Drápu fleiri blaðamenn með því að ráðast aftur á sjúkrahús

Minnst 20 lét­ust í árás Ísra­els á Kh­an-Yun­is-sjúkra­hús­ið á Gaza. Þeirra á með­al voru blaða­menn sem lýstu að­stæð­um á vett­vangi og fjöll­uðu um hung­urs­neyð­ina. Að­eins tvær vik­ur eru frá því að sex blaða­menn voru drepn­ir í sams­kon­ar ár­ás á sjúkra­hús.

Drápu fleiri blaðamenn með því að ráðast aftur á sjúkrahús

Yfirvöld í Gaza segja að á meðal 20 sem létust í loftárás á sjúkrahús á Gaza í dag hafi verið fimm blaðamenn. Þeir unnu fyrir Reuters, Associated Press og Al Jazeera. Árásin beindist að Nasser-sjúkrahúsinu í Khan Yunis, sem hefur verið skotmark Ísraels frá því að stríðið hófst. Sjúkrahúsið er eitt af síðustu heilbrigðisstofnunum á Gaza sem er enn starfandi að hluta. 

Alþjóðleg samtök blaðamanna, Committee to Protect Journalists og Reporters Without Borders hafa bent á að á tæpum tveimur árum hafa um 200 blaðamenn verið drepnir í átökunum. Ekkert stríð hefur kostað jafn marga blaðamenn lífið.

Samkvæmt úttekt Al Jazeera eru látnir blaðamenn nú orðnir 274 talsins. 

Fjallaði um hungursneyðina

Í yfirlýsingu frá ísraelska hernum gerðu hermenn árás á svæðið við Nasser-sjúkrahúsið í Khan-Yunis. Herinn „beini árásum ekki sérstaklega að blaðamönnum“, en aðeins tvær vikur eru liðnar frá því að fjórir blaðamenn Al Jazeera voru drepnir í árásum Ísraela. Sprengju var varpað með dróna á sjúkrahúsið og henni var fylgt eftir með loftárás á meðan verið var að flytja særða á brott. 

Al Jazeera greindi frá því að myndatökur miðilsins, Mohammad Salama, hafi verið drepinn í árásinni. Í yfirlýsingu segir: „Al Jazeera fordæmir með sínum sterkustu orðum þennan hryllilega glæp sem ísraelska hernámsliðið framdi með því að miða beint á og myrða blaðamenn, sem lið í kerfisbundinni herferð til að þagga niður sannleikann.“ 

„Miða beint á og myrða blaðamenn, sem lið í kerfisbundinni herferð til að þagga niður sannleikann“
Al Jazeera
fordæma árásir á blaðamenn

Á meðal annarra sem létust var Mariam Abu Daqqa, en síðasta greinin sem hún skrifaði fyrir The Associated Press fjallaði um hungursneyðina. Hún hafði fjallað með ítarlegum hætti um hungursneyðina á Gaza sem hefur verið fordæmd af alþjóðastofnunum, en Ísrael hafnar að sé raunveruleg.

Nöfn annarra blaðamanna sem létu lífið í dag eru Hussam al-Masri sem vann fyrir Reuters, Ahmed Abu Aziz og Moaz Abu Taha.  

Associated Press sagði að þau væru „miður sín og harmi slegin“ yfir dauða Mariam Daqqa, 33 ára fréttaljósmyndara sem hafði skilað efni fyrir fréttastofuna frá upphafi stríðsins. Hún var ekki við störf fyrir AP þegar hún var drepin.

Reuters tilkynnti að samstarfsaðili hennar, Hussam al-Masri, hefði látist og annar, Hatem Khaled, hefði særst í árásinni. „Við erum miður okkar yfir þessum fregnum og krefjumst tafarlausrar aðstoðar yfirvalda í Gaza og Ísrael til að tryggja Hatem nauðsynlega læknishjálp,“ sagði í yfirlýsingu Reuters.

Samtök palestínskra blaðamanna tilkynntu um dauðsföll Moaz Abu Taha og Ahmad Abu Aziz. AFP greindi frá því að Abu Taha hefði unnið fyrir ýmis palestínsk og alþjóðleg fjölmiðlafyrirtæki.

