Danmörk mun efla hernaðarviðveru sína á Grænlandi „frá og með deginum í dag“, sagði varnarmálaráðuneytið á miðvikudag, rétt áður en mikilvægar viðræður áttu að hefjast í Washington vegna hótana Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að yfirtaka eyjuna á norðurslóðum.
„Danski herinn mun frá og með deginum í dag senda búnað og hersveitir tengdar ... æfingum. Á komandi tímabili mun þetta leiða til aukinnar hernaðarviðveru á og við Grænland, þar á meðal flugvéla, skipa og hermanna, einnig frá bandalagsríkjum NATO,“ sagði ráðuneytið í yfirlýsingu.
Grænlenska landstjórnin hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem viðvera hersins er staðfest.
Fram kemur hjá danska ríkisútvarpinu Danmarks Radio að senn muni berast liðsauki frá evrópskum bandamönnum.
Í dag funda Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, og Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlands, með Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á skrifstofu varaforsetans JD Vance, að honum viðstöddum.
Fyrir fundinn gaf Donald Trump Bandaríkjaforseti frá sér yfirlýsingu um að annað væri „óásættanlegt“ en að Bandaríkin fengju Grænland.
Vara-kanslari Þýskalands varaði við því í dag að tengsl Evrópu við Bandaríkin væru að „sundrast“ á „sögulegum umbrotatímum“ undir stjórn Donalds Trump forseta.
„Tengslin yfir Atlantshafið eins og við höfum þekkt þau eru að sundrast um þessar mundir,“ sagði Lars Klingbeil, sem einnig er fjármálaráðherra Þýskalands, í ræðu í Berlín.
Forsætisráðherra Svíþjóðar sagði í dag að í kjölfar beiðni frá Danmörku hefði Svíþjóð sent liðsforingja til að taka þátt í heræfingu á Grænlandi.
„Nokkrir liðsforingjar úr sænska hernum koma til Grænlands í dag. Þeir eru hluti af hópi frá nokkrum bandalagsríkjum. Saman munu þeir undirbúa viðburði innan ramma dönsku æfingarinnar Operation Arctic Endurance,“ sagði Ulf Kristersson forsætisráðherra í yfirlýsingu á X og bætti við að starfsfólkið hefði verið sent „að beiðni Danmerkur“.














































Athugasemdir