Eitthvað hefur verið rætt og ritað í samfélaginu í kjölfar bilunarinnar á Grundartanga. Tveir þriðju hlutar framleiðslunnar hafa stöðvast um ófyrirséðan tíma með tilheyrandi óvissu fyrir stjórnendur og starfsfólk Norðuráls, fyrir Akranes og sveitirnar í kring og ekki síður samfélagið allt, en Norðurál er stærsti vinnustaður á Vesturlandi og eitt stærsta útflutningsfyrirtæki landsins.
Hvenær er fyrirtæki íslenskt?
Álverin á Íslandi eru öll íslensk og hafa íslenska kennitölu. Hins vegar eru hluthafar þeirra erlendir eins og á við um mörg fyrirtæki á Íslandi. Flest stærri fyrirtækja landsins eru að hluta eða öllu leyti í eigu erlendra fjárfesta, hvort sem þau eiga sér íslenskan uppruna eða ekki. Má þar nefna stærstu hótelkeðjurnar á Íslandi, lyfjafyrirtæki og hátæknifyrirtæki sem byggja á íslensku hugviti. Mörg þeirra eru á markaði með dreifða eignaraðild fjárfesta. Álverin eins og önnur íslensk fyrirtæki starfa samkvæmt öllum reglum sem gilda um fyrirtæki á íslenskri grundu og greiða skatta og standa við sínar skyldur eins og íslenskum fyrirtækjum ber að gera. Það væri tómlegt að líta yfir sviðið ef við ættum að vísa öllum fyrirtækjum úr landi, hvers hluthafar eru erlendir. Svona er bara heimurinn í dag, við drögum að okkur fjárfesta hvaðanæva úr heiminum sem þannig standa við bakið á íslensku atvinnulífi.
Áhrif bilunarinnar á Grundartanga á íslenskan efnahag
Hagfræðingar keppast við að spá í spilin. Eins og við höfum oft séð geta hagfræðingar frá sama skóla teiknað mismunandi sviðsmyndir út frá þeim gögnum sem þeir leggja til grundvallar. Hagfræðin er að hluta til spámennska út frá gefnum forsendum og afleiðum og vonandi hafa þeir rétt fyrir sér sem telja bilunina á Grundartanga hafa óveruleg áhrif á íslenskan efnahag. Það eru þó fleiri en færri á annarri skoðun og eðlilegt að viðbrögðin miðist við verstu mögulegu sviðsmyndina, ellegar erum við að fljóta sofandi að feigðarósi.
Álverin borga hátt verð fyrir raforkuna
Fyrsta álverið var reist í kjölfar samninga um raforkukaup við lok 7. áratugarins. Á þeim tíma reyndist nauðsynlegt að laða til landsins fyrirtæki sem hafði burði til þess að semja um raforkukaup til lengri tíma. Landsvirkjun var stofnuð og þessir samningar gerðu þjóðinni kleift að byggja fyrstu stóru vatnsaflsvirkjun landsins sem var Búrfellsvirkjun.
Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, nú eru álverin orðin þrjú, Landsvirkjun er orðin eitt öflugasta fyrirtæki landsins og hefur skilað þjóðinni gríðarlegum arði einmitt vegna samninga um sölu raforku til íslensku álveranna.
Og ef einhverjir halda að raforkan til álveranna sé seld ódýrt í dag þá vaða þeir hinir sömu reyk. Því miður eru samningar um raforkukaup álveranna að einhverju leyti trúnaðarmál og erfitt að birta þær tölur vegna samkeppnissjónarmiða. En forstjóri Landsvirkjunar hefur þó upplýst að verð á raforku til álveranna hafi farið hækkandi á undanförnum árum í kjölfar endursamninga. Sé tekið tillit til þess að nær öll önnur ríki en Ísland niðurgreiða raforku til stórnotenda með einhverjum hætti er raforkukostnaður hærri á Íslandi en í þeim ríkjum sem við berum okkur helst saman við.
Fyrir raforkuna greiddu álverin á Íslandi 65 milljarða á síðasta ári og keyptu hana að langmestu leyti af orkufyrirtækjum í eigu almennings. Vegna raforkusölu til stórnotenda hefur Landsvirkjun greitt 90 milljarða í arð til þjóðarinnar frá árinu 2019. Það er vegleg upphæð sem rennur beint í ríkissjóð.
Samningar um raforkusölu eru flóknir. Verð á raforku ræðst af magni og tímalengd samninga. Það er mikilvæg grunnstoð þegar raforkukerfið hvílir á traustum langtímasamningum um raforkukaup og gefur þannig meira svigrúm til sveigjanlegri samninga til skemmri tíma, bæði til fyrirtækja og til almennings. Þar eru álverin traustur burður.
Álverin greiða bæði skatta og gjöld á Íslandi
