onald Trump, forseti Bandaríkjanna, setti spurningarmerki við veru Íslands í varnarbandalaginu NATO á fundi með framkvæmdastjóra þess, Jens Stoltenberg, á fyrsta fundi þeirra í apríl 2017.
Soltenberg, sem er fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, núverandi fjármálaráðherra og var framkvæmdastjóri Nató frá 2014 til 2024, segir frá þessu í nýútkominni ævisögu sinni.
„Fyrir Trump voru varnarútgjöld aðildarríkja NATO mikilvægasta málið,“ segir Stoltenberg, í frásögn sem birt hefur verið á Guardian. „Mig langaði að hann liti bandalagið jákvæðari augum og ég hafði með mér línurit sem sýndi að útgjöldin væru vaxandi. Trump hafði mestar áhyggjur af því að einungis fimm aðildarríki hefðu náð markmiðinu um að verja 2% af vergri landsframleiðslu (VLF) til varnarmála. Ég benti á að nokkur ríki væru mjög nærri því, og sex eða sjö líkleg til að ná markmiðinu á næstunni. Svo var það Ísland: þar er enginn her, þannig að landið myndi aldrei verja 2% af VLF til varnarmála. Því væru þetta í reynd fimm af 27 ríkjum sem hefðu náð markmiðinu, ekki fimm af 28, sagði ég og hugsaði með mér að ég hlyti að hljóma dálítið nördalega með allar þessar tölur,“ lýsir Stoltenberg.
Samkvæmt lýsingu hans greip Trump Ísland á lofti.
„En þetta vakti athygli Trump, þó ekki með þeim hætti sem ég hafði ætlað. „Hvað viljum við þá með Ísland?“ Áður en ég náði að segja nokkuð til viðbótar kom Jim Mattis mér til hjálpar og útskýrði hve mikilvægar herstöðvar NATO þar væru fyrir kafbáta, skip og flugvélar bandalagsins: „Herra forseti, gott er að hafa þær ef maður vill elta uppi rússneska kafbáta.“ Trump hugsaði sig um andartak. „Jæja, þá leyfum við Íslandi að vera áfram meðlimur,“ sagði hann.“
Hótaði að yfirgefa NATO
Stoltenberg segir frá símtali sínu með Trump árið 2018, þar sem forsetinn fáraðist yfir því að Þjóðverjar verðu aðeins 1% af þjóðarframleiðslu sinni til varnarmála. Trump sagði að Angela Merkel Þýskalandskanslari hefði hlegið þegar Trump krafði hana um að ná 2% markinu. Bandaríkin legðu hins vegar fram 4% og það væri ósanngjarnt fyrir skattgreiðendur.
„Heyrðu, ef við förum, þá förum við. Þið þurfið á NATO að halda, sárlega. Við þurfum ekki á NATO að halda,“ sagði forsetinn við Stoltenberg, í endursögn þess síðarnefnda.
Áhyggjur Stoltenbergs virtust ætla að raungerast á leiðtogafundi NATO, 12. júlí 2018, þegar Trump lýsti því yfir að hann ætlaði að yfirgefa fundinn vegna þess aðildarríkin ætluðu ekki að auka framlag sín til varnarmála í 2% af þjóðarframleiðslu strax á því ári.
Athugasemdir