Verðbólga er komin í hæsta gildi sitt frá september 2024 eftir nýjustu mælingu, þar sem hún fer umfram spár. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,38% í janúar einum og sér og er hækkun vísitölunnar til síðustu 12 mánaða, eða verðbólga, komin í 5,2%.
Landsbankinn hafði spáð því að verðbólga mældist 5,1% í janúar og að vísitalan myndi hækka um 0,3%. Íslandsbanki hafði spáð 4,9% verðbólgu.
Þetta þýðir að höfuðstóll verðtryggðra fasteignalána landsmanna mun hækka um 0,38% á einum mánuði, að frádreginni afborgun sem er breytileg eftir lengd lána og stöðu. Langflest húsnæðislán sem tekin hafa verið síðustu mánuði eru verðtryggð.
Aðrar slæmar fréttir fyrir húsnæðiseigendur nú er að þróun fasteignaverðs er ekki að hækka vísitölu neysluverðs. Þvert á móti hefur fasteignaverð lækkað. Áhrifin birtast þó í gegnum „reiknaða húsaleigu“. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar um það sama og vísitalan almennt.
Ein helsta ástæðan fyrir hækkun vísitölunnar eru gjaldskrár- og skattabreytingar ríkisins.
„Um áramótin voru gerðar ýmsar breytingar á gjöldum tengdum ökutækjum sem höfðu áhrif á vísitölu neysluverðs. Olíugjald og vörugjöld á eldsneyti voru lögð niður og kolefnisgjaldið var hækkað. Tekin voru upp kílómetragjöld fyrir öll ökutæki, vörugjöldum á ökutæki var breytt og rafbílastyrkurinn var lækkaður,“ segir í tilkynningu Hagstofunnar.
Hækkun vísitölunnar kemur þrátt fyrir útsöluáhrif, þar sem verð á fötum og skóm lækkaði um 7,4% og húsbúnaði um 5,4%. Þá lækkuðu flugfargjöld um 10,8%.
Verðbólgutölurnar nú eru líklegar til að fresta stýrivaxtalækkunum Seðlabanka Íslands. Næsta vaxtaákvörðun er á miðvikudag, 4. febrúar.
















































Athugasemdir