Í ágúst árið 2002 steig ég um borð í flugvél á leið þvert yfir hnöttinn, frá Íslandi til Hong Kong. Ég var á nítjánda aldursári og átti eina önn eftir í framhaldsskólanámi, sem stóð þá í fjögur ár. Næstu tvö árin stundaði ég nám við alþjóðlegan framhaldsskóla, Li Po Chun United World College of Hong Kong, þökk sé námsstyrk frá íslenska ríkinu.
Þetta ferðalag hófst með blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu 16. júlí 2000. Greinin „Heimsborgarar á hjara veraldar“ fjallaði um United World College Red Cross Nordic í Noregi, alþjóðlegan framhaldsskóla sem er hluti af United World College skólahreyfingunni (UWC). Fyrsti UWC skólinn var stofnaður í Wales árið 1962 og eru skólarnir nú átján talsins, staðsettir úti um heim allan. Ég ákvað þá og þegar, við eldhúsborðið heima í Grindavík, að sækja um, leiðin lá til Noregs. Röð atvika og afar skilningsríkir foreldrar leiddu til þess að ég endaði ekki hjá frændfólki okkar í Noregi heldur í annarri heimsálfu.
Nýir heimar opnuðust nánast um leið og ég steig út úr flugvélinni. Ég skrifa nýir heimar vegna þess að mín beið ekki eingöngu daglegt líf á heimavist í Hong Kong heldur fjölþjóðleg menntun, bæði í gegnum námið og samnemendur mína. Í tvö ár deildum við vistarverum, stunduðum nám og vörðum öllum okkar tíma saman, við leik og störf.
„Ég flutti hinu megin á hnöttinn ekki bara til að læra um menningu annarra heldur líka um mína eigin.“
Í sögutímum lærðum við um kínverska og japanska sögu. Í leiklistartímum settum við upp Antígónu, tileinkuðum okkur hugmyndafræði Brecht og kynntumst Bunraku. Í enskutímum lásum við og töluðum um Bronte, Chang, Márquez og Murakami. Í frítímanum stunduðum við sjálfboðaliðastörf, lögðum í ævintýraferðir um borgina og til nærliggjandi landa. Á bókasafninu horfði ég á VHS upptöku af Richard Burton leika Hamlet, í skólapartíum dansaði ég við Bollywood tónlist, í bíó sá ég hasarmyndir frá Hong Kong og í leikhúsinu sat ég dolfallin yfir látbragðsleikaranum Marcel Marceau. Samhliða kynnist ég jafnöldrum frá öllum heimshornum og sjálfri mér, lærði um aðra menningarheima og að horfa á minn eiginn bakgrunn með nýjum augum. Ég flutti hinu megin á hnöttinn ekki bara til að læra um menningu annarra heldur líka um mína eigin.
Fyrstu viðbrögð margra Íslendinga þegar ég fékk inngöngu skólann voru undrun og skilningsleysi. Á meðal spurninga voru: Hvað í ósköpunum hefur þú að sækja til Japan? Hvernig dettur þér í hug að fresta háskólanáminu? Af hverju hatar þú Ísland? Allt raunverulegar spurningar frá fullorðnu fólki. Lesandi, ég hafði svo sannarlega mikið að sækja til Hong Kong, sem er auðvitað ekki í Japan. Eftir útskrift stundaði ég nám við háskólann í Edinborg sem hefði aldrei staðið til boða ef ekki hefði verið fyrir alþjóðlega framhaldsskólaprófið.
Alþjóðleg tengsl og heimshornaflakk skilar sér margfalt til baka. Síðastliðinn áratug hef ég starfað sem leikhúsgagnrýnandi og er sviðslistasérfræðingur við Leikminjasafnið á Landsbókasafni Íslands, skjalasafn sem safnar, varðveitir og miðlar íslenskri sviðslistasögu. Samhliða hef ég kynnt asískar sviðslistir fyrir nemendum við Listaháskóla Íslands. Á næsta ári verður blásið til tveggja daga sviðslistaráðstefnu á Íslandi þar sem fræðafólk frá öllum heiminum fær tækifæri til að kynnast landi og þjóð. Rót þessara verkefna má finna á heimavist í Hong Kong.

Á síðasta ári hélt árgangurinn minn upp á tuttugu ára útskriftarafmælið okkar í Hong Kong. Orð fá ekki lýst hversu magnað var að hitta gömul bekkjarsystkini, einstaklinga frá öllum heimshornum sem eru núna kennarar, listafólk, lögfræðingar, stjórnendur, læknar, blaðamenn, borgarfulltrúar, fjárfestar … Við erum ólíkur hópur sem aldrei hefði kynnst nema væri fyrir þessi tvö námsár sem batt okkur órjúfanlegum böndum. Tengslanetið spannar ekki eingöngu fjölbreytt lönd heldur líka alþjóðlega háskóla, stofnanir og fyrirtæki.
Þessi ólíki hópur fór eðlilega í ólíkar áttir eftir útskrift. Bekkjarsyskini mín útskrifuðust frá Oxford, University College London, Duke, Dartmouth, Melbourne, Hong Kong, Sciences Po, Princeton, Universidad Nacional í Kólumbíu, California Institute of the Arts, University College Utrecht, London School of Economics, McGill, Berkeley, New York og svo mætti lengi telja. Þau starfa fyrir alþjóðleg hjálparsamtök, Institute of Science and Technology í Austurríki, TP ICAP, sendiráð, J.P. Morgan, Google, World Bank, háskóla, sjúkrahús og reka sín eigin fyrirtæki. Öll eiga þau persónulega tengingu við Ísland þökk sé námsstyrks forðum daga.
„Ísland getur ekki einangrað sig frá umheiminum, slíkt er hreinlega hættulegt, heldur eigum við sem þjóð markvisst að skapa og styrkja alþjóðleg sambönd.“
Þess væri óskandi að ég gæti bundið enda á þennan pistil með því að skrifa um breytta tíma, meiri skilning og alla þá íslensku nemendur sem eiga kost á því að kynnast heiminum í gegnum alþjóðlegt framhaldsskólanám. Svo er ekki. Stuttu eftir útskrift mína í Hong Kong hætti íslenska ríkið að styrkja íslenska nemendur til náms við skólann. Á þessu ári barst Red Cross Nordic, UWC skólanum í Noregi, tilkynning um að núverandi ríkisstjórn ætlaði að hætta að styrkja nemendur til náms við skólann. Ísland er núna eina Norðurlandið sem ekki styrkir ungt fólk til náms við UWC skóla. Þessi ákvörðun er til háborinnar skammar, vitnisburður um heimóttaskap og dæmi um ráðafólk sem sér ekki skóginn fyrir trjánum.
Í heimi síaukinnar sundrungar og skautunar gæti tímasetningin ekki verið verri. Ísland getur ekki einangrað sig frá umheiminum, slíkt er hreinlega hættulegt, heldur eigum við sem þjóð markvisst að skapa og styrkja alþjóðleg sambönd. Skólavistin við UWC skóla snýr ekki eingöngu að einstaka nemendum sem fá tækifæri til að sækja sér menntun á heimsmælikvarða heldur að íslenska þjóðin sé virkur þátttakandi í alþjóðasamfélagi sem berst fyrir friði, virðingu og hagsæld þvert á menningarheima.
Höfundur er sviðslistasérfræðingur, leikhúsgagnrýnandi hjá Heimildinni og fyrrum nemandi við Li Po Chun United World College of Hong Kong (2002-2004).













































Athugasemdir (1)