmiðla og stjórnmála

Björn Ingi var til umfjöllunar í rannsóknarskýrslu Alþingis vegna mikilla lántaka hjá bönkunum fyrir hrun og hagsmunaáreksturs þeim tengdum. Hann var sá fjölmiðlamaður sem mesta fyrirgreiðslu hafði fengið hjá bönkunum. Félag hans fékk kúlulán hjá Kaupþingi til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi, Exista, Bakkavör og Spron. Skuldir félagins voru orðnar yfir hálfur milljarður króna. Björn Ingi var aðstoðarmaður forsætisráðherra þegar hann fékk hluta af þeim lánum sem hann útvegaði. Hann var aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar þegar hann fékk 60 milljóna króna kúlulán til kaupa á hlutabréfum í bankanum, eingöngu með veði í bréfunum sjálfum. Síðar var hann ritstjóri viðskiptablaðsins Markaðarins á sama tíma og hann samdi um kaup á hlutabréfum í Exista gegn láni. Hlutabréfaviðskiptin í gegnum Kaupþing héldu áfram meðan Björn Ingi starfaði á Fréttablaðinu og skrifaði um málefni bankans. Félag hans, Caramba ehf, var úrskurðað gjaldþrota í september 2011. Sjálfur hlaut hann 100 milljóna króna lán.

Björn Ingi steig til hliðar sem ritstjóri Pressunnar þegar fyrirgreiðsla hans hjá bönkunum samhliða störfum hans í stjórnmálum og fjölmiðlum komst í hámæli. „Hér er ekkert ólöglegt á ferðinni,“ sagði hann í yfirlýsingu í apríl 2010. Hann lýsti því að hann hefði tapað öllu. „Við hjónin töpuðum öllum okkar sparnaði og miklu meira en það í hruninu.“ Þá hafði hann þegar stofnað Pressuna.is. Fjármögnun hennar kom að hluta til frá VÍS, sem var í eigu Exista, sem aftur var í eigu Lýðs og Ágústs Guðmundssona. Þeir tveir fóru í meiðyrðamál við DV og blaðamann DV árið 2013 þar sem þeir kvörtuðu undan hatursáróðri í þeirra garð vegna umfjallana um afskriftir á skuldum þeirra og arðgreiðslur.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Á ekki von á 50 milljónum eftir jólin
1
ÚttektJólin

Á ekki von á 50 millj­ón­um eft­ir jól­in

Nokk­ur af þekkt­ustu nöfn­un­um í ís­lensku tón­list­ar­sen­unni gefa nú út svo­köll­uð texta­verk, prent­uð mynd­verk með texta­brot­um úr lög­um sín­um. Helgi Björns­son seg­ir að marg­ir hafi kom­ið að máli við sig um að fram­leiða svona verk eft­ir að svip­uð verk frá Bubba Mort­hens fóru að selj­ast í bíl­förm­um. Rapp­ar­inn Emm­sjé Gauti seg­ir texta­verk­in þægi­legri sölu­vöru til að­dá­enda en ein­hverj­ar hettupeys­ur sem fylli hálfa íbúð­ina.
Efaðist í átta ár um að hún gæti eignast börn
4
ViðtalMóðursýkiskastið

Ef­að­ist í átta ár um að hún gæti eign­ast börn

Elísa Ósk Lína­dótt­ir var 19 ára þeg­ar kven­sjúk­dóma­lækn­ir greindi hana með PCOS og sagði henni að drífa í barneign­um. Eng­ar ráð­legg­ing­ar um henn­ar eig­in heilsu fylgdu og Elísa fór af stað í frjó­sem­is­með­ferð­ir með þá­ver­andi kær­ast­an­um sín­um. „Ég var ekk­ert til­bú­in í að verða mamma,“ seg­ir Elísa sem ef­að­ist í kjöl­far­ið um að hún myndi geta eign­ast börn.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
1
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
„Þetta er eins og að búa í einbýlishúsi“
2
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Þetta er eins og að búa í ein­býl­is­húsi“

Berg­þóra Páls­dótt­ir, Bebba, hef­ur un­un af því að fá gesti til sín í hjól­hýs­ið og finnst þetta svo­lít­ið eins og að búa í ein­býl­is­húsi. Barna­börn­in koma líka í heim­sókn en þau geta ekki far­ið út að leika sér í hjól­hýsa­byggð­inni í Sæv­ar­höfð­an­um: „Þau skilja ekki af hverju við vor­um rek­in úr Laug­ar­daln­um og sett á þenn­an ógeðs­lega stað.“
Rak 90 prósent starfsfólks fyrir að skrópa á morgunfund
4
Fréttir

