Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, varaði við því í dag að stofnunin væri á barmi „fjárhagslegs hruns“ og hvatti aðildarríki til að greiða árgjöld sín.
„Annaðhvort standa öll aðildarríki við skuldbindingar sínar um að greiða að fullu og á réttum tíma – eða aðildarríkin verða að endurskoða fjármálareglur okkar frá grunni til að koma í veg fyrir yfirvofandi fjárhagslegt hrun,“ skrifaði aðalframkvæmdastjórinn í bréfi.
Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar 1945 til þess að stuðla að vingjarnlegum samskiptum ríkja og alþjóðasamvinnu í kjölfar seinni heimsstyrjaldar.
Stjórn Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, hefur undanfarna mánuði dregið úr fjárframlögum sínum til nokkurra stofnana Sameinuðu þjóðanna og hefur hafnað eða seinkað greiðslu sumra lögboðinna framlaga.
„Nú hefur formlega verið tilkynnt um ákvarðanir um að standa ekki við ákveðin framlög sem fjármagna verulegan hluta af samþykktri rekstraráætlun,“ skrifaði Guterres og bætti við: „Núverandi þróun er óviðunandi. Hún skilur stofnunina eftir í kerfisbundinni fjárhagslegri áhættu.“
Sameinuðu þjóðirnar hafa glímt við langvarandi lausafjárvanda í mörg ár vegna þess að sum aðildarríki greiða ekki lögboðin framlög sín að fullu og önnur greiða ekki á réttum tíma, sem neyðir stofnunina til að frysta ráðningar og skera niður í verkefnum sínum.
Á sama tíma hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti boðað stofnun sinna eigin alþjóðasamtaka, Friðarráðsins, eða Board of Peace, þar sem hann er formaður ótímabundið, sem einstaklingur en ekki forseti.


















































Við lifum í nýrri heimsmynd þar sem ótal margt, sem áður var talið sjálfsagt, er á fallanda fæti. "Stay tuned!"