Grænlenska landstjórnarin, Naalakkersuisut, hélt blaðamannafund fyrir skemmstu vegna hækkunar viðbúnaðarstigs á Grænlandi sem andsvar við hótunum Bandaríkjaforseta um að yfirtaka landið.
Á fundinum sögðu Jens-Frederik Nielsen, formaður landsstjórnarinnar, og Múte B. Egede fjármálaráðherra og fyrrverandi formaður landsstjórnarinnar, að framundan væru aðgerðir til að mæta ógninni frá Bandaríkjunum.
„Við verðum að vera viðbúin enn meiri þrýstingi, og þótt ekkert bendi til hernaðaríhlutunar verðum við að búa okkur undir allt, því þjóðin sem þrýstir á okkur hefur ekki skipt um skoðun,“ hefur grænlenski miðillinn Sermitsiaq eftir Múte B. Egede á fundinum.
Hann sagði alla í samfélaginu „verða fyrir tilfinningalegum og andlegum áhrifum. Þetta finnum við öll, frá börnum til aldraðra, þar sem við ræðum um hvernig ástandið er á Grænlandi.“
Á fundinum kynntu Egede og Nielsen að stofnaður verði samhæfingarhópur viðbragðsaðila sem mun starfa samkvæmt ákvörðunum landsstjórnarinnar.
Í samhæfingarhópnum eru fulltrúar frá ýmsum ráðuneytum, lögreglunni og sveitarfélögum.
„Við verðum að vera viðbúin og skapa öryggi í samfélaginu. Þótt það hljómi ólíklega viljum við vera viðbúin öllu sem getur gerst,“ sagði Egede á fundinum.
Ástæðan er að „hinn aðilinn,“ sem telja má að sé Bandaríkin, hafi ekki útilokað hernaðaraðgerðir gegn Grænlandi.


















































Athugasemdir