Rak 90 pró­sent starfs­fólks fyr­ir að skrópa á morg­un­fund

Bald­vin Odds­son, ung­ur ís­lensk­ur at­hafna­mað­ur, rat­aði ný­ver­ið í frétt­ir í Banda­ríkj­un­um fyr­ir að reka 99 starfs­menn úr sprota­fyr­ir­tæki sem hann stofn­aði og rek­ur. Fram­kvæmda­stjór­inn mun hafa ver­ið ósátt­ur við slaka mæt­ingu á morg­un­fund, þar sem að­eins ell­efu af 110 starfs­mönn­um meld­uðu sig, og til­kynnti þeim sem voru fjar­ver­andi að þau væru rek­in.
„Ég kalla þetta svítuna“
5
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Ég kalla þetta svít­una“

Vil­berg Guð­munds­son hef­ur bú­ið í hús­bíl í níu ár. Hann og þá­ver­andi kon­an hans ákváðu þá að selja íbúð­ina sína og keyptu hús­bíl á Flórída. Þau skildu síð­ar og hann er að fóta sig á nýj­an hátt. Vil­berg er einn þeirra sem býr í hjól­hýsa­byggð­inni við Sæv­ar­höfða. „Ég skil ekki af hverju við mátt­um ekki vera áfram í Laug­ar­daln­um,“ seg­ir hann.

Mest lesið í mánuðinum

Við erum ekkert „trailer trash“
1
VettvangurHjólhýsabyggðin

Við er­um ekk­ert „trailer trash“

Lilja Kar­en varð ólétt eft­ir gla­sa­frjóvg­un þeg­ar hún bjó á tjald­svæð­inu í Laug­ar­daln­um og á dög­un­um fagn­aði dótt­ir henn­ar árs af­mæli. Af­mæl­is­veisl­an var hald­in í hjól­hýsi litlu fjöl­skyld­unn­ar á Sæv­ar­höfða, þar sem þær mæðg­ur búa ásamt hinni mömm­unni, Frið­meyju Helgu. „Okk­ar til­finn­ing er að það hafi ver­ið leit­að að ljót­asta staðn­um fyr­ir okk­ur,“ seg­ir Frið­mey, og á þar við svæð­ið sem Reykja­vík­ur­borg fann fyr­ir hjól­hýsa­byggð­ina.
Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
2
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
Tilnefnd sem framúrskarandi ungur Íslendingur en verður send úr landi
3
Fréttir

Til­nefnd sem framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur en verð­ur send úr landi

Til stend­ur að hin sýr­lenska Rima Charaf Eddine Nasr verði send úr landi. Hún var á dög­un­um ein af tíu sem til­nefnd voru til verð­laun­anna Framúrsk­ar­andi ung­ur Ís­lend­ing­ur í ár. Til­nefn­ing­una fékk hún fyr­ir sjálf­boða­liða­störf sem hún hef­ur unn­ið með börn­um. Hér á hún for­eldra og systkini en ein­ung­is á að vísa Rimu og syst­ur henn­ar úr landi.
Ný ógn við haförninn rís á Íslandi
5
Vindorkumál

Ný ógn við haförn­inn rís á Ís­landi

Hafern­ir falla blóð­ug­ir og vængja­laus­ir til jarð­ar í vindorku­ver­um Nor­egs sem mörg hver voru reist í og við bú­svæði þeirra og helstu flug­leið­ir. Hætt­an var þekkt áð­ur en ver­in risu og nú súpa Norð­menn seyð­ið af því. Sag­an gæti end­ur­tek­ið sig á Ís­landi því mörg þeirra fjöru­tíu vindorku­vera sem áform­að er að reisa hér yrðu á slóð­um hafarna. Þess­ara stór­vöxnu rán­fugla sem ómæld vinna hef­ur far­ið í að vernda í heila öld.
Innsæi Karenar öskraði: „Það er eitthvað að“
6
ViðtalMóðursýkiskastið

Inn­sæi Kar­en­ar öskr­aði: „Það er eitt­hvað að“

Þeg­ar Kar­en Ösp Frið­riks­dótt­ir lá sár­kval­in á kvenna­deild Land­spít­ala ár­ið 2019 var hún sök­uð um verkjalyfjafíkn. Hún hafði þá ver­ið verkj­uð síð­an hún var níu ára. Geð­lækn­ir leiddi að því lík­um að verk­ir henn­ar tengd­ust gervióléttu. Tveim­ur ár­um síð­ar fékk hún loks stað­fest­ingu á því að hún væri með lík­am­leg­an sjúk­dóm. Hún von­ar að heil­brigðis­kerf­ið og sam­fé­lag­ið læri af henn­ar sögu.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár