Leyniþjónusta danska hersins (Forsvarets Efterretningstjeneste) FE, birtir í desember ár hvert svokallaða áhættumatsskýrslu undir heitinu Udsyn. Í skýrslunni er farið yfir þær hættur og ógnir sem steðja að konungsríkinu Danmörku eins og það er orðað í inngangsorðum skýrslunnar, sem er 64 blaðsíður. Thomas Ahrenkiel, yfirmaður FE, sem skrifar innganginn, segir að hættur og áskoranir sem Danir standi frammi fyrir um þessar mundir séu fleiri og alvarlegri en um langt árabil. Hann nefnir hryðjuverkaógnina sem stafi af íslömskum öfgamönnum og aukinn áhuga og viðbúnað stórveldanna á Norðurskautssvæðinu. Enn fremur áhuga og aðgerðir Kínverja til að verða ráðandi afl á sviði heimsmálanna, þeir vilja draga úr áhrifum Bandaríkjanna. Samband Kína og Rússlands sé nánara en nokkru sinni fyrr og styrkur Kínverja nú slíkur að Bandaríkin séu ekki það ráðandi afl sem þau hafa verið um langt árabil. Í þessum efnum njóta Kínverjar liðsinnis Rússa.
Lengsti kaflinn um Rússland
Það kemur ekki á óvart að lengsti og ítarlegasti kafli áhættumatsskýrslunnar fjallar um Rússland. Rússar líta svo á að þeir eigi í deilum við NATO og hafa unnið ýmiss konar skemmdarverk, til dæmis á tölvukerfum. Hernaðarógnin gagnvart aðildarríkjum NATO fari vaxandi, ekki hvað síst vegna óljósrar afstöðu Bandaríkjanna til öryggismála í Evrópu. Ekki er, eins og staðan er nú, hægt að tala um að Rússar beini sjónum sérstaklega að Danmörku umfram önnur lönd í Evrópu, segir í skýrslunni.
Auka vopnaframleiðsluna
Rússar hafa að undanförnu aukið mjög vopnaframleiðslu sína, segir í skýrslunni, og þótt NATO-ríkin í Evrópu hafi líka aukið framleiðsluna dugir það ekki til að halda í við Rússa. Drónar eru nú í auknum mæli notaðir í hernaði, bæði til árása og njósna. Í skýrslu FE kemur fram að framleiðsla Rússa á drónum hefur margfaldast á síðustu þremur árum og á þessu ári hafi þeir framleitt að minnsta kosti 2 milljónir dróna, stærstur hluti þeirra langdrægir, sem merkir að hægt sé að fljúga þeim lengra en 50 kílómetra og geta borið sprengjur. Rússar hafa byggt stórar verksmiðjur sem geta framleitt dróna, og ýmiss konar vopn, og framleiðslugetan mun meiri en þegar þeir réðust inn í Úkraínu. Fari svo að stríðinu í Úkraínu ljúki á næsta ári (2026) munu Rússar eigi að síður halda áfram að auka við vopnabúr sitt. Það muni þeir gera, segir í skýrslu FE, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika heima fyrir, ekki síst í efnahagsmálum. Stuðningur Kínverja skiptir Rússa miklu máli, ekki síst með kaupum á olíu, sama gildir um Tyrki. Íranir hafa sömuleiðis séð Rússum fyrir vopnum en líklegt er, segir í skýrslu FE, að árásir Ísraela á Íran verði til að draga úr þeim stuðningi.
Eystrasaltssvæðið
Eins og nefnt var í upphafi þessa pistils er það mat sérfræðinga FE að Eystrasalt sé það svæði sem mest hætta sé á að Rússar reyni að beita vopnavaldi gegn NATO. Í áhættumati FE kemur fram að Rússar hafi margsinnis verið með árásarvopn mönnuð á herskipum sínum þegar dönsk herskip eða flugvélar hafi nálgast, í sumum tilvikum á dönsku yfirráðasvæði. Þeir hafi sömuleiðis margsinnis rofið lofthelgi NATO-ríkjanna, bæði með orrustuþotum og eftirlitsflugvélum. Rússar hafi enn fremur margoft reynt að trufla staðsetningarbúnað skipa og flugvéla, það sé ekki ný bóla en á síðasta ári, 2024, hafi slíkum tilvikum fjölgað mikið. Allt eykur þetta spennuna á svæðinu. Það er mat FE að Rússar ætli sér að auka herstyrk sinn á Eystrasalti á næstu árum. Meðal annars með því að fjölga herþotum á svæðinu og jafnframt styrkja Eystrasaltsflota sinn með nýrri öflugri skipum. Skipum sem búin væru langdrægum vopnum sem hæft gætu skotmörk í allri Evrópu. Stríðið í Úkraínu hefur, í það minnsta um stundarsakir, sett strik í þessar áætlanir.
