Í október árið 2018 skrifuðu Lars Løkke Rasmussen, þáverandi forsætisráðherra, og Frank Jensen, sem þá var yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar, undir samkomulag sem þeir staðfestu með handabandi, á fréttamannafundi. Samkomulagið, sem danska þingið, Folketinget, staðfesti árið 2021, varðar uppbyggingu á hafnarsvæði Kaupmannahafnar. Risavaxið verkefni sem fékk nafnið Lynetteholmen. Svæðið er eins konar viðbót, eða framlenging, á Refshaleøen þar sem skipasmíðastöð Burmeister & Wain var um áratugaskeið. Í stuttu máli verður Lynetteholmen landfylling, samtals um 280 hektarar að stærð. Þar er gert ráð fyrir um það bil 20 þúsund íbúðum og sömuleiðis fjölda fyrirtækja. Í 280 hektara landfyllingu þarf mikið efni en gert er ráð fyrir að stór hluti þess verði fenginn af byggingasvæðum í Kaupmannahöfn og nágrenni. Í tengslum við Lynetteholmen er einnig gert ráð fyrir að byggja allt að 15 þúsund íbúðir á Refshaleøen. Þeir sem kannski hugsa sér gott til glóðarinnar að krækja sér í íbúð á þessum slóðum verða að sýna biðlund því ekki er gert ráð fyrir að svæðið verði fullgert fyrr en árið 2070.
Leirinn myndi fylla 70 þúsund gáma
Eftir mikla og tímafreka undirbúningsvinnu hófust framkvæmdir við Lynetteholmen í ársbyrjun 2022. Fyrsta skrefið í þeirri framkvæmd var flutningur leirs af hafsbotni landfyllingarsvæðisins. Í umræðum í þinginu kom fram að leirnum yrði mokað upp í flutningaskip sem myndi flytja farminn í Køgeflóa (Køgebugt) og losa hann þar. Talið var að magn leirsins sem fjarlægja þyrfti væri um 2,5 milljónir kúbikmetra, það myndi fylla 70 þúsund flutningagáma. Þótt dönskum þingmönnum þætti leirmagnið mikið samþykktu þeir flutninginn. Per Bolund, sem þá var umhverfisráðherra Svíþjóðar, hafði í mars 2021 skrifað danska samgönguráðherranum bréf þar sem hann gagnrýndi og mótmælti fyrirætlunum um leirlosunina í Køgeflóa. Danskir þingmenn vissu ekki af þessu bréfi fyrr en síðar, þá hafði sænski umhverfisráðherrann Annika Strandhäll skrifað annað bréf þar sem hún ítrekaði áhyggjur sínar. Þá hafði talsvert magn af leir verið losað í Køgeflóa. Eftir mótmæli náttúruverndarsamtaka, samtaka sjómanna og einstaklinga var losun leirs í Køgeflóa hætt og leirnum sem enn er eftir að moka upp verður komið fyrir annars staðar, ekki í sjó.
Komust í feitt
Samkvæmt dönskum lögum er skylt að gera jarðvegsathuganir þar sem framkvæmdir eru fyrirhugðar, vegna hugsanlegra fornleifa.
Þegar Lynetteholm-framkvæmdin var að hefjast þurfti að rannsaka sjávarbotninn á svæðinu til að ganga úr skugga um hvort þar væru fornminjar. Sérfræðingar Víkingaskipasafnsins í Hróarskeldu töldu sig vita að á hafsbotninum fyrir utan Kaupmannahöfn kynni að leynast eitt og annað áhugavert. Og það reyndist rétt. Á siglingaleiðinni sunnan við Lynetteholmen fundu kafarar, árið 2021, leifar af skipsflaki frá 19. öld, sem þeir gáfu nafnið Svælget 1. Sama ár, aðeins sunnar, komust sérfræðingarnir og kafararnir í feitt, svo feitt að þeir höfðu aldrei séð annað eins, eins og þeir komust að orði. Á aðeins 13 metra dýpi, undir þunnu sand- og leirlagi, var skipsflak, ótrúlega vel varðveitt, önnur hlið skipsins nánast alveg heil. Eftir að hafa myndað flakið og allt svæðið í kring var hafist handa við að ná flakinu upp. Það var vandaverk en sérfræðingarnir flestum hnútum kunnugir þegar að slíku kemur.
Alls var kafað 289 sinnum niður að flakinu meðan vinnan stóð yfir.
