Samband ungra sjálfstæðismanna hefur hannað stuttermaboli með sömu áletrun og kristilegi þjóðernissinninn Charlie Kirk íklæddist þegar hann var myrtur af 22 ára mormóna úr fjölskyldu repúblikana, sem sagðist hafa „fengið nóg af hatri hans“. Áletrunin segir: Frelsi, eða Freedom, og útskýring SUS er sú að „ofbeldisöflum mun aldrei takast að þagga niður í málsvörum frelsisins“.
Allir fundargestir á þingi SUS 3. til 5. október næstkomandi munu fá bolinn til eignar og því má gera ráð fyrir að ungliðar eins stærsta stjórnmálaafls Íslands muni vera klæddir í sama bol og Charlie Kirk á næsta fjöldafundi.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem tilteknir hópar til hægri eigna sér frelsishugtakið, en hvað þýðir það í þetta sinn?
Fóstureyðingar sem fjöldamorð
Charlie Kirk gerði út rétt til tjáningarfrelsis andspænis ríkjandi viðhorfum almennings. Stór hluti tjáningar hans sneri hins vegar að því að rétt væri að takmarka frelsi tiltekinna hópa.
Eitt helsta baráttumál Charlie Kirk og margra annarra bókstafstrúaðra var að koma í veg fyrir fóstureyðingar og ná völdum yfir ákvörðun kvenna þar að lútandi.
Kirk hélt því fram að þar með væri verið að stöðva morð. Það væri réttlætanleg skerðing á frelsi að stöðva morð. Raunar hélt hann því fram að fóstureyðingar væru „verri en helförin“.
Í stuttu máli var hann andvígur frelsi kvenna til að taka ákvarðanir um það sem á sér stað innan líkama þeirra. Þetta var í samræmi við aðrar skoðanir hans um konur, sem byggir um margt á trúarbrögðum. Hann sagði söngkonunni Taylor Swift að „lúta valdi eiginmanns“ hennar. „Þú stjórnar ekki,“ sagði hann.
Frelsi og vald er nefnilega óaðskiljanlegt og Charlie Kirk, málsvari frelsis í augum ungra sjálfstæðismanna, vildi að valdið lægi hjá hvítum, kristnum karlmönnum. Það þýðir um leið að aðrir eru sviptir frelsi á móti.
Annað frelsi sem Charlie Kirk lagðist gegn var frelsi fólks til að lifa eftir eigin skilgreindri kynhneigð eða kynvitund. Þau ættu ekki að hafa „frelsi“ til að skilgreina sig sjálf, að hans mati.
Ríkið viðurkennir ekki lögmæti sjálfsmyndar þeirra. Og þegar verst lætur, er það ekki aðeins skerðing á frelsi, heldur er lögmæti tilvistar þeirra eða nærveru í samfélaginu ekki metin til staðar.
Stuðningur við samþjöppun valds
Charlie Kirk trúði því að ríkisvaldið ætti að vera undir sterkum áhrifum af trúarbrögðum og framfylgja þeim. Þar með trúði hann á miðstýrða valdbeitingu í þágu tiltekins hóps, hvítra, kristinna karlmanna, sem hann taldi að verið væri skipulega að þynna út, samkvæmt hugmynd um skipulega útskiptingu mannfjölda út frá trú og kynþætti, eða „replacement theory“.
Til þess að framfylgja hugmyndum sínum studdi Kirk Donald Trump sem Bandaríkjaforseta.
Á rökræðufundum sínum varpaði Kirk MAGA-húfum til háksólastúdenta um leið og hann boðaði frelsisskerðingu tiltekinna hópa og efaðist um lögmæti þeirra og réttindi.
MAGA-húfan er tákn Donalds Trump, sem hefur í sívaxandi mæli tekið sér aukin völd sem forseti og ýmist beitir þeim völdum eða hótar að beita þeim í eigin þágu, til að refsa meintum pólitískum andstæðingum, eða framkalla fylgisspekt við hann. Kjarninn í stefnu hans er síðan að hreinsa burt tiltekna hópa úr landinu, jafnvel án dóms og laga, og loka landinu að mestu fyrir flóttamönnum af öðrum kynþætti en hvítum, eins og sést til dæmis á áherslu hans á að hvítir Suður-Afríkumenn fái hæli en aðrir ekki.