Skuggaflotinn
Í fjölmiðlum er iðulega talað um skuggaflota Rússa. Þar er átt við olíu- og gasflutningaskip sem sigla frá Pétursborg um Finnska flóa (Kirjálabotn) en austurhluti hans tilheyrir Rússlandi. Á því svæði eru sumar af mikilvægustu olíuhöfnum Rússa. Vegna viðskiptaþvingana gegn Rússum hafa þeir notfært sér skip, sem skráð eru í löndum utan Rússlands, til að flytja olíu og gas til landa sem viðskiptaþvinganirnar ná ekki til. Sökum þess að skipin eru ekki skráð í Rússlandi hefur reynst erfitt, þótt slíkt hafi verið reynt, að hefta för þeirra. Mörg skipanna í skuggaflotanum eru gömul og komin fram yfir síðasta notkunardag (orðalag Jótlandspóstsins), og uppfylla ekki þær öryggiskröfur sem gerðar eru í dag. Þessi skip eru ótryggð og ef slys yrði er óljóst hver bæri kostnaðinn ef til dæmis stór olíufarmur færi í hafið.
Af hverju er ekki hægt að stoppa þetta? kynni einhver að spyrja. Svarið við þeirri spurningu er að skipin sigla um alþjóðlegt hafsvæði og samkvæmt reglum sem um slíkt gilda er ekkert sem hindrar slíkar siglingar.
Skuggaflotinn, eða réttara sagt flutningar með þessum skipum, hafa geysimikla þýðingu fyrir Rússa því 30 prósent af útflutningstekjum landsins koma frá olíu og gasi. Í áhættumatsskýrslu FE er það rifjað upp að vorið 2025 ætlaði eistneska strandgæslan að stöðva för skips úr skuggaflotanum en herskip úr flota Rússa kom í veg fyrir að slíkt reyndist unnt.
Tilbúnir í stríð
Í áðurnefndri áhættumatsskýrslu kemur fram að sérfræðingar FE telja að Rússland geti innan 6 mánaða verið tilbúið í svæðisbundin átök (lokalkrig) og eftir tvö ár tilbúið í stærri átök (regional krig) og eftir fimm ár tilbúið í allsherjar átök (storskala krig). Thomas Ahrenkiel, yfirmaður FE, segir að þetta sé háð þrennu: Í fyrsta lagi að stríðinu í Úkraínu ljúki eða frjósi fast, eins og yfirmaðurinn komst að orði, og Rússland þurfi ekki að nota hernaðarmátt sinn þar. Í öðru lagi að Rússar meti það svo að Bandaríkin muni ekki blanda sér í átök í Evrópu. Og í þriðja lagi að Evrópuríkin hraði ekki hernaðaruppbyggingu sinni.
Þetta síðastnefnda var eitt helsta umræðuefni Mark Rutte á fundi sem haldinn var í Berlín 10. desember síðastliðinn. Hann talaði tæpitungulaust og sagði, „við erum næsta markmið Rússa og erum þegar á hættusvæði. Í dag geta NATO-ríkin varið sig en innan 5 ára verða Rússar tilbúnir til að beita hervaldi gegn NATO. Þess vegna verða NATO-ríkin að verja mun meira fé til varnarmála og til að styðja Úkraínu.“ Mark Rutte sagðist fyrir löngu síðan vera hættur að giska á hvað Pútín sé að hugsa en „staðreyndin er sú að þarna er einræðisherra sem er tilbúinn að fórna milljón manns“.













































Athugasemdir