Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir að enginn standi Íslandi framar í að vera móttöku þjóð fyrir erlenda heri. Mikilvægi staðsetningar og sú staðreynd að hér fari fram vöktun í lofti og á legi geri Ísland að mikilvægum bandamanni innan NATO.
Þetta kom fram á blaðamannafundi hans og Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra í dag. Rutte er staddur á landinu í sinni fyrstu heimsókn eftir að hann tók við starfi framkvæmdastjóra bandalagsins og hefur fundað með Kristrúnu forsætisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra.
Ísland er eina herlausa landið innan NATO og hefur ekki staðið undir væntingum bandalagsins, eða Bandaríkjastjórnar, um að verja sem nemur fimm prósent af þjóðarframleiðslu til NATO og sameiginlegra varna. Rutte sagði Ísland í einstakri stöðu en kallaði eftir því að meira yrði gert.
„Auðvitað er Ísland einstakt vegna þess að þið eruð ekki með her, en þið leggið ykkar af mörkum til alls sem tengist útgjöldum til varnar- og öryggismála. Þegar kemur að loftvörnum, þegar kemur að eftirlitskerfum, þá eruð þið sem land augu og eyru margra okkar innan NATO,“ sagði Rutte sem sagði Ísland vera á réttri leið en meira þyrfti til. „Við viljum að Ísland geri meira. Ísland hefur skuldbundið sig til að halda áfram að fjárfesta á komandi árum til að styrkja þennan iðnað.“
Kristrún sagði að til stæði að leggja meira í varnir en það verklag sem hefur verið viðhaft á Íslandi virki. „Öryggislíkanið okkar hefur virkað. Við þurfum bara að styrkja það enn frekar. Þetta snýst ekki um að breyta því hvernig við stöndum að öryggismálum, heldur þurfum við að gera það öflugra. Og þetta styrkir líka stöðu okkar og sess innan NATO,“ sagði hún.
„Það eru ekki allir að gera það sama. Ríkin gera það sem hentar þeim, það sem þeim hæfir, og þessi samkoma er það sem styrkir bandalagið. Þess vegna erum við með bandalag.“
Þetta virtist Rutte vera meðvitaður um og sammála.
„Þú hefur gert áframhaldandi skuldbindingu Íslands gagnvart NATO skýra – mjög skýra,“ sagði hann og beindi orðum sínum til Kristrúnar í upphafi fundarins. „Fyrir þjóð án hers er þetta ekkert smá verkefni. En Ísland hefur alltaf slegið yfir sinni þyngd.“
Kristrún líkti Íslandi við ósökkvandi flugmóðurskip sem sé á mikilvægum stað og Rutte tók undir. Benti hann á að Reykjavík væri norðlægasta höfuðborg innan NATO-bandalagsins og að hann héldi utan þess líka. Sem er rétt, ef aðeins eru talin fullvalda ríki.
Áður en Rutte hrósaði Íslendingum fyrir stuðning við Úkraínu, hrósaði hann Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir aukinn kraft í friðarferli Úkraínu. Hrós Íslendinga var fyrir framlag sitt til vopnakaupa fyrir Úkraínu, að skaffa gervilimi fyrir þá sem hafa særst, og fyrir að styðja við sprengjuleit og -eyðingu í Úkraínu.












































Athugasemdir