Við höldum upp á Alþjóðlega jarðvegsdaginn árlega þann 5. desember til að vekja athygli um allan heim á mikilvægi heilbrigðs jarðvegs og berjast fyrir sjálfbærri stjórnun jarðvegsauðlinda. Í ár er þemað „Heilbrigður jarðvegur fyrir heilbrigðar borgir“ og er það mikilvægt fyrir nær alla sem lesa þennan pistil. Málið er að stór hluti jarðarbúa býr í bæjum eða borgum. Sem dæmi, þá búa um 94,5% Íslendinga í þéttbýli og þar af eru 64% á höfuðborgarsvæðinu.
Það kann að þykja undarlegt að tengja sama þéttbýli og jarðveg, en einhvers staðar eru borgir byggðar og þar sem þær eru byggðar, þar taka þær yfir umhverfið og breyta öllu. Jarðvegurinn sem undir þeim er verður yfirleitt að vandamáli, því ekki er hægt að byggja ofan á honum, og til þess að komast niður á fast er honum rutt í burtu og oftast farið illa með. Og oftast er þróunin sú að byggja þéttar og þéttar þannig að á endanum standa bara byggingar aðskildar malbikuðum eða steyptum vegum og græn svæði í minnihluta. Uppbyggingin lokar á allt innstreymi vatns í jarðveginn og til eru dæmi erlendis um að jarðvegur undir borgum hafi þornað svo mikið að byggingar fara að skekkjast. Hér hafa umsvif mannsins enn einu sinni haft neikvæð áhrif á vistkerfin sem eru okkur svo mikilvæg.
Jarðvegur spilar því stórt hlutverk í borgum. Jarðvegur, hvar sem hann er, veitir alls kyns þjónustu, s.k. vistkerfisþjónustu. Hann er undirstaða matvælaframleiðslu, síar vatn, geymir kolefni, stjórnar hitastigi og viðheldur líffræðilegum fjölbreytileika. Þannig að þegar við förum illa með jarðveg höfum við neikvæð áhrif á alla þessa þætti.
Í borgum eru stórar áskoranir fyrir jarðveg þegar hann lokast af undir þéttbýlismyndun (e. Soil sealing). Innviðir borga loka af jarðveg og hylja hann varanlega með ógegndræpu efni eins og steinsteypu eða malbiki, sem leiðir til óafturkræfs taps á virkni hans. Jarðvegur sem þannig lokast af undir innviðum þéttbýlis glatar eiginleikum sínum varanlega. Virkni hans er óafturkræf og vistkerfisþjónusta raskast. Vatnshringrás raskast, þetta kemur í veg fyrir vatnsupptöku og truflar endurnýjun grunnvatns.
Þar sem enginn jarðvegur er til að taka í sig úrkomu rennur vatn af yfirborðinu, sem getur aukið flóð og stuðlað að vatnsskorti til lengri tíma litið. Lokaður jarðvegur getur ekki tekið í sig regnvatn, sem skerðir endurnýjun grunnvatns. Þetta eykur einnig yfirborðsrennsli, sem leiðir til aukinnar hættu á flóðum og dregur úr kolefnisbindingu. Það leiðir einnig til taps á líffræðilegum fjölbreytileika í jarðvegi.
Tap á virkni jarðvegs eyðir lífinu í jarðveginum, vistkerfið í jarðvegi, sem inniheldur lífsnauðsynlegar lífverur og gróður, eyðileggst eða tapast. Búsvæði margra tegunda eyðast, þar á meðal skordýra, fugla og annarra dýralífa. Lokaður jarðvegur getur ekki lengur bundið kolefni, sem er mikilvægt ferli til að geyma koltvísýring í andrúmsloftinu. Víðtækari umhverfisáhrif eru margvísleg. Landið verður ónothæft til frambúðar til landbúnaðar eða annarra náttúrulegra nota.
Útþensla þéttbýlis skilar aukinni mengun af ýmsu tagi, s.s. loftmengun, vatnsmengun og sorpmengun sem veldur miklu tjóni á lífríki nærri þéttbýli. Ákall jarðvegsdagsins í ár er að hvetja okkur til að endurhugsa sérstaklega þéttbýlissvæðin út frá jarðvegi.

Af hverju er þetta mikilvægt fyrir okkur persónulega?
