Almennt ákvarða lög um dánaraðstoð hverjir teljist gjaldgengir til slíkrar aðstoðar, annaðhvort á grundvelli þess að viðkomandi glími við ólæknandi sjúkdóm sem talinn er leiða til dauða, eða að hann þjáist af viðvarandi, óbærilegri og ólæknandi þjáningu. Skilgreiningar á þessum hugtökum eru þó breytilegar eftir löndum og löggjöf, og mótast bæði af læknisfræðilegum viðmiðum og siðferðilegum sjónarmiðum.
Hugtakið „ólæknandi sjúkdómur“
Merking hugtaksins „ólæknandi sjúkdómur“ er breytileg eftir löggjöf og frumvörpum um dánaraðstoð.
Í frumvarpinu Assisted Dying for Terminally Ill Adults Bill, sem var samþykkt í neðri deild breska þingsins og bíður nú afgreiðslu í lávarðadeildinni, er hugtakið notað um sjúkdóma sem eru banvænir og versna óhjákvæmilega með tímanum. Samkvæmt frumvarpinu er dánaraðstoð einungis heimil ef viðkomandi er talinn munu látast innan sex mánaða. Þetta útilokar þannig einstaklinga sem glíma við langvinna, alvarlega og ólæknandi sjúkdóma en hafa óljósar lífslíkur, jafnvel þótt þjáningar þeirra séu viðvarandi og óbærilegar.
Þótt meðferð geti í sumum tilfellum dregið úr einkennum og bætt líðan tímabundið, telst sjúkdómurinn engu að síður lífsógnandi ef engin lækning er möguleg. Það sem vegur þyngst í þessari skilgreiningu er hvort dauðinn sé fyrirsjáanlegur innan ákveðins tímaramma – í þessu tilviki sex mánaða – að mati læknis.
Önnur nálgun í Skotlandi
Í Skotlandi er farin önnur leið en í Englandi þegar kemur að því að skilgreina hverjir séu gjaldgengir til dánaraðstoðar. Í frumvarpinu Assisted Dying for Terminally Ill Adults (Scotland) Bill er kveðið á um að einstaklingur þurfi að glíma við langt genginn og versnandi sjúkdóm, ástand eða fötlun sem ekki er unnt að lækna og sem líklegt er að leiði til ótímabærs dauða.
Þessi skilgreining telst mannúðlegri, einkum gagnvart fólki með taugahrörnunarsjúkdóma á borð við Parkinsons, Huntingtons og hreyfitaugahrörnun (MND), þar sem læknar eiga oft í erfiðleikum með að spá áreiðanlega fyrir um hvort viðkomandi eigi innan við sex mánuði ólifaða, líkt og krafist er í enska frumvarpinu.
Í sumum löndum hafa tímaviðmið verið útvíkkuð. Sem dæmi má nefna að í nokkrum fylkjum Ástralíu, þar á meðal Victoria og Western Australia, gildir tólf mánaða tímamark þegar um taugahrörnunarsjúkdóma er að ræða. Sambærileg viðmið gilda á eyjunni Mön. Slík nálgun endurspeglar dýpri skilning á eðli taugahrörnunarsjúkdóma og veitir aðgengi að dánaraðstoð þeim sem búa við viðvarandi og óbærilega þjáningu, jafnvel þótt dauðinn sé ekki yfirvofandi innan skamms tíma.
Hugtakið „ólæknandi þjáning“
Í mörgum löndum eiga einstaklingar sem þjást af ólæknandi og óbærilegri þjáningu rétt á að sækja um dánaraðstoð, jafnvel þótt líf þeirra sé ekki talið í bráðri hættu.
Í belgískri löggjöf er slíkt ástand skilgreint sem „læknisfræðilega vonlaus, viðvarandi og óbærileg líkamleg eða andleg þjáning sem ekki er hægt að lina og sem stafar af alvarlegu og ólæknandi ástandi“.
Í kanadísku lögunum, nánar tiltekið Bill C-7, er notast við hugtakið „grievous and irremediable condition“, sem vísar til alvarlegs og óafturkræfs heilsufarsástands þar sem þjáningin er viðvarandi og ekki unnt að lina með læknisfræðilegum úrræðum.
Þótt orðalag og skilgreiningar séu breytilegar milli landa er hinn sameiginlegi grunnur sá að um er að ræða líkamlegt, og í sumum tilvikum andlegt, ástand sem veldur viðvarandi og óbærilegri þjáningu og þar sem engin raunhæf von er um bata. Slík þjáning getur haft djúpstæð áhrif á lífsgæði fólks og gert lífið óbærilegt, jafnvel þótt ekki sé um banvæn veikindi að ræða í hefðbundnum skilningi.
Hverjir ættu að fá að sækja um dánaraðstoð?
Eðilega eru skiptar skoðanir á því hverjum ætti að veita aðgang að dánaraðstoð. Sjálf tel ég að fullorðin manneskja, sem býr yfir heilbrigðri dómgreind, glímir við ólæknandi líkamlegt ástand og þjáist óbærilega, eigi að eiga kost á að sækja um dánaraðstoð, að því gefnu að ósk hennar um að deyja sé skýr, ígrunduð og staðföst. Þetta ætti að gilda óháð því hvort um sé að ræða banvænan sjúkdóm eða langvinnt, en ekki lífshættulegt, ástand sem veldur verulegri þjáningu.
Rökin fyrir þessu eru bæði mannúðleg og siðferðileg. Þau byggja á virðingu fyrir sjálfræði einstaklingsins og rétti hans til að lifa – og deyja – á eigin forsendum. Fjöldi fólks sem býr við langvinnt, ólæknandi ástand, svo sem lömun, króníska verki eða taugahrörnunarsjúkdóma, upplifir djúpa og viðvarandi þjáningu þar sem engin lækning eða úrræði eru í sjónmáli. Slík þjáning getur verið jafn alvarleg og banvæn veikindi, bæði líkamlega og andlega, og grafið undan lífsgæðum, reisn og tilfinningu fyrir tilgangi.
Dánaraðstoð snýst í grunninn um að veita fólki möguleika á að binda enda á þjáningu sem það sjálft metur sem óbærilega. Þeir sem þjást án batahorfa ættu að njóta sama réttar til sjálfræðis og deyjandi fólk þegar kemur að lokum lífs – réttar til að taka upplýsta og vel ígrundaða ákvörðun um hvenær og hvernig lífi þeirra lýkur.
Að veita einstaklingum, sem þjást án vonar um bata, möguleika á að ákveða lok eigin lífs, er ekki aðeins spurning um læknisfræðileg viðmið heldur líka virðingu, samkennd og siðferðilegt hugrekki.
Greinarhöfundur er formaður Lífsvirðingar, sem berst fyrir lögleiðingu dánaraðstoðar á Íslandi.
Athugasemdir