Íbúi við Skaftafell hefur áhyggjur af því að 70 ferðamannahýsi, sem nú eru í byggingu, stangist á við umhverfi þjóðgarðsins. Þá hafi mikil breyting á deiliskipulagi farið fram hjá mörgum. Orðalag auglýsingar Sveitarfélagsins Hornafjarðar virðist hafa verið villandi og beinlínis rangt að hluta.
Vatnajökulsþjóðgarður, sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna, gagnrýndi að ekki væri tekið til sjónrænna áhrifa og vísar til ábyrgðar sveitarfélagsins, sem hafði ætlað sér samráð við þjóðgarðinn.
Húsin áttu að vera lágreist
Jón Ágúst Guðjónsson býr á Skaftafelli 2 í Öræfum, skammt austan við þjóðgarðinn á Skaftafelli. Á Skaftafelli 3 og 4 hefur verið heimiluð gríðarleg uppbygging á húsum fyrir ferðamenn, sem áttu upphaflega að vera lágreist, á einni hæð, en voru uppfærð í tveggja hæða hús og fjöldi þeirra tvöfaldaður úr 35 í 70.
„Það virðist vera, þetta virðist hafa farið framhjá flestum hér,“ segir Jón Ágúst í samtali við Heimildina. Hann segir í umræðunni að kalla eftir íbúafundi um uppbygginguna. „Ég hef engan hitt sem líst vel á þetta,“ segir hann.
Húsin eru í hraðri uppbyggingu þessa dagana. „Þetta er bara að gerast og ekki allir sem eru búnir að sjá þetta,“ segir hann.

Hækkuðu byggingarnar
Upphaflega var í skipulagi heimild fyrir byggingu 35 ferðamannahýsa. „Húsin skulu vera á einni hæð,“ sagði í gildandi skilmálum. Þegar þessu var breytt hljóðaði auglýsingin frá sveitarfélaginu Hornafirði svo: „Helstu markmið breytingarinnar eru að byggingarheimildir aukast úr 35 gisti- og þjónustuhúsum í 70 hús með samtals 70 gistirýmum sem jafngildir 140 gistirúmum.“
Um leið var hins vegar veitt heimild til þess að tvöfalda hæð húsanna og stækka hvert og eitt þeirra úr 40 fermetrum í 64 fermetra. Þessi breyting fór fram hjá mörgum íbúum.

„Svæðið fellur ekki undir sérstaka vernd náttúrufyrirbæra,“ sagði í skýrslu Eflu við kynningu á framkvæmdunum.„Áhrif á ásýnd er [sic] metin óveruleg,“ sagði þar einnig.
Þessu er Jón Ágúst, á Skaftafelli 2, ekki sammála. „Fyrstu viðbrögð við að sjá þetta og heyra að það eigi að rísa þarna 70 hús í þessum stíl eru að þetta eigi ekki heima á þessum stað og að þetta gjörbreyti ásýnd þjóðgarðsins og sveitarinnar,“ skrifaði Jón Ágúst í færslu á Facebook sem vakið hefur mikla athygli.
Þar færir Jón Ágúst fram tvíþætta gagnrýni, að kynning hafi verið lítil og að niðurstaðan sé byggð sem stangast á við umhverfi sitt. „Mér finnst brýnt að allar framkvæmdir í því einstaka landslagi sem er hér í Öræfunum falli vel að landslagi og sveitarbrag og að við komum í veg fyrir að umhverfinu sé spillt með framkvæmdum sem ekki passa hér,“ segir hann.











































Athugasemdir