Fjöldi mótmælenda er saman kominn fyrir utan Ríkisútvarpið í Efstaleiti undir nafninu „Kveðjum Júróvisjón“. Vilja þeir að Ísland sniðgangi Eurovision í Austurríki næsta vor vegna framgöngu Ísraels í Palestínu.
Klukkan 15 hefst fundur stjórnar RÚV þar sem endanleg ákvörðun verður tekin um það hvort Ísland muni sniðganga keppnina eða ekki.
„Snargeggjaðir stríðsherrar eru búnir að eitra partýið með sínum lúmsku ráðum. Þeir eru búnir að stela gleðinni. Í dag verðum við að taka afstöðu með mennskunni,“ sagði tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson þar sem hann ávarpaði aðra mótmælendur. „Við verðum að vera í liðinu sem segir stopp. Sýnum heiminum að við séum ekki hræsnarar.“

Hávær krafa hefur verið um að Ísland dragi sig úr þátttöku í Eurovision æ síðan Ísrael réðst inn á Gaza undir lok árs 2023. Fulltrúar evrópskra sjónvarpsstöðva hafa þegar samþykkt að leyfa Ísrael að taka þátt í keppninni á næsta ári sem verður haldin í Vín í Austurríki. Í kjölfarið tilkynntu nokkur lönd að þau hygðust ekki taka þátt í keppninni. Þar á meðal eru Holland, Spánn, Írland og Slóvenía.
Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, hefur sagt að hann telji rétt að sniðganga Eurovision í ljósi þátttöku Ísraels. Það sé þó ekki hans heldur stjórnar RÚV að taka þá ákvörðun.












































Athugasemdir