Ég myndi segja að ég sé mikið jólabarn, enda eigum við bræður báðir afmæli í desember. Ég skreyti ekki mikið því heimilið mitt er þar sem ferðataskan er, en ég á lítið jólatré úr Ilvu sem ég set upp og er þar með búinn að skreyta.
Jól æsku minnar voru alltaf eftirminnileg, en fyrstu jólin með manninum mínum eru sennilega þau eftirminnilegustu. Þetta var árið 2004 og ég var að vinna í Blómavali í Sigtúni á aðfangadag. Rétt fyrir lokun fór ég að tala við kollega minn sem seldi jólatré og spurði hvort hann ætti eftir einhverja furu. Hann sýndi mér þau tvö tré sem voru óseld, því þau voru þannig í útliti að það vildi enginn kaupa þau. Ég tók annað og tróð í bílinn minn, Fiat Multipla.
Ég og maðurinn minn keyrðum svo í Úthlíð, þar sem hann hafði aðgang að bústað í gegnum vinnuna. Á leiðinni lentum við í alveg bandbrjáluðu veðri. Við hlustuðum á kirkjuklukkurnar hringja inn jólin á RÚV einhvers staðar við Laugarvatn, en frá Apavatni vorum við heila tvo tíma að keyra að Úthlíð.
Þegar við komumst loks í sumarbústaðabyggðina festumst við í brekku. Í einum öðrum bústað var fólk og fyrir algjöra tilviljun gat það séð okkur. Maður kom út til að hjálpa okkur að losa bílinn og ýta. Án hans hjálpar hefðum við varið jólunum í bílnum.
Þegar við vorum komnir inn var þetta allt mjög rólegt og hógvært hjá okkur. Við skreyttum tréð sem enginn vildi, borðuðum osta og eitthvert smá kjöt en ekkert heitt og enduðum ævintýrið í heitum potti.




















































Athugasemdir