Ímyndið ykkur ef að Alþingismaður færi í viðtal í fjölmiðlum, og talaði þar af fullkomnri vanþekkingu um leikskólamál. Ímyndið ykkur ef hann héldi því fram að hann væri rosalega umburðarlyndur gagnvart fólki og skoðunum þess, en héldi því fram að það væri nú bara enginn skortur á leikskólaplássum.
Slíkt myndi væntanlega vekja sterk viðbrögð, enda byggt á vanþekkingu, rangfærslum og mótsögnum. Ímyndið ykkur nú að þau sem réttilega gagnrýndu téðan Alþingismann væri bara sagt að þau þyrftu nú að virða skoðanir hans, hætta að vera svona árásagjörn og bara slappa aðeins af.
Sjálfsögð krafa til fólks í valdastöðu
Okkur myndi flestum finnast þetta mjög fáranleg viðbrögð, enda er það sjálfsögð krafa að fólk sem situr í valdastöðum fari með rétt mál, og geri ekki lítið úr þeim áskorunum sem fólk stendur frammi fyrir í íslensku samfélagi.
Sömuleiðis er það sjálfsagður hlutur í lýðræðissamfélagi að fólk geti gagnrýnt og bent á rangfærslur í málflutningi valdhafa, sem er jafnframt einn af hornsteinum tjáningarfrelsis og lýðræðis.
„Þar notaði hann viljandi úrelt og stuðandi orðalag, og talaði þar af mikilli vanþekkingu“
Í síðustu viku, og aftur í gær, fór Alþingismaður fram með þessum hætti í fjölmiðlum, þar sem hann hélt fram augljósum rangfærslum um trans fólk og líf þess. Þar notaði hann viljandi úrelt og stuðandi orðalag, og talaði þar af mikilli vanþekkingu. Í kjölfar þess gagnrýndu margir orð hans réttilega, og bentu á hrópandi rangfærslur í málflutningi hans – og hvernig hann væri að ýta undir fordóma gegn viðkvæmum samfélagshóp.
En í stað þess að fólk tæki undir þá réttmætu gagnrýni, þá flykktust einstaklingar í kommentakerfi landsins til þess að segja hinsegin fólki að þau þyrftu nú bara að slappa af og sætta sig við það að hann sé þeim ekki sammála. Okkur beri að virða skoðanir annara, og við ættum bara að hætta að skipta okkur af því hvað honum finnst.
En það er fátt andlýðræðislegra en að segja fólki að sleppa því að tjá sig í opinberri umræðu um málefni sem snerta þeirra líf beint, og í raun magnað að fólki finnist slíkur málflutningur á rökum reistur.
Það er auðvitað auðvelt fyrir fólk sem verður ekki fyrir barðinu á fordómum að segja þolendum þeirra að taka þessu ekki svona alvarlega, og láta eins og það séu bara eðlileg skoðanaskipti að gera lítið úr tilvist þess.
Áreiti og fordómar
Þau skilja það ekki á eigin skinni hvernig það er að upplifa stanslaust áreiti og fordóma, og hvernig það er að þurfa að hlusta endalaust á ókunnugt fólk hafa einhverjar skoðanir á því hver þau eru eða hvernig þau lifa sínu lífi.
„Áratugir af rannsóknum og vísindalegri þekkingu viðurkenna tilvist trans fólks, og kynvitund þeirra“
Skoðanir okkar geta nefnilega verið byggðar á fordómum, neikvæði gildismati og röngum upplýsingum, líkt og þær skoðanir sem téður Alþingismaður hélt fram á dögunum. Stundum myndum við okkur skoðun án þess að hafa allar upplýsingar, eða veljum okkur rök sem styðja við okkar skoðun eða gildismat, eða bókstaflega hundsum réttar upplýsingar í annarlegum tilgangi.
Áratugir af rannsóknum og vísindalegri þekkingu viðurkenna tilvist trans fólks, og kynvitund þeirra. Með hjálp læknavísinda geta þau undirgengist hormónameðferðir og aðgerðir sem breyta kyneinkennum. Trans fólk lifir svo sínu daglega lífi sem það sjálft án vandkvæða. Þetta eru einfaldar staðreyndir. Hvað svo sem fólki finnst um það skiptir litlu máli fyrir raunveruleikann.
Snýst um líf fólks
Við erum nefnilega ekki að tala um það hvort fólki finnist ananas eiga heima á pizzu eða ekki. Eða hvort lúpína sé skaðvaldur eða bjargvættur íslenskrar náttúru. Við erum hér að tala um líf fólks, og hver þau eru innra með sér. Það er ekki eitthvað sem við eigum að hafa skoðun á, og er mikilvægt að fólk átti sig á því að það kallast á góðri íslensku fordómar að vera á móti einstaklingum fyrir að vera þau sjálf, eða gera lítið úr þeirra upplifun.
Án þess að vita fyrir vissu hvað vakti fyrir Alþingismanninum, þá tel ég það ekki vera tilviljun að tala svona beint inn í mjög skaðlega og fordómafulla orðræðu. Hér er ekki um að ræða saklausar vangaveltur eða skoðanaágreining. Hér er um að ræða mann sem er kosinn á Alþingi sem talar inn í skipulagða og fordómafulla orðræðu sem grefur undan mannréttindum og mannlegri reisn minnihlutahóps.
Það er grafalvarlegt, og á fólk sem tekur umburðarlyndi, frelsi, mannréttindum og lýðræði alvarlega aldrei að sætta sig við slíka hegðun af hálfu Alþingismanna. Það er ekki bara siðferðileg skylda okkar að mótmæla svona hegðun, heldur beinlínis lýðræðisleg.
Um kúgun kvenna í gegn um tíðina þarf ekki eyða fleiri orðum, við öll ættum að vita hvernig þau mál voru.
Frelsi má ekki einskorðast við ákveðna þjóðfélagshópa heldur er fyrir alla, einu takmörkin eru þar sem það skerðir rétt annarra eða leiðir ógæfu af sér. Þess vegna fellur hatursorðræða ekki undir skoðanafrelsi og heldur ekki dreifing falsfrétta, hvort tveggja skemmur og eitrar frá sér.