Árásin á Bastilluna: Franska byltingin hófst með því að geðveikir kynferðisglæpamenn og falsarar voru frelsaðir

Árásin á Bastilluna: Franska byltingin hófst með því að geðveikir kynferðisglæpamenn og falsarar voru frelsaðir
Árásin hefst. Árásin á tákn hatðrar ríkisstjórnar.

Í dag, 14. júlí, er Bastilludagurinn svokallaði í Frakklandi og er þá ævinlega mikið um dýrðir. Dagurinn er yfirleitt talinn marka upphaf frönsku byltingarinnar árið 1789 þegar feyskinni einvaldsstjórn Bourbon-ættarinnar sem hrundið frá völdum. Byltingin var gerð í nokkrum áföngum en vel má segja að eftir 14. júlí hafi ekki verið aftur snúið.

Basillan var virki í Parísarborg sem hýsti bæði vopnabúr og einnig fangelsi þar sem hafði oft verið vistað fólk sem hafði sett sig upp á móti einvaldsstjórninni. Fangarnir bjuggu yfirleitt við illa meðferð og hafði það því afar slæmt orð á sér.

Þess vegna var það engin smáræðis yfirlýsing þegar mannfjöldi í París réðist að Bastillunni í þeim tilgangi að frelsa alla fanga sem þar sátu.

Fangelsisstjórinn afhausaður

Árásin, sem var að mestu sjálfsprottin í hópi ákafra stjórnarandstæðinga í París, lukkaðist að því leyti að eftir fjögurra tíma bardaga náðu árásarmenn virkinu. En það kostaði mikið blóð og alls féllu um 100 manns úr hópi árásarmanna en ekki nema einn úr hópi varðmanna.

Fangarnir leiddir í frelsið.Af skegginu að dæma er það Írinn Whte þar sem þarna er leiddur upp úr dýflissu.

Eftir að árásarmenn náðu Bastillunni drápu hins vegar sex eða átta úr varðliðinu og þar á meðal fangelsisstjórann, markgreifann De Launey. Reiður múgur réðist að honum, stakk hann ítrekað með hnífum og eftr að hann var dauður var höfuðið sargað af honum og árásarmenn gengu með það um götur, sigrandi hrósandi.

En hvaða öflugu liðsmenn og skoðanasystkin fengu hinir verðandi byltingarmenn lausa með þessari blóðugu og sögulegu árás?

Fjórir peningafalsarar

Því var lítt eða ekki haldið á lofti á næstunni þótt árásin á Bastilluna yrði umsvifalaust þungjamiðjan í hugarheimi byltingarmanna.

Fangarnir voru í fyrsta lagi sjö og í öðru lagi var enginn þeirra pólitískur fangi í neinum skilningi eða baráttumaður gegn Bourbon-veldinu.

Fjórir af sjömenningunum voru ósköp venjulegir glæpamenn, peningafalsarar flestir eða allir. Þeir hétu Bernard Laroche, stundum nefndur Beausablon, Jean Béchade, Jean La Corrège og loks Jean-Antoine Pujade. Stuttu eftir að þeir voru leystir úr haldi hafði lögreglan í París hendur í hári þeirra á ný og lokaði þá inni í öðru fangelsi í Bicêtre.

Lokaðir inni

Hinir þrír höfðu allir í haldi í Bastillunni að ósk fjölskyldna þeirra.

Einn þeirra var sextugur og hét Auguste-Claude Tavernier. Hann átti snemma við geðræn vandamál að stríða og þá hafði faðir hans, þjónn á herrasetri, maður sem öllum heimildum ber saman um að hafi verið ofbeldisfullur ruddi, látið loka son inn á geðveikrahæli.

Hann endaði svo í Bastillunni eftir að grunur vaknaði um að hann ætlaði sér að gera tilræði við kónginn, en öllum mun þó hafa verið ljóst að sá grunur átti sér enga stoð og Tavernier var meinlaus með öllu. Þegar þarna var komið sögu var hann enda mjög úr heimi hallur og gerði sér litla grein fyrir því hvað á seyði væri.

Sifjaspell?

Tavernier mun hafa ráfað í reiðileysi um París í nokkra daga, matarlaus og illa til reika, en var þá fluttur á geðveikrahælið Charenton sem ekki var allfjarri.

Sjötti fanginn hér Hubert de Solages. Hann var lágaðli og líka sagður hafa átt við geðveiki að stríða. Hann var læstur inni í Bastillunni að ósk föður síns. Þá var hann sagður hafa gert tilraun til að nauðga systur sinni, Pauline. Og var hann síðan í haldi í Bastillunni.