Mannslíkaminn er, líkt og borgir, fullur af „örborgurum“ – gríðarstórum samfélögum vírusa, sveppa og baktería sem lifa utan á okkur og inni í okkur, hin s.k. mannlega örveruflóra. Þessir borgarar hjálpa okkur að melta mat, stjórna ónæmiskerfinu, verjast sýklum og halda hormónum í skefjum. Og allir vita hvað gerist ef flóran er ekki í lagi.
Flestir hafa líklega heyrt um þarmaflóruna, en mismunandi örverur dafna um allan líkama okkar – á húð, inni í nefinu, á fótum og höndum, í augum okkar. Þær eru örlítið ólíkar, eins og hverfi eru samsett úr mismunandi samfélögum fólks. Níutíu prósent frumna í líkama okkar eru örverur, og „ský“ af bakteríum losna af líkamanum þegar við hreyfum okkur. Við erum öll að ganga um vistkerfi, taka upp og losa okkur við efni á leiðinni í gegnum lífið.
Þegar við hugsum um umhverfismál dettur okkur kannski í hug tap á regnskógum, bráðnun jökla eða útdauði tegunda, en það eru önnur mál í gangi. Segja má að það sé falinn útdauði fjölbreytni að eiga sér stað á smásjárstigi. Á sama tíma og við töpum tegundum af plánetunni okkar, erum við líka að missa þær innan úr okkar eigin líkama með gríðarlegum afleiðingum fyrir heilsu manna. Við verðum fyrir minna áreiti lífvera í kringum okkur, við grömsum minna og minna í jarðvegi, verðum minna „skítug“ undir nöglunum og ónæmiskerfið bíður skaða. Lífið okkar í nútímanum stríðir í raun gegn vistkerfunum innra með okkur og í kringum okkur. Í raun endurspeglar þetta það sem er á gerast hnattrænt.
Það eru þegar til margar sannanir fyrir því að útivera sé góð fyrir okkur: betri andleg og líkamleg heilsa og hreinna loft. Það er dálítið merkilegt að þrátt fyrir að svæði séu „græn“, eru þau ekki öll eins. Fjölbreytni lífsins sem umlykur okkur tengist okkar eigin heilsu.
Vísindamenn vísa stundum til þessa sem ytri og innri líffræðilegur fjölbreytileika. Því meiri tegundaauðgi og breytileiki þeirra sem umlykur okkur, því fleiri heilbrigðar örverur komast í líkama okkar. Heilsan er nátengd fjölbreytileikanum, og þekkt er að í þéttbýli er tíðni bólgusjúkdóma hærri, ofnæmistilfelli eru fleiri, astmatilfelli eru fleiri sem og vandamál tengd sykursýki 1. Og það merkilega er að rannsóknir sýna að veikara ónæmiskerfi og aukning sjálfsofnæmissjúkdóma eru talin tengjast fækkun örvera í kringum okkur.
Snerting við náttúruna hefur margs konar jákvæð áhrif, bæði sálfræðileg og lífeðlisfræðileg, eins og endurheimt athygli, betra skap, minni kvíða og fækkun þunglyndiseinkenna, bætt starfsemi hjarta- og æðakerfis, efnaskipta-, öndunar- og innkirtlastarfsemi, jákvæð áhrif tengd krabbameini sem og hraðari bata eftir aðgerð og lengri lífslíkur. Oft er þessum ávinningi rakið til óbeinna áhrifa náttúrunnar, svo sem aukinnar líkamlegrar virkni, félagslegra samskipta, jákvæðra andlegra áhrifa og sólarljóss, en nýlegar niðurstöður hafa einnig dregið fram bein lífeðlisfræðileg ferli sem vegna náttúrulegs umhverfis.
Heilun fjölbreyttrar náttúru
Oft þegar við aukum samskipti fólks við náttúruna, þá sjást áhrifin strax. Rannsókn frá Finnlandi sýndi að aðeins einn mánuður af ræktun plantna innandyra hafði jákvæð áhrif, jók fjölda húðbaktería og bætti ónæmissvörun líkamans. Það var greinilegt að það var ekki garðyrkjan sem skipti öllu máli heldur var það líffræðilega örvunin, fjölbreytnin í jarðveginum, snerting við heilbrigðan, líffræðilega fjölbreyttan jarðveg og plöntur sem gerðu allt betra.
