Árið 1892 tóku gildi í Danmörku lög um líkbrennslur og bálstofur. Ástæða lagasetningarinnar var óttinn við smit frá þeim látnu en á þessum tíma geysaði kólerufaraldur í Evrópu. Danir höfðu ekki gleymt því að árið 1853 létust um það bil 6 þúsund manns í Kaupmannahöfn úr kóleru en þá bjuggu um 120 þúsund í borginni. Í faraldrinum um miðja 19. öldina létust 23 þúsund manns í Bretlandi en um þetta leyti uppgötvaði John Snow, einn af læknum Viktoríu drottningar að smitið barst úr skólpmenguðu drykkjarvatni úr einum af brunnum Lundúnaborgar. Síðan 1853 hefur ekki geysað kólerufaraldur í Danmörku, en af og til koma upp tilvik og þar er fyrst og fremst um að ræða einstaklinga sem hafa smitast á ferðalögum erlendis. Kólera er enn til staðar í fjölmörgum löndum, einkum í Asíu og Afríku.
Fyrsta bálstofan 1881
Árið 1881 var stofnað félag áhugafólks um líkbrennslu í Danmörku, félagið fékk nafnið Forening for ligbrænding. Þessi félagsstofnun markar upphaf skipulagðrar starfsemi líkbrennslufyrirtækja í landinu. Löngu síðar var nafni félagsins breytt og heitir nú Landsforeningen Liv & Død og er ráðgjafarfyrirtæki varðandi útfarir og aðstoð við eftirlifandi ættingja.
Fyrsta bálstofan í Danmörku var tekin í notkun árið 1886, á Friðriksbergi við Kaupmannahöfn. Þá höfðu ekki tekið gildi lög um líkbrennslur, þau komu fyrst 6 árum síðar, árið 1892. Margir voru vantrúaðir á líkbrennslur og litu á þær sem nokkuð sem tilheyrði trúarbrögðum í fjarlægum löndum. Reyndar var það ekki fyrr en árið 1975 sem staðfest var í lögum að líkbrennsla og jarðsetning stæði jafnfætis útför þar sem kista er jarðsett.
Varðandi undirbúning líkbrennslu gilda ákveðnar reglur sem ekki verða tíundaðar hér. Ekki mega líða meira en 14 dagar frá andláti þar til brennslan fer fram. Nokkrum dögum eftir líkbrennsluna fá aðstandendur duftkerið afhent. Samkvæmt lögum er ekki heimilt að hafa duftker standandi á hillunni í stofunni, þótt ýmsar frásagnir séu til af slíku. Líkbrennslustofur hafa leyfi til að geyma duftker tímabundið en þess munu mörg dæmi að þetta tímabundna leyfi teygist á langinn, jafnvel líði ár og dagar án þess að nokkur sæki kerið.
Duftker oftast sett niður í kirkjugarði
Þegar aðstandendur fá duftkerið afhent hefur framhaldið yfirleitt verið ákveðið. Lang algengast er að duftker sé jarðsett í kirkjugarði, stundum hjá leiði ættingja eða í sérstökum duftgarði. Í Danmörku er svonefnd skógarjarðsetning all algeng, þá er duftkerið grafið undir tré. Allur gangur er á hvort legsteinn sé settur á slíkt leiði. Ef hinn látni hefur óskað eftir að ösku sinni sé dreift á hafi úti er slíkt heimilt, en þá í minnst 200 metra fjarlægð frá landi. Stundum er óskað eftir að öskunni skuli skipt, duftker kannski grafið í kirkjugarði en hluta öskunnar dreift yfir opið haf. Sérstakt leyfi yfirvalda þarf til í slíkum tilvikum. Í Danmörku eru núna 20 bálstofur.
Mikil breyting og minni tekjur
Fyrir nokkrum áratugum þurfti sífellt að stækka danska kirkjugarða, eða taka nýja í notkun, til að hafa pláss fyrir leiði. Þetta hefur gjörbreyst. Nú eru um 90 prósent þeirra sem látast í Danmörku brenndir og sú tala fer hækkandi með hverju ári. Þetta þýðir aukið pláss í kirkjugörðunum, af augljósum ástæðum.
En, sú staðreynd að bálförum fjölgar sífellt og ennfremur að ekki eru öll duftker jarðsett í kirkjugörðum hefur miklar breytingar í för með sér varðandi tekjur kirkjugarðanna sem hafa dregist stórlega saman á síðustu árum.
Tvö þúsund kirkjugarðar
Í Danmörku eru um það bil 2000 kirkjugarðar og á síðasta ári kostaði rekstur þeirra samtals rúmlega 1,1 milljarð danskra króna (21 milljarð íslenskra króna). Tekjur garðanna duga engan veginn fyrir rekstrinum. Sem dæmi má nefna að í bænum Fredericia á Jótlandi eru 10 kirkjugarðar og árlegur kostnaður við rekstur þeirra nemur samtals 15 milljónum danskra króna (287 milljónum íslenskum) en tekjurnar vegna grafreitanna nema aðeins um helmingi þeirrar upphæðar. Þetta hefur í för með sér að kirkjurnar verða að taka sífellt stærri hlut kirkjuskattsins til að annast umsjón garðanna. Kirkjuskattinum er ætlað að standa undir útgjöldum kirkjunnar, viðhaldi, launum presta og fleiru og rekstri garðanna að hluta.
Ástæðurnar fyrir þessu ,,tekjuhruni“ eins og Jens Olesen forstjóri kirkjugarðanna í Fredericia komst að orði í viðtali eru þær að færri eru jarðsettir í görðunum og ekki síður að tekjurnar af duftkeri sem jarðsett er í garðinum eru langtum lægra en ef um kistu er að ræða. Hinn svokallaði friðunartími duftkerjaleiða er 10 ár, stundum lengri, lágmarkstími friðunar á hefðbundnum leiðum er 20 ár, getur verið allt að 30 árum. Friðunin kostar peninga og skemmri tími þýðir minni tekjur.
Þegar spurt var hvað væri til ráða svaraði Jens Olesen því til að lausnin á rekstrarvanda kirkjugarðanna fælist í því að fleiri verði grafnir ,,upp á gamla mátann“ eins og hann komst að orði, það er að segja í kistu. Hann bætti því við að hann byggist síður við að það myndi gerast.
Athugasemdir