Að vera málsvari frelsis, en styðja um leið mikla og vaxandi valdbeitingu gegn völdum hópum, þýðir að viðkomandi hefur endurskilgreint „frelsi“ eftir eigin höfði, rétt eins og „morð“ og „helför“. Það er vinsæl aðferð í rökræðum.
Frelsi án þess að skaða aðra
Tjáningarfrelsinu fylgir að mega tjá allar þessar skoðanir án þess að verða fyrir viðurlögum einhvers valds. En það þýðir ekki að stuðningur við tjáningafrelsi til að tjá tilteknar skoðanir jafngildi að vera baráttumaður fyrir frelsi.
Charlie Kirk taldi sig þurfa að berjast fyrir réttinum til að tjá skoðanir sem stórum hluta almennings þótti vera hluti af tilraunum til að kúga þau eða svipta þau frelsi. Þegar sama tjáningarfrelsi er beitt til þess að styðja við valdhafa í aðgerðum hans til að takmarka frelsi annarra, má segja að hringnum sé lokað.
Eitt einfaldasta grundvallaratriðið í kenningum flestra fræðimanna sem aðhyllast frelsið er sá skilningur að fólk eigi að vera laust við ofríki ríkisins. John Stuart Mill skilgreindi til dæmis frelsið þannig að fólk megi gera það sem það vill, svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Hvorki yfirvöld né ráðandi skoðanir almennings eigi að hefta það. Svo getur fólk deilt um hvort það skaði aðra að fólk megi skilgreina sig af öðru kyni en karl eða kona, að skipta um kyn eða eiga í samkynja sambandi. Á móti hvort það skaði aðra að grafa undan lögmæti þeirra í opinberri umræðu eða halda að þeim að þau séu á valdi annarra eða þurfi að vera víkjandi í samfélaginu undan réttmætari meðlimum þess.
Valdbeiting fyrir frelsið
Nú er það þó orðið þannig að valdhafinn sem Charlie Kirk studdi svo ötullega með orðum og gjörðum hefur gripið til valdbeitingar og hótana vegna morðsins á honum.
Nýjasta valdbeitingin er að grínistanum Jimmy Kimmel var aflýst af sjónvarpsstöðinni ABC, í eigu Disney, eftir tiltölulega væga pólitíska ádeilu sem leiddi til þess að yfirlýstur málsvari tjáningarfrelsis, sem Donald Trump skipaði stjóra yfir fjarskiptaeftirlitinu, hótaði að endurskoða sjónvarpsleyfi stöðvarinnar. Trump hefur hvatt til þess að fleiri nafngreindir grínistar verði fyrir aflýsingu. Sömuleiðis hefur hann hótað að gera þá að skotmarki ríkisvaldsins sem sýna honum, valdhafanum, ósanngirni.
Sama dag skilgreindi forsetinn „Antifa“ sem hryðjuverkasamtök, en þar er um að ræða laustengdan hóp fólks sem berst á mismunandi hátt gegn fasískri hugmyndafræði og aðgerðum. Þetta mun skapa valdhöfum svigrúm - eða frelsi - til að svipta stóran hóp fólks frelsi með beitingu ríkisvaldsins. Ef gengið verður jafnlangt og gegn meintum venesúelskum fíkniefnasmyglurum gæti svo farið að ekki aðeins frelsi verið tekið af fólki heldur líka líf.
Alræði minnihlutans
Líkt og margir aðrir yst á hægri vængnum hafa Charlie Kirk, Jordan Peterson, Donald Trump og fylgisfólk lýst réttindabaráttu jaðarsettra minnihlutahópa sem alræðissinnaðri, út frá því að þar eigi sér stað þvingun á orðræðu í þágu þess hóps.
Lýðræði er kerfi valdbeitingar á dreifðstýrðum forsendum, þar sem valdhafi er í umboði meirihlutans. Fasismi er hámark miðstýrðar valdbeitingar, þar sem fáir taka sér mikið vald yfir mörgum.
Bæði kerfi geta skert frelsi einstaklinga, almannavaldið og miðstýrða valdið. En hitt þekkjum við betur úr sögunni, að einhver aðili eða hópur fólks safni völdum og beiti þeim gegn réttindum, lögmæti og frelsi annarra. Oftast eru það minnihlutahóparnir sem verða valdbeittir. Hámarksstig valdbeitingarinnar er hópmorð, næst efsta stig þrældómur og þar á eftir önnur frelsissvipting eða fangelsun, og loks þvingaður brottflutningur.
