Dætur teknar af þolanda heimilisofbeldis

Tvær ung­ar stúlk­ur verða vist­að­ar ut­an heim­il­is í allt að tólf mán­uði, sam­kvæmt dóms­úrskurði. Móð­ir þeirra, flótta­kona og þol­andi heim­il­isof­beld­is, mót­mælti ákvörð­un­inni og hélt því fram að væg­ari úr­ræði hefðu ekki ver­ið reynd.

Dætur teknar af þolanda heimilisofbeldis

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá 18. júlí um að tvær systur skyldu dvelja utan heimilis í allt að tólf mánuði frá júní 2025. Málið snýst um fjölskyldu sem flúði til Íslands árið 2019 og hefur verið undir eftirliti barnaverndar frá árinu 2022.

Móðirin er ein forsjáraðili barna sinna, tveggja drengja og tveggja stúlkna, en foreldrarnir skildu árið 2021. Báðir synirnir, sem eru eldri en dæturnar, hafa glímt við alvarlegan hegðunarvanda, ofbeldi og neyslu og eru vistaðir utan heimilis. Í máli stúlknanna hafa borist tilkynningar um líkamlegt og andlegt ofbeldi, vanrækslu og óviðunandi aðbúnað. Þá hefur komið fram grunur um kynferðislegt ofbeldi í garð þeirra af hálfu fyrrverandi kærasta móður.

Sveiflaði hnífi sem endaði með inngripi sérsveitar

Að kvöldi 18. maí fundust stúlkurnar einar heima og voru neyðarvistaðar. Daginn eftir sveiflaði móðirin hnífi í átökum við barnaverndarstarfsmann og lögreglu, sem endaði með inngripi sérsveitar og innlögn á geðdeild.

Hún kærði ákvörðunina og hélt því fram að skilyrði barnaverndarlaga væru ekki uppfyllt þar sem vægari úrræði hefðu ekki verið reynd. Hún benti á að hún væri sjálf þolandi heimilisofbeldis, félagslega einangruð og án kunnáttu í ensku og íslensku. Hún lýsti sig reiðubúna að gangast undir forsjárhæfnismat, sálfræðiaðstoð og eftirlit á heimili. Að hennar mati ætti einnig að vega þungt að dætur hennar hefðu lýst sterkum tengslum við hana og vilja til að snúa aftur heim.

Barnavernd taldi að aðstæður hefðu lengi verið óviðunandi þrátt fyrir umfangsmikinn stuðning, til að mynda húsnæði, leikskóla- og frístundargjöld, tómstundir, túlkaþjónustu og sálfræðiaðstoð. Vísað var til nýlegra atvika og þess að stúlkurnar hefðu fundist einar heima. Barnavernd taldi nauðsynlegt að grípa inn í áður en þær þróuðu með sér sambærilegan vanda og bræður þeirra.

Hagsmunir barnanna ættu að vera í fyrirrúmi

Talsmaður og sálfræðingur ræddu við stúlkurnar. Þær sögðust sakna móður sinnar og vilja meiri samskipti við hana, en lýstu jafnframt ánægju með dvölina hjá vistforeldrum, sem þær kölluðu „ömmu og afa“. Samkvæmt mati sálfræðings sýndu þær styrk og aðlögunarhæfni en héldu að sér höndum um erfiða reynslu.

Héraðsdómur taldi að aðbúnaður stúlknanna hefði lengi verið verulega ábótavant og að brýn nauðsyn væri til vistunar utan heimilis. Landsréttur staðfesti niðurstöðuna og hafnaði kröfum móðurinnar. Dómurinn lagði áherslu á að hagsmunir barnanna væru í fyrirrúmi og að tryggja þyrfti þeim öryggi og stöðugleika á meðan unnið væri að forsjárhæfni móðurinnar.

Barnaverndarlög gera ráð fyrir að vægustu úrræðum sé beitt fyrst og að leitast sé við að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu. Vistun utan heimilis kemur aðeins til greina ef slík úrræði reynast árangurslaus eða ófullnægjandi. Samkvæmt lögum og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skulu hagsmunir barna ávallt ganga fyrir og tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra.

Móðirin segir yfirvöld bregðast

Móðirin taldi að yfirvöld hefðu brugðist sér sem þolanda ofbeldis og einstæðri móður og að hún hefði ekki fengið raunhæft tækifæri til að sýna foreldrahæfni sína. Yfirvöld lögðu hins vegar áherslu á að ástandið hefði verið óviðunandi í langan tíma og að grípa yrði til þessara úrræða í þágu barnanna.

Félagsráðgjafi sem kom fyrir dóminn sagði aðspurð um af hverju hafi ekki verið reynt að fá stuðningsfjölskyldu fyrir þau að ekki væri að því hlaupið enda slíkar mjög fáar. Undirbúningur að forsjárhæfnismati móðurinnar er hafinn.

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Kristjana Magnusdottir skrifaði
    Enginn skifti sér af því hvernig ég hafði það eða hvernig mer leið þegar ég var og hét! Svona er að vera utan hjóna bands. krakki mörg börn hafa komið þannig undir á islandi og annarsstaðar í heiminum svo ég er ekki sú eina um það
    -1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

„Ég er mjög stolt af því að hafa tekið þennan slag“
1
Fréttir

„Ég er mjög stolt af því að hafa tek­ið þenn­an slag“

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu komst í dag að þeirri nið­ur­stöðu að ís­lenska rík­ið hefði ekki brot­ið á Bryn­dísi Ásmunds­dótt­ur. Hún seg­ir skrít­ið að tala um tap þeg­ar Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu veitti henni áheyrn. Nú geti hún loks náð and­an­um. Mark­mið­um um að vekja máls á brota­löm­um í ís­lensku rétt­ar­kerfi hafi náðst, ekki síst þeg­ar sig­ur vannst í öðru mál­inu.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég er mjög stolt af því að hafa tekið þennan slag“
3
Fréttir

„Ég er mjög stolt af því að hafa tek­ið þenn­an slag“

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu komst í dag að þeirri nið­ur­stöðu að ís­lenska rík­ið hefði ekki brot­ið á Bryn­dísi Ásmunds­dótt­ur. Hún seg­ir skrít­ið að tala um tap þeg­ar Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu veitti henni áheyrn. Nú geti hún loks náð and­an­um. Mark­mið­um um að vekja máls á brota­löm­um í ís­lensku rétt­ar­kerfi hafi náðst, ekki síst þeg­ar sig­ur vannst í öðru mál­inu.

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu