REIR20, Öxar20, og Kauplykill eru allt sjóðir eða lausnir sem byggingaverktakar hafa gripið til og stofnað vegna þess hve illa gengur að selja nýjar íbúðir. Öll verkefnin ganga út á að vera meðeigandi kaupenda að húsnæði, gegn því að fá greidda leigu við lok samningsins sem gerður er við sjóðina.
Ekki er um hefðbundna lánasjóði að ræða því skilyrði fyrir þátttöku þeirra í kaupum á húsnæði, er að keyptar séu eignir af þeim byggingarverktökunum sem standa að baki sjóðunum.
Reir reið á vaðið og auglýsti í haust REIR20. „REIR20 er sjóður sem léttir undir með þér við fasteignakaup. Sjóðurinn leggur til allt að 20% af kaupverði eignarinnar og gerist meðeigandi í eigninni sem þú hefur engu að síður 100% ráðstöfunarrétt yfir,“ segir í kynningu á vef sjóðsins. REIR20 er í eigu hjónanna Hilmars Kristinssonar og Rannveigar Eirar Einarsdóttur, sem eru eigendur verktakafyrirtækisins REIR verk.
Hinir sem fylgdu í kjölfarið bjóða nákvæmlega sömu þjónustu. Það er ekki tilviljun. Í raun er þetta allt rekið á grunni sjóðsstýringarfélagsins Stefnis og norska fyrirtækisins Aparta.
Aparta sérhæfir sig í að kaupa og vera meðeigandi í heimilum fólks. Þannig býður fyrirtækið einstaklingum að sækja um eða óska eftir tilboði í allt að 50 prósent eignarhlut í húsnæði sínu, án þess að þurfa að flytja út. Það er þó í samstarfi við verktakafyrirtækin sem Aparta virðist ætla að ná fótfestu á Íslandi, fremur en í gegnum viðskipti við einstaklinga.
Svar við frosti á íbúðamarkaði
„Þetta var nú ekki upprunalega hugmyndin hjá okkur. Við ætluðum að safna í sjóð og bjóða fólki að kaupa í íbúðarhúsnæðinu þeirra,“ útskýrir Sigurður Viðarsson, framkvæmdastjóri Aparta á Íslandi. Það hafi hins vegar orðið „algjört frost á markaði“ og verktakar hafi farið að leita leiða til að koma íbúðum í sölu.












































Athugasemdir