Birgir Ármannsson, fyrrverandi forseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur stofnað lögfræðiþjónustu.
Birgir var ekki í framboði til Alþingis fyrir síðustu þingkosningar og lauk þar með 21 árs þingferli. Hann hafði ekki hlotið náð uppstillingarnefndar Sjálfstæðisflokksins. „Ég er tilbúinn til þess að vera áfram ef það verður niðurstaða uppstillingarnefndar og fundarins í kjördæmisráðinu,“ sagði hann þá.
Í samtali við Vísi í júní síðastliðnum kom fram að hann hefði leyst út málflutningsréttindi á ný. „Það er alltaf eitthvað spennandi. Þetta er ný tilvera og það er gaman mjög gaman að því,“ sagði hann þar.
Birgir hóf ungur aðild að stjórnmálum. Hann var formaður Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna, árin 1989 til 1991, eða á aldrinum 21 til 22 ára. Samtímis og áður var hann blaðamaður Morgunblaðsins. Birgir kláraði embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands 1996 og varð héraðsdómslögmaður 1999, áður en hann sótti framhaldsnám við King's College í London 1999 til 2000.
Loks var Birgir kjörinn á þing árið 2003, þá 35 ára gamall, og varð þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 2017 til 2021, og svo forseti Alþingis 2021 til 2024.
Lögfræðiþjónusta Birgis heitir Lögfræðiþjónusta Birgis Ármannssonar ehf. og er skráð til heimilis á heimili hans í Vesturbæ Reykjavíkur. Í varastjórn er dóttir Birgis.











































Athugasemdir