Nú stendur yfir þjóðarmorð með stuðningi Bandaríkjamanna í Palestínu. Þeir stöðva ítrekað að örygissráð Sameinuðu þjóðanna álykti um að vopnahlé skuli komið á. „Hreinn sjónrænn hernaður,“ sagði Kirk um ljósmyndir og frásagnir af hungursneyð af völdum Ísraels hjá íbúum Gaza, sem óháð alþjóðasamtök hafa rannsakað. Hann hafði ekki sömu áhyggjur af fjöldamorði á börnum í Palestínu af völdum sprengjuárása Ísraela, eins og af eyðingum á fóstrum. Hann afneitaði tilvist Palestínu og studdi forsetann sem segist vilja breyta landsvæði Palestínumanna í fasteignaverkefni.
Drepa skuli heimilislausa
Þegar kemur að tjáningarfrelsi hefur skýr greinarmunur verið gerður á skoðunum fólks almennt og svo skoðunum sem kveða á um að efast um lögmæti annarra hópa eða hvetja til aðgerða gegn þeim á grundvelli þjóðernis, kynþáttar eða trúarbragða, sem er annars eðlis en að gagnrýna skoðanir fólks eða hegðun.
Fyrr um daginn þegar Charlie Kirk var myrtur hafði einn aðalþáttarstjórnandinn á Fox News tekið þátt í umræðu um morð vitskerts, heimilislauss, svarts manns á hvítri konu frá Úkraínu, sem kom sem flóttamaður. Þáttarstjórnandinn hjá Fox and Friends lagði til að heimilislausir yrðu líflátnir með banvænni sprautu, gegn vilja þeirra. Hann baðst síðar afsökunar, en honum hefur ekki verið aflýst, þrátt fyrir að hvetja til skipulegrar aftöku á þjóðfélagshópi.
Eitt af því sem forsetinn hefur gert að stefnumáli er að hreinsa burt heimilislausa. Á sama tíma er skorið niður í aðstoð til þeirra.
Eignir og frelsi eru nátengd. Fólk fæðist ekki jafnt, þótt það geti bætt stöðu sína eða gert hana verri með eigin dugnaði og verðleikum. Það heitir félagslegur hreyfanleiki og hann er minni í Bandaríkjunum en í flestum vestrænum ríkjum, þrátt fyrir goðsögnina um land tækifæranna. Og nú hafa þau auðugustu tekið höndum saman með forsetanum um að stýra upplýsingaflæði þannig að fólk komist ekki upp með að vera „ósanngjarnt“ við hann.
Þeir miðlar sem við Íslendingar notum til samskipta verða varla undanþegnir þeim skilyrðum um að vernda tjáningarfrelsi valdhafans frá frelsi okkar hinna, hvað þá ef hann fullfremur valdbeitingu sína gegn Grænlandi, eins og hann hefur boðað og reynt.
Ungir íslenskir frelsissinnar
Getur maður verið mætur „málsvari frelsis“ ef maður vill til dæmis láta ríkisvaldið taka vald á ákvörðunum kvenna um það sem gerist innan líkama þeirra? Já, segir SUS. Og keypti bolinn.
Að öllu framansögðu verður að teljast undarlegt að yfirlýstir ungir, íslenskir frelsissinnar geri frelsishugtak og tákn valdboðssinna að sínu eigin á komandi fjöldafundi, þótt skýr afstaða gegn morðum sé sjálfgefin.
„Þetta er ekki aðeins bolur heldur tákn um það sem við trúum á og berjumst fyrir,“ sagði í boði SUS um stuttermaboli í stíl Charlies Kirk. En valdboðsstefna Charlies Kirk er í flestum meginatriðum í andstöðu við frjálslynda stefnu Sjálfstæðisflokksins síðustu árin, þar sem kvenréttindi og réttindi hinsegin fólks hafa verið í fyrirrúmi.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ungir sjálfstæðismenn hafa flutt inn frelsi frá Bandaríkjunum, eignað sér það og predikað. Sum okkar muna eftir því hvernig ungir sjálfstæðismenn gerðu frelsi auðmanna til athafna án ábyrgðar að sínu helstu baráttumáli árin fyrir banka- og gjaldmiðlahrunið 2008. Hættan er að frelsi þeirra verði nú, rétt eins og þá, meira frelsi valdsins heldur en frelsi einstaklingsins.
Því hjartað í frelsinu er að það er almannagæði, frekar en séreign sumra.
Athugasemdir