Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði gagnrýndu að skipulag við Krummahóla færi í kynningu yfir hásumar þegar íbúar ættu erfiðara með að kynna sér tillögurnar.
Eins og Heimildin greindi frá um helgina eru íbúar við Krummahóla ósáttir með þéttingaráform Reykjavíkurborgar í götunni. Sex íbúðir munu rísa á grasbala á horni Krummahóla og Vesturhóla í Efra-Breiðholti eftir samráðsferli frá 2015 en íbúarnar segjast fyrst hafa heyrt af áformunum nú í júní.
Stærsti hluti samráðsins mun hafa átt sér stað sumarið 2020 þegar Covid-19 heimsfaraldurinn stóð sem hæst. Engar athugasemdir bárust varðandi Krummahóla í öllu ferlinu en að sögn íbúa eru þeir mikið til aldraðir, öryrkjar og af erlendu bergi brotnir.
Fimmtudaginn 10. júlí síðastliðinn fjallaði borgarráð um tillögurnar. Þá var minna en mánuður liðinn frá því að viðmælendur Heimildarinnar úr hópi íbúa við Krummahóla heyrðu fyrst um áformin að eigin sögn en þeim barst bréf dagsett 18. júní frá umhverfis- og skipulagssviði um fyrirhugaðar heimsóknir arkitekta til að kynna þau fyrir íbúum og taka við spurningum.
Raunar hafði umhverfis- og skipulagsráð afgreitt málið 25. júní eða aðeins tveimur dögum eftir að arkiterkarnir gengu á fund við íbúa.
Í kynningu borgarinnar kom fram að byggingarmagn á reitnum hefði verið minnkað úr 12 íbúðum í sex frá fyrri uppdrætti en viðmælendur Heimildarinnar könnuðust ekki við að áður hafi til staðið að byggja 12 íbúðir á reitnum.
Gagnrýndu kynningu um hásumar
Á fundi borgarráðs var samþykkt auglýsing á tillögu á breyttu deiliskipulagi við Krummahóla. Borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins, sem mynda meirihlutann í borginni ásamt Vinstri grænum, fögnuðu hugmyndinni.
„[...] voru breytingar gerðar eftir samtöl við íbúa“
„Uppbyggingarheimildir á lóðinni við Krummahóla voru skilgreindar í hverfisskipulagi Breiðholts sem unnið var í miklu samráði við íbúa,“ segir í bókun meirihlutans. „Nýjar tillögur að uppbyggingu á reitnum hafa nú verið felldar betur að nærumhverfinu með vönduðum arkitektúr. M.a. hefur verið létt verulega á byggingarmagni lóðarinnar, grænt yfirbragð hennar skýrt og gæði íbúða útfærð nánar. Í tillögunni eru sex fjölskylduíbúðir með 3-5 herbergjum í raðhúsum og parhúsi og voru breytingar gerðar eftir samtöl við íbúa og greiningu á hverskonar íbúðir vantar í hverfinu.“
Ekki kemur fram hvaða samtöl við íbúa um ræðir eða hvenær þau eiga að hafa átt sér stað.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Hildur Björnsdóttir og Kjartan Magnússon, gagnrýndu hins vegar áformin og sátu hjá við afgreiðslu. „Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá undir þessum lið en gagnrýna að skipulagið fari í kynningu yfir hásumarið enda íbúar og hagaðilar í betri færum að kynna sér fyrirliggjandi skipulagstillögur utan sumarleyfistíma,“ segir í bókun þeirra. „Gera fulltrúarnir alla hefðbundna fyrirvara um endanlega afgreiðslu málsins að auglýsingu lokinni.“
Athugasemdir (1)