Kuggurinn
Eins og áður var nefnt voru sérfræðingar Víkingaskipasafnsins fljótir að átta sig á því að þeir höfðu „sett í þann stóra“ eins og einn þeirra orðaði það. Þeir sáu samstundis að flakið var af svonefndum kuggi (á dönsku kogge). Kuggur er sérstök gerð seglskipa sem var sérhönnuð til vöruflutninga og voru frá 12. öld fram undir upphaf 17. aldar algengustu flutningaskip í Norður-Evrópu. Aðalkostir kuggsins voru flutningsgetan, sem var mun meiri en í öðrum skipum á þeim tíma og hefur þess vegna verið líkt við gámaskip nútímans. Kuggurinn sem fannst við Kaupmannahöfn er ekki sá fyrsti sem fundist hefur en hann er sá stærsti. Samkvæmt mælingum danskra sérfræðinga hefur kuggurinn (sem þeir kalla Svælget 2) verið 28 metra langur, um það bil 9 metrar á breidd og 6 metrar á hæð. Kuggurinn gat borið um 300 tonn, var smíðaður í Hollandi í kringum árið 1410, timbrið var að hluta til frá Póllandi.
En það var fleira á botninum en flakið sjálft. Í og við flakið fundust fjölmargir hlutir, skór, hárgreiða, pottur og fleira og fleira. Enn fremur leifar af tveimur litlum húsum, eða skýlum, sem stóðu á þilfarinu. Kuggarnir voru hagkvæmir í rekstri, burðargetan mikil og einungis þrír til fimm í áhöfn. Kuggarnir fluttu margs kyns varning, gjarnan frá Hollandi norður fyrir Jótland suður Eyrarsund og jafnvel alla leið til Rússlands.
Af hverju sökk kuggurinn?
Þótt ekki sé vitað hvers vegna kuggurinn fórst telja sérfræðingar líklegt að hann hafi lent í slæmu veðri og farmurinn kastast til, skipið oltið á hliðina og sokkið. Rétt eins og vill gerast með gámaflutningaskip nútímans.
Af farminum um borð í kugginum (Svælget 2) hefur ekkert fundist, hafstraumarnir hafa séð til þess.
Héldu fundinum leyndum
Hvernig stóð á því að enginn, fyrir utan þröngan hóp, vissi um þennan stórmerka fund í meira en fjögur ár? Skýringin er kannski sú að öllum sem að verkinu komu var gert skylt að nefna ekki einu orði hvað verið var að bauka þarna skammt frá landi við Kaupmannahöfn. Íbúar borgarinnar kippa sér ekki sérstaklega upp við það þótt einhver skip liggi, jafnvel dögum saman, við akkeri úti fyrir ströndinni. Þess vegna hafa þeir ekki veitt því athygli hvað þarna var að gerast svo að segja fyrir framan nefið á þeim.
28. desember 2025
Þegar verkefnið um kugginn Svælget 2 hófst höfðu stjórnendur Víkingaskipasafnsins samband við DR, danska sjónvarpið. Sjónvarpinu bauðst að fylgjast með vinnunni í kringum kugginn. Það kom í hlut Cecilie Nielsen, sem sinnir menningu og sagnfræði hjá sjónvarpinu, ásamt tæknimönnum DR að fylgjast með. Með það fyrir augum að gera verkefninu skil, þegar þar að kæmi.
Hinn 28. desember, á fjórða degi jóla, birti Danska útvarpið langa umfjöllun um kuggsverkefnið, eins og það var kallað, á vefsíðu sinni. Sama dag, og næstu tvo daga, gafst almenningi kostur á að heimsækja verkstæði Víkingaskipasafnsins og fræðast um verkefnið. 30. desember sýndi sjónvarpsstöðin DR2 fyrsta hluta heimildamyndaflokks um kugginn, Gåden i dybet. Þættirnir eru fjórir og sýndir með viku millibili á DR2 dagana 6., 13. og 20. janúar.
Margra ára verkefni
Fram undan er mikil vinna við forvörslu og skráningu muna sem bjargað hefur verið af hafsbotninum. Sú vinna mun taka einhver ár og fer fram á verkstæðum danska Þjóðminjasafnsins í Brede norðan við Kaupmannahöfn og á Vikingaskipasafninu í Hróarskeldu.

















































Athugasemdir