Reykur og blóðugar líkamsleifar

Takmarkað aðgengi fjölmiðla er að Gaza. Vegna þess hefur AFP ekki getað sannreynt upplýsingar frá Ísrael með sjálfstæðum hætti. 

Myndefni AFP sýnir reyk hins vegar fylla loftið og brak liggja fyrir utan sjúkrahúsið. Palestínumenn bera lík og limlestar líkamsleifar inn í bygginguna. Á einum stað sést lík hanga af efstu hæð hússins á meðan maður hrópar fyrir neðan. 

Kona sem var klædd eins og læknir var borin á börum inn í sjúkrahúsið, með rauða bletti á hvítum sloppnum og blóðugan fót. 

Síðar í dag báru hópar fólks lík nokkurra blaðamanna til grafar í Khan Yunis. Þeir voru vafðir í hvít líkklæði og fjölmiðlavesti þeirra lögð ofan á líkin. 

Krefjast tafarlausra skýringa

Eftir árásina krafðist Foreign Press Association „tafarlausra skýringa“ frá ísraelska hernum og forsætisráðuneytinu. „Við krefjumst þess að Ísrael hætti í eitt skipti fyrir öll þeirri viðbjóðslegu aðgerð að miða á blaðamenn,“ sagði í yfirlýsingu.

Í árás sem beint var að blaðamönnum Al Jazeera létust einnig tveir lausráðnir blaðamenn. Það var í loftárás sem gerð var á Al-Shifa-sjúkrahúsið í Gaza sem olli mikilli reiði. Ísrael fullyrti þá að á meðal hinna látnu væri meðlimur í Hamas, en síðar kom í ljós að hann hafði unnið sem upplýsingafulltrúi stjórnvalda um stutt skeið í upphafi starfsferilsins. 

Samtökin Committee to Protect Journalists fordæmdu árásina með þeim orðum að blaðamenn ættu aldrei að vera skotmörk í stríði.

Ísrael hefur haldið því á lofti að stríðið gegn Gaza sé andsvar við árás sem Hamas framdi í Ísrael í október 2023. Í þeirri árás létust 1.219, flestir óbreyttir borgarar. Nú hefur Ísrael drepið minnst 62.744 Palestínumenn, flesta óbreytta borgara, samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum í Gaza sem Sameinuðu þjóðirnar telja áreiðanlegar. 

Í dag hafa minnst 54 verið drepnir á Gaza, samkvæmt samantekt Al Jazeera. 

Blaðamenn myrtir og aðgangur heftur 

Í fyrri hluta ágústmánaðar sendi Blaðamannafélag Íslands frá sér yfirlýsingu þar sem morð Ísraelshers á blaðamönnum á Gaza eru harðlega fordæmd. Þar segir: „Stjórnvöld í Ísrael hafa opinberlega viðurkennt að hafa með skipulögðum hætti beint árásum sínum að blaðamönnum.“ 

Með því að gera blaðamenn að skotmörkum reyni Ísrael að „koma í veg fyrir að almenningur, og þar með alþjóðasamfélagið, fái réttar og sannar upplýsingar um það sem þar er í gangi og geti brugðist við stríðsglæpum og mannréttindabrotum.“

Í yfirlýsingunni er einnig bent á að stjórnvöld í Ísrael hefti aðgang erlendra blaðamanna inn á Gazasvæðið: „Á sama tíma og Ísraelsher myrðir palestínska blaðamenn sem flytja fréttir frá Gaza og ísraelsk stjórnvöld koma í veg fyrir að erlendir blaðamenn og fréttamiðlar fái aðgang að vettvangi, fremja Ísraelsmenn þjóðarmorð á Palestínumönnum.“

BÍ beinir yfirlýsingu sinni til Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra. Kallar félagið eftir því að „íslensk stjórnvöld stígi harðar fram gegn aðgerðum Ísraels gegn almenningi og blaðamönnum á Gaza og sýni frumkvæði og dug í baráttunni fyrir mannréttindum, alþjóðalögum og sannleikanum.“

Kjósa
3
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár