„Ég mun ávallt berjast fyrir frelsi okkar og rétti til að ákveða sjálf og móta framtíð okkar,“ sagði Jens-Frederik Nielsen, forsætisráðherra Grænlands, í jólakveðju í skugga ásælni Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem ítrekaði í gær áform sín um að innlima Grænland í Bandaríkin.
„Við þurfum á því að halda vegna þjóðaröryggis. Við verðum að fá það,“ sagði Trump og bætti við að nýskipaður sendifulltrúi gagnvart Grænlandi, Jeff Landry, ríkisstjóri Louisiana, „vildi leiða áhlaupið“.
Evrópusambandið lýsti strax stuðningi við Danmörk og Grænlendinga. Og Jens-Frederik Nielsen gaf frá sér enn eina yfirlýsinguna gegn ásælni Trumps.
„Forseti Bandaríkjanna lýsti aftur yfir á blaðamannafundi í nótt ósk sinni um að yfirtaka Grænland. Með slíkum orðum er landið okkar smættað niður í spurningu um völd og öryggismál. Þannig sjáum við okkur ekki og þannig getum við á Grænlandi ekki né eigum að láta tala um okkur. Við erum þjóð með langa sögu, sterka menningu og lifandi lýðræði. Við erum land sem ber ábyrgð á eigin landsvæði og eigin framtíð. Landhelgi okkar og sjálfsákvörðunarréttur er tryggður í þjóðarétti og ekki er hægt að hunsa hann,“ sagði Nielsen í Facebook-færslu í morgun.
„Aftur: Grænland er landið okkar. Ákvarðanir okkar eru teknar hér,“ bætti hann við.
Nielsen sagði tregann blandast þakklæti.
„Takk til ykkar hér heima fyrir skýran stuðning og samstöðu sem hefur verið sýnd. Sú ró og virðing sem þið hafið mætt aðstæðunum með sendir skýr skilaboð um þjóð sem stendur föst á gildum sínum og ábyrgð,“ sagði Nielsen.
„Ég vil einnig þakka ríkisstjórnarleiðtogum og samstarfsaðilum um allan heim sem hafa skýrt og afdráttarlaust lýst yfir virðingu sinni fyrir Grænlandi, lýðræðislegum stofnunum okkar og grundvallarreglum þjóðaréttar. Sá stuðningur staðfestir að við hér heima stöndum ekki ein.“
Evrópusambandið lýsti í gær yfir „fullri samstöðu“ með Danmörku, sem er aðildarríki, eftir að Bandaríkin útnefndu Landry sendifulltrúa fyrir Grænland, samhliða yfirlýsingu hans um að bæta Grænlandi í Bandaríkin.
„Landhelgi og fullveldi eru grundvallarreglur þjóðaréttar,“ sögðu Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Antonio Costa, forseti leiðtogaráðsins, á X.
„Þessar reglur eru ekki aðeins nauðsynlegar fyrir Evrópusambandið, heldur fyrir þjóðir um allan heim. Við stöndum í fullri samstöðu með Danmörku og grænlensku þjóðinni,“ sögðu þau.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra lýsti sömuleiðis almennum stuðningi við rétt Grænlands og Danmerkur til fullveldis.














































Athugasemdir