Innlend útgjöld íslensku álveranna voru 135 milljarðar á síðasta ári. Þar af greiddu álverin 30 milljarða í laun og launatengd gjöld og þau greiddu 6 milljarða í opinber gjöld. Þannig hefur ríkissjóður innheimt ríkulega af starfsemi álveranna fyrir utan þau afleiddu áhrif sem starfsemin hefur sem er annað eins í hringrás hagkerfisins.
Þúsundir byggja afkomu sína á álframleiðslu á Íslandi
Við álframleiðslu eru regluleg stöðugildi um 2000 (starfsfólk og verktakar). Sé litið til afleiddra starfa má gera ráð fyrir að 5000 stöðugildi starfi með beinum og óbeinum hætti við álframleiðslu á Íslandi. Álverin kaupa vörur og þjónustu og þau eru mikilvæg grunnstoð samfélagsins. Norðurál er stærsti vinnustaður á Vesturlandi og 60% af starfsfólki Norðuráls kemur frá Akranesi og nærsveitum. Vegna álversins á Reyðarfirði hefur byggð á Austurlandi styrkst og blómstrað sem hefur svo aftur byggt undir aðra atvinnustarfsemi eins og ferðaþjónustu á svæðinu. Þannig eru afleidd áhrif álframleiðslu mun meiri en beinar tölur sýna.
Mikilvægt framlag til loftslagsmála
Það er rétt að álframleiðsla losar talsverðan koltvísýring út í andrúmsloftið. Það er þó þannig að álið er lykilmálmur í orkuskiptunum, álið er miklum mun eðlisléttari málmur en t.d. stálið og er þannig mikilvægt burðarefni í samgöngutæki. Álið er endingagott og tærist lítið og þar með mikilvægt efni í byggingar og klæðningar. Álið er notað í sólarsellur, vindmyllur, kælibúnað gagnavera, rafeindatæki og rafmagnslínur. Álið er líka hægt að endurvinna endalaust með litlum tilkostnaði og nær engu kolefnisspori.
Einmitt vegna orkuskiptanna er áætlað að eftirspurn eftir áli muni aukast um 3-4% á ári. Álframleiðsla í heiminum mun þannig þurfa að aukast svo okkur takist að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins.
Ísland framleiðir ál með lægst kolefnisspor í heimi. Það er fyrst og fremst vegna endurnýjanlegu orkunnar sem við Íslendingar eigum, en líka vegna vandaðra framleiðsluferla í álverunum sjálfum. Álverin á Íslandi starfa langt undir öllum viðmiðum um losun snefilefna í útblæstri, þau hafa lagt kapp á að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda í öllum sínum rekstri eins og kostur er miðað við þá tækni sem við búum yfir í dag.
Ef álframleiðsla leggst af á Íslandi mun álið verða framleitt annars staðar með miklu hærra kolefnisspori. Losun kolefnis í álframleiðslu á Íslandi er um 4 sinnum undir meðaltali í heiminum svo fyrir hvert tonn af áli sem er ekki framleitt á Íslandi má gera ráð fyrir að það losni 4 viðbótar tonn af koltvísýringi.
Álframleiðsla á Íslandi er undirstaða nýsköpunar
Í tengslum við álframleiðslu á Íslandi starfa fjölmörg fyrirtæki við rannsóknir og þróun á nýjum lausnum sem geta bætt framleiðsluferla álveranna. Þar eru fyrirtæki að vinna að tæknilausnum sem geta skilað okkur enn betri nýtingu hráefna og minni losun koltvísýrings. Einhver þessara fyrirtækja eru að markaðssetja sína vöru út fyrir landsteinana og eiga án efa eftir að skila þjóðinni myndarlegum útflutningstekjum. Það er margt spennandi þar á ferð enda Íslendingar þekktir fyrir hugmyndaauðgi og elju.
Álið er einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar
Álframleiðsla á Íslandi er einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar eins og fiskvinnsla og ferðaþjónusta og hugverkaiðnaður. Útflutningsgreinarnar mynda þau verðmæti sem verða til í samfélaginu og eru undirstaða hagvaxtar og velferðar á Íslandi.
Þegar svo mikilvæg stoð brestur eins og við sjáum nú gerast á Grundartanga er ekki nema von að það valdi áhyggjum. Sem betur fer átta flestir sig á alvarleika málsins og eðlilegt að velta upp hvernig styðja megi samfélagið í gegnum þessar þrengingar. Velferð þjóðarinnar byggir á því að álverinu á Grundartanga sem og öðrum íslenskum fyrirtækjum gangi vel.
 
                 
            
        
    


















































Athugasemdir (2)