Hödd Vilhjálmsdóttur, lögfræðingi og almannatengli, hefur verið stefnt fyrir meiðyrði af Herði Ólafssyni, lækni sem hún sakaði opinberlega um að hafa nauðgað sér meðan hún var í háskólanámi.
Þessu greinir Hödd frá í Facebook-færslu fyrr í dag.
„Á dögunum afhenti afskaplega almennilegur stefnuvottur mér stefnu sem þingfest verður í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 4. september. Sá sem stefnir er Hörður Ólafsson og þó ég hélt ég myndi nú aldrei hrósa honum þá verð ég nú að segja að það kom mér skemmtilega á óvart að hann hefði pung í þetta. Litli kallinn fær prik hjá mér fyrir og enn meira prik fyrir að hafa það fyrir aðalkröfu að pistlar mínir er hann varða verði í heild dæmdir dauðir og ómerkir.“
Hödd sagði á samfélagsmiðlum þann 18. júlí að sér hefði verið byrlað og nauðgað í tvö aðskilin skipti meðan hún nam lögfræði við Háskóla Íslands. Þar nafngreindi hún Hörð sem geranda sinn.
Segir lækninn krefjast tveggja ára fangelsisvistar
Segir Hödd að Hörður krefjist þess að hún sitji í fangelsi í tvö ár, greiði honum fimm milljónir í miskabætur auk þriggja milljóna til að standa straum af birtingu niðurstöðu dómsins í fjölmiðlum.
„Mér þótti hann nú sjaldan fyndinn en honum tókst árið 2025 að láta mig hlæja. [...] Ég stend keik og mæti vitleysu Harðar Ólafssonar og er stolt af því að hafa loksins gert það sem ég þurfti til að fá frið í hjartað mitt. Ég trúi því að sannleikurinn sigri að lokum en ef svo ólíklega vill til að hann gerir það ekki þá tek ég glöð á móti heimsóknum á Hólmsheiði á meðan ég sit inni,“ skrifar Hödd.
Athugasemdir