Rannsóknir á örveruflórunni eru sönnun þess hversu samofin líkami okkar er náttúrunni. Sérhver munnbiti af mat, loftið sem við öndum að okkur og hlutirnir sem við snertum tengja þessa tvo heima saman. Löngunin til að halda okkar eigin örborgurum heilbrigðum er önnur ástæða fyrir því að fólk krefst þess að við lifum náttúruríkara lífi og grípum til aðgerða til að varðveita blómlegan náttúruheim.
Stefnumótun
Stefnumótun og ákvarðanir sem teknar verða um þéttbýli munu hafa mikil áhrif á heilsu og vellíðan fólks til framtíðar. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa sett sér hvert sína umhverfisstefnu. Skipting svæðisins í mismunandi sveitarfélög flækir skipulag þess sem eina heild. Reykjavík var fyrsta höfuðborg Norðurlandanna sem mótaði sér sérstaka stefnu um líffræðilega fjölbreytni árið 2015 og er með grænt plan til 2030. Hafnarfjörður hefur fengið verðlaun fyrir endurheimt á votlendi og hefur ákvarðað ábyrgðarsvið fyrir sína umhverfisstefnu, Kópavogur er líka með sína stefnu. Hins vegar er erfitt fyrir þá sem ekki eru inni í málum að átta sig á svona við fyrstu sýn, hvað er verið að gera nákvæmlega. Almennt orðalag skyggir á skýrleikann, stundum er bara rætt um lýðheilsu en ekki um umhverfi og eftirfylgnin er óskýr. Yfirsýn vantar fyrir höfuðborgarsvæðið í heild sinni, sérstaklega hvað varðar þau svæði sem varða nærumhverfi íbúanna.
Grænu svæðin í borgunum eru mikilvæg þegar við tökum ákvarðanir um hvar við viljum búa. Grænu náttúrulegu svæðin í Reykjavík eru vissulega frábær, Tjörnin, Vatnsmýrin, Öskjuhlíð, Elliðaár og ýmis stöðuvötn og Heiðmörk svo eitthvað sé nefnt. Náttúruleg umhverfi sem henta til útivistar.
Í borginni eru hins vegar almenningsgarðar að hverfa úr borgarmyndinni og eru ekki lengur borgarprýði á mörgum nýjum svæðum. Kortasjá Reykjavíkurborgar sýnir þetta glöggt og einnig má sjá svæði þar sem gras er slegið. Grassláttur í Reykjavík árið 2024 fór fram á 10.802 sláttusvæðum og alls voru slegnir 473 hektarar af grasi það sumarið eða 4,73 km2. Af hverju allan þennan grasslátt? Slegnar grasflatir eru líffræðilegar eyðimerkur, a.m.k. þegar margar þeirra gætu verið með fjölbreyttum gróðri og verið skjól fyrir alls kyns aðrar lífverur.

Nærumhverfið er okkur mikilvægt, því náttúrlegu svæðin eru oft of langt frá íbúunum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með að það sé að minnsta kosti eitt grænt almenningssvæði, sem er að minnsta kosti 0,5 hektarar að stærð, innan 300 metra frá heimili. Heilsubótin sem felst í að fara út og hreyfa sig eða finna næði og hvíld frá amstri hversdagsins, að hitta vini og nágranna, og horfa á mannlífið. Mikilvægi jarðvegs er líka stórfenglegt fyrir sálina, og tilfinningalífið og almenna vellíðan. Hvernig er staðan í þínu nágrenni? Er grænt svæði til að njóta útiveru innan 300 m radíus frá þínu heimili?
Hvernig fjárfestum við í grænum gæðum?
Í jaðarhverfum borgarinnar er að byggjast upp svæði fjölbýlishúsa, öll eins með sams konar steypukassa sem eru byggðir fyrir fjölda fólks en ekki fer mikið fyrir fegurð og náttúrulegu umhverfi. Umhverfi blokkanna er oftast einungis gras milli húsa. Löngunin til að fara í gönguferð lekur niður í lint ákvarðanaleysi, þegar þú sérð fyrir fram hvert einasta skref og þarft svo að ganga sömu leið til baka. Útsýni úr slíkum blokkum er oft aðeins yfir í næstu byggingu. Hér hef ég reyndar ljóslifandi minni í huga frá Kórahverfinu í Kópavogi, þangað sem hluti af fjölskyldunni flutti nýlega. Ungmennin horfðu í kringum sig þarna og höfðu á orði að hér væri auðvelt að vera einmana. Þetta hverfi er ekki einsdæmi. Í eldri hverfum er oft stefna um þétta byggð þannig að húsin eru byggð hvert ofan í öðru. Stundum eru litlu grænu svæðin í grónum hverfum tekin út og húsum bætt inn í þau til að þétta byggðina.

Í miðbænum sem flestir þekkja eru líka teknar ákvarðanir sem skipta okkur máli. Á einum mikilvægasta reit borgarinnar, sem er gegnt Arnarhóli og við hliðina á Hörpu, var tekin ákvörðun um byggingu fyrir nokkrum árum. Til vinstri er gráa ákvörðunin af húsinu sem var byggt, Hús Landsbankans á Reykjastræti frá ja.is, og til hægri er sami staður með grænu ákvörðuninni sem var ekki tekin, en það var tillaga að nýbyggingu sem ekki bar sigur úr býtum, frá arkitektum frá Bjarke Ingels Group í Danmörku ásamt Arkíteó, DLD og Andra Snæ Magnasyni. Andri Snær hefur gagnrýnt slíkar ákvarðanir og með nýrri bók sinni, Jötunsteini, opnar hann inn á heita umræðu um fegurð í borg sem virðist vera hverfandi. Áberandi munur á milli þessara tveggja mynda er að grátt steypuumhverfið ríkir í borgarmyndinni en græna lífið er hvergi.
Næstu árin fram undan
Hnignun náttúrunnar er mikil í heiminum í dag. Tap líffræðilegrar fjölbreytni, tap jarðvegsgæða og skógareyðing eiga sér stað vegna mannlegra umsvifa sem fara sífellt vaxandi. Nú þegar búa um 58% heimsins í borgarumhverfi og árið 2050 er búist við að um 68% jarðarbúa búi í þéttbýli.
Á Íslandi hefur íbúafjöldi aukist um 95% síðan 1970. Fleira fólk eykur álag á náttúruauðlindir og vistkerfi. Borgir, sem skapa áskoranir fyrir loftgæði, meðhöndlun úrgangs og vatnskerfi. Íbúafjölgun eykur nauðsyn þess að skipuleggja umhverfið sem best. Loftslagsbreytingar auka álag á íbúa með hnignun auðlinda og áhrifum öfgakennds veðurs. Sjálfbær þróun krefst þess að jafnvægi sé á milli þarfa íbúa og umhverfisverndar.
Græn fjölbreytni býr til gott umhverfi fyrir fólk
Græn svæði eru mikilvæg í borgum vegna umhverfislegra, líkamlegra og andlegra áhrifa þeirra á heilsu. Þau veita skjól og betra veðurlag, bæta loft- og vatnsgæði og stjórna regnvatni. Almenningsgarðar, garðar og önnur græn svæði veita búsvæði og auðlindir fyrir dýralíf og fólk. Fyrir íbúa bjóða þau upp á nauðsynleg svæði fyrir líkamlega virkni, félagsleg samskipti og sálfræðilega endurhæfingu, draga úr streitu og bæta almenna vellíðan. Þau styðja við heilbrigða öldrun. Græn svæði geta gagnast bæði börnum og eldri fullorðnum með því að bæta vitsmunalega getu. Þau bjóða upp á rými fyrir gönguferðir, hlaup og aðra afþreyingu.
Að lokum
Alþjóðlegi jarðvegsdagurinn 2025 er ákall til aðgerða. Hann hvetur stjórnmálamenn, vísindamenn, leiðtoga, samfélag og borgara alls staðar að endurhugsa þéttbýlisrými með tilliti til heilbrigðis jarðvegsins. Tryggja þarf að fólk og náttúra geti dafnað saman í heilbrigðum grænum borgum. Ákall er um víðtæka innleiðingu á líffræðilegum fjölbreytileika. Verndun og endurnýjun jarðvegs er leið til að styrkja aðgerðir í loftslagsmálum, bæta lýðheilsu og draga úr hættu á náttúruhamförum. Nútímalífið herjar stríð gegn vistkerfum í kringum okkur og innra með okkur. Að halda okkar eigin örverum heilbrigðum er önnur ástæða til að vernda og varðveita náttúruna. Markmiðið er að tryggja að fólk og náttúra geti dafnað saman í heilbrigðum borgum. Verndum jarðveg og grænar áherslur fyrir samfélög til að eiga sjálfbæra framtíð.
Höfundur er jarðfræðingur hjá Landi og skógi











































Athugasemdir