Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hvetur dómsmálaráðuneyti sitt opinberlega til að grípa til aðgerða gegn óvinum hans.
Gagnrýnendur segja þetta enn eitt dæmið um að hafi brotið sé í bága við hefðbundið sjálfstæði ráðuneytisins og það misnotað í pólitískum tilgangi.
Í færslu á samfélagsmiðli sem beint var að „Pam“ – að því er virðist Pam Bondi dómsmálaráðherra – lét Trump í ljós gremju sína yfir skorti á lagalegum aðgerðum gegn Adam Schiff, öldungadeildarþingmanni frá Kaliforníu, og Letitiu James, dómsmálaráðherra New York, sem bæði eru demókratar.
Schiff og James eru meðal nokkurra sem Bill Pulte, forstjóri alríkisstofnunar um húsnæðismál og náinn bandamaður Trumps, hefur sakað um að falsa skjöl í tengslum við húsnæðislánsumsóknir. Þar á meðal var stjórnarmaður í Seðlabanka Bandaríkjanna, sem Trump reynir nú að reka. En einnig hefur verið bent á stjórnmálamenn úr röðum Repúblikana sem viðhaft hafa sama hátt við skráningu húsnæðislána, sem varðar að skrá annað heimili ekki sérstaklega sem slíkt og njóta þar með hugsanlega betri vaxtakjara.
„Við getum ekki beðið lengur, þetta er að eyðileggja orðspor okkar og trúverðugleika,“ sagði Trump.
Á föstudag rak Trump alríkissaksóknarann sem hafði yfirumsjón með rannsókninni á James, eftir að saksóknarinn fullyrti að ekki væru nægjanleg sönnunargögn til að ákæra hana fyrir húsnæðislánasvik.
Erik Siebert, alríkissaksóknari í austurhluta Virginíu, tilkynnti starfsfólki um afsögn sína í tölvupósti á föstudag, að því er New York Times og aðrir bandarískir fjölmiðlar greindu frá.
„Ég rak hann, og það er um FRÁBÆRT MÁL að ræða, og margir lögfræðingar og álitsgjafar í lögfræði segja það,“ sagði Trump á laugardag og vísaði þar að því er virðist til rannsóknarinnar á James.
Schiff og James hafa áður átt í deilum við Trump og stýrt rannsóknum sem forsetinn, sem er repúblikani, heldur fram að hafi verið pólitískar nornaveiðar.
Seint á laugardag sagði Trump að hann hefði skipað Lindsey Halligan, aðstoðarmann í Hvíta húsinu, í stöðu Sieberts. Halligan hefur stýrt endurskoðun á efni Smithsonian-stofnunarinnar með tilliti til „sundrandi eða flokkspólitískra frásagna“.
Forseti Bandaríkjanna lýsti Halligan sem „hörðum, klárum og tryggum lögfræðingi.“
Lagaleg barátta
Á fyrsta kjörtímabili Trumps í Hvíta húsinu stýrði Schiff, sem þá var fulltrúadeildarþingmaður, saksókninni í fyrstu ákæru í þinginu á hendur forsetanum fyrir embættisbrot. Ákæran byggðist á ásökunum um að hann hefði þrýst á Úkraínu að hafa áhrif á kosningarnar árið 2020, með því að tengja hernaðarstuðning við aðgerðir gegn syni Joes Biden, þá fyrrverandi varaforseta.
Trump var að lokum sýknaður af öldungadeildinni þá, og aftur árið 2021 þegar hann var ákærður í annað sinn, þá fyrir „hvatningu til uppreisnar“ í tengslum við árás stuðningsmanna hans á þinghúsið 6. janúar 2021.
Eftir að Trump yfirgaf Hvíta húsið höfðaði James umfangsmikið mál gegn honum vegna fjársvika. Hún hélt því fram að hann og fyrirtæki hans hefðu ólöglega blásið upp eignir sínar og hagrætt verðmæti fasteigna til að fá hagstæð bankalán eða tryggingaskilmála.
Dómari í ríkinu dæmdi Trump til að greiða 464 milljónir dala í því máli, en æðri dómstóll felldi síðar niður fjársektina, þrátt fyrir að staðfesta undirliggjandi dóm.
„Þau ákærðu mig tvisvar fyrir embættisbrot og kærðu mig (5 sinnum!), FYRIR EKKERT. RÉTTLÆTINU VERÐUR AÐ VERÐA FULLNÆGT, NÚNA!!!“ skrifaði Trump í gær.
Trump hefur einnig verið sakfelldur fyrir 34 gróf brot í tengslum við þöggunargreiðslur til klámstjörnu.
Fyrr í þessum mánuði staðfesti áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum 83,3 milljóna dala sekt sem kviðdómur lagði á Trump fyrir að rægja rithöfundinn E. Jean Carroll, en hann var fundinn sekur um að hafa beitt hana kynferðisofbeldi.
Rannsóknir á Trump vegna meintrar rangrar meðferðar á leyniskjölum og tilrauna til að hnekkja úrslitum forsetakosninganna 2020 voru látnar niður falla þegar hann var endurkjörinn á síðasta ári.
Á sama tíma og Trump forseti hvetur til ákæra á þeim sem hafa tekið þátt í ákærum og rannsóknum á honum, kemur fram hjá New York Times að Tom Honan, sem Trump skipaði sem landamærastjóra, verður ekki rannsakaður frekar fyrir að hafa tekið við 50 þúsund Bandaríkjadölum í reiðufé frá alríkislögreglumönnum sem þóttust vera athafnamenn og fóru fram á að viðskiptasamningum vegna landmæraeftirlits yrði beint til þeirra. Dómsmálaráðuneytið hefur fellt niður rannsókn í mútumáli gegn honum.
Þá fullyrti Trump í vikunni að bandarískum þáttarstjórnendum væri óheimilt að beina háði sínu að forsetanum í sífellu, eftir að forstjóri bandarísku fjarskiptastofnunarinnar, sem Trump skipaði, hótaði að svipta ABC sjónvarpsstöðina útsendingaleyfi vegna ádeilupistils grínistans Jimmys Kimmel um viðbrögð Repúblikana við morði á áhrifavaldinum Charlie Kirk, sem leiddi til þess að þætti Kimmels var aflýst um óákveðinn tíma.
Athugasemdir