Umræðan um dánaraðstoð hefur á síðustu árum orðið sýnilegri á Íslandi. Þrátt fyrir að ekki sé enn búið að lögleiða dánaraðstoð á Íslandi má greina ákveðinn siðferðilegan tíðaranda sem endurspeglar viðhorf, tilfinningar og gildi þjóðarinnar gagnvart lífslokum, sjálfsákvörðunarrétti og mannlegri reisn. Tíðarandinn spannar breitt svið þar sem hugmyndir um mannréttindi, menningu og reynslu mætast og þar sem mörkin og samfellan milli umhyggju og sjálfræðis eru sífellt til umræðu.
Sjálfsákvörðunarréttur og mannleg reisn
Íslenskt samfélag leggur í auknum mæli áherslu á að virða vilja og rétt einstaklingsins, bæði í heilbrigðismálum og við lífslok. Hugmyndin um að einstaklingur hafi rétt til að taka upplýsta ákvörðun um eigið líf og dauða fellur að gildum nútímans þar sem sjálfræði, mannleg reisn og mannréttindi eru talin grundvallarstoðir.
Við sjáum þessa þróun í lögum um þungunarrof frá 2019, þar sem ákvörðunarvaldið var fært frá fagfólki til einstaklingsins sjálfs. Breytingin markaði skýrt skref í átt að auknu sjálfræði og viðurkenningu á því að einstaklingurinn sé best til þess fallinn að meta eigið líf og aðstæður.
Sama siðferðilega hugsun endurspeglast í vaxandi stuðningi við dánaraðstoð meðal almennings. Samkvæmt könnunum Maskínu (2022) og Prósents (2024) eru um 77 prósent Íslendinga hlynnt því að dánaraðstoð verði heimiluð við vel skilgreindar aðstæður. Þetta bendir til þess að almenningsálitið hallist í auknum mæli að þeirri sýn að það sé siðferðilega rétt að geta tekið ákvörðun um eigin endalok, að sjálfsögðu með þeim skýru fyrirvörum sem lög og reglur segja til um.
Þessi viðhorf eru hluti af alþjóðlegri þróun þar sem dánaraðstoð er orðin eðlilegur hluti umræðu um lífsgæði, reisn og rétt einstaklings til að ráða eigin lífi þegar læknisfræðileg úrræði bjóða ekki lengur raunhæfa von. Slík nálgun er ekki uppgjöf gagnvart lífinu heldur viðurkenning á því að lífið hefur gildi á meðan það er borið uppi af reisn og merkingu.
Þögnin um dauðann
Þrátt fyrir vaxandi umræðu ríkir enn tregða til að ræða dauðann opinberlega. Íslensk menning hefur lengi einkennst af varfærni gagnvart lífslokum, þar sem dauðinn er sjaldan ræddur opinberlega nema í tengslum við sorg eða missi. Sú hefð að líta á dauðann sem einkamál hefur leitt til þess að opin og hreinskilin umræða um lífslok er enn af skornum skammti. Að brjóta þessa þögn er lykilforsenda þess að siðferðileg umræða um dánaraðstoð verði dýpri og ábyrgari og að við getum rætt lífið og dauðann sem samfellda heild, ekki andstæður.
Siðferðileg mörk líknar og dánaraðstoðar
Rannsóknir benda til þess að fagfólk í heilbrigðisþjónustu sé í auknum mæli jákvætt gagnvart dánaraðstoð. Í rannsókn Brynhildar K. Ásgeirsdóttur (2021) sögðust 61 prósent lækna og hjúkrunarfræðinga á meðferðarsviðum Landspítala hlynntir dánaraðstoð, einkum vegna sjálfsákvörðunarréttar sjúklings. Könnun heilbrigðisráðherra (2023) sýndi svipað mynstur: 56 prósent lækna, 86 prósent hjúkrunarfræðinga og 81 prósent sjúkraliða voru hlynnt dánaraðstoð. Þessar niðurstöður endurspegla breytingu á viðhorfum fagstétta til dánaraðstoðar þar sem umhyggja og virðing fyrir reisn einstaklings eru sett í forgrunn.
Alþjóðleg áhrif og kynslóðamunur
Í löndum á borð við Holland, Belgíu, Kanada og Nýja-Sjáland hefur dánaraðstoð verið lögfest með ströngum skilyrðum og eftirliti. Reynslan þaðan sýnir að það verklag sem er viðhaft hefur skilað góðum árangri og að umræðan um lífsgæði og rétt til að deyja með reisn hefur orðið faglegri og skýrari.
Kynslóðamunur mótar einnig tíðarandann. Eldri kynslóðir, sem hafa séð ástvini þjást eða missa reisn, tala æ oftar opinberlega fyrir dánaraðstoð sem mannúðlegu vali. Yngri kynslóðir nálgast málið aftur á móti út frá sjálfsákvörðun og réttindum, í takt við trú á frelsi til að móta eigið líf. Þetta samspil kynslóða mótar nýjan siðferðilegan veruleika þar sem hugmyndir um mannlega reisn og samkennd eru í stöðugri þróun.
Samkennd og sjálfræði við lífslok
Siðferðilegur tíðarandinn á Íslandi í dag einkennist af virðingu fyrir rétt einstaklingsins til að taka ákvörðun á sínum forsendum um eigin endalok. Einnig skilningi fyrir þeirri þörf einstaklingsins til að hafa stjórn og geta haldið sinni reisn alveg til enda. Samfélagið stendur á mörkum nýrrar hugsunar þar sem dánaraðstoð er ekki lengur óhugsandi heldur nauðsynlegt umræðuefni sem snertir grundvallarspurningar um lífið sjálft.
Rétturinn til að lifa með reisn felur jafnframt í sér réttinn til að deyja með reisn. Að geta rætt dauðann af ábyrgð og virðingu er mælikvarði á þroskað samfélag.
















































Athugasemdir