Aðrar heimildir segja þó aðra sögu. Þær herma að glæpur De Solages hafi verið sá að reyna að hjálpa systur sinni að losna frá ofbeldisfullum og ruddalegum eiginmanni. Einnig hafi spilað inn í að með því að láta læsa De Solages inni gat mágurinn komist yfir hlut hans í föðurarfinum.

Ekki er gott að sega hvor sagan er sönn en sagan um árás De Solages á systur sína er þó býsna rótgróin.

Spilað á fiðlu í Bastillunni

Hver sem rótin var að fangavist De Solages fór þó víst ekki milli mála að einhverjar blaðsíður vantaði í hann, en hann var bæði meinlaus og vingjarnlegur og undi sér aðallega við að spila á fiðlu í Bastillunni.

„Fyrsta stund frelsisins.“Skrúðgöngur með hina frelsuðu fanga úr Bastillunni stóðu ekki eins lengi og efni virtust standa til.

Sjöundi og síðasti fanginn var fæddur á Írlandi og hét James Francis Xavier Whyte en í Frakklandi var hann kallaður Whyte de Malville. Hann var fæddur 1730 og var því tæplega sextugur. Hann hélt frá Írlandi og gekk í franska herinn og mun hafa staðið sig vel en 1781 fékk hann einhvers konar áfall og var síðan læstur inn á geðveikrahæli og síðan Bastillunni.

Einhverjar grunsemdir voru á flökti um að hann hefði verið njósnari fyrir erlent ríki en það var áreiðanlega þvættingur. Hann endaði altént í Bastillunni og þegar hann var leystur þaðan kom í ljós að hann var, ekki síður en Tavernier, orðinn afar lúinn í lund.

Er ég Júlíus Caesar — eða guð?

Hann var afar lágvaxinn, kominn með sítt skegg og allur hinn furðulegasti í útliti og fasi en sjálfur sannfærður um að hann væri Julius Caesar, nema stundum fannst honum líklegra að hann væri guð almáttugur.

Hann var leiddur um götur af sigri hrósandi byltingarmönnum, til marks um að nú ætti að frelsa alla andstæðinga hinnar hötuðu konungsstjórnar, en það leið þó ekki á löngu þar til menn uppgötvuðu að það var lítill akkur í að auglýsa svo skrýtinn kall sem holdgerving hinnar nýhöfnu byltingar.

Hann var þá fluttur til Charenton þar sem hann hitti Tavernier aftur og sömuleiðis annan fanga sem hafði til skamms tíma verið lokaður inni í Bastillunni með þeim.

Frægasti fanginn

Það var enginn annar en De Sade markgreifi sem sadisminn er kenndur við. Hann hafði verið læstur inni í Bastillunni sem geðsjúklingur en var það áreiðanlega ekki.

De Sade markgreifihafði verið fluttur burt rétt fyrir árásina.

Hann var hins vegar talinn hættulegur vegna kenninga sinn um að sársauki væri æskilegur í samskiptum fólks.

De Sade hafði verið fluttur úr Bastillunni og til Charenton aðeins tíu dögum fyrir árásina á fangelsisvirkið gamla. Ástæðan var sú að hann hafði hrópað til vegfarenda út um glugga að fangelsisyfirvöldin væru að strádrepa fangana. Ástandið í París var þá þegar orðið svo viðkvæmt að slík hróp og köll voru talin gera hleypt öllu í bál og brand.

Hvað varð um fangana?

Þetta var sem sé hin örlagaríka árás á Bastilluna sem Frakkar telja svo mikilsverða að þeir hafa gert Bastilludaginn að þjóðhátíðardegi sínum.

Ekki er vitað hvað varð um falsarana fjóra en bæði Tavernier og Whyte dó nokkrum árum síðar í Charenton án þess að nokkur hefði lagt sig fram um að leysa þá úr haldi. Hubert de Solages var líka lagður inn á „heilsuhæli“ fljótlega eftir að hann slapp úr prísundinni í Bastillunni en var sleppt þaðan fyrr en síðar og bjó síðan tíðindalitlu lífi undir handarjaðri dætra sinna. Hann lifði allan byltingartímann, ár Napóleons og hinna endalausu styrjalda hans, og dó ekki fyrr en 1825. 

Kjósa
4
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Saga Írans 5: Kameldýrakarl frá Baktríu, frumlegasti trúarhöfundur sögunnar
Flækjusagan

Saga Ír­ans 5: Kam­eldýra­karl frá Baktríu, frum­leg­asti trú­ar­höf­und­ur sög­unn­ar

Í síð­ustu grein (sjá hana hér) var þar kom­ið sögu að stofn­andi Persa­veld­is, Kýrus hinn mikli, var horf­inn úr heimi. Það gerð­ist ár­ið 530 FT en áhrifa hans átti eft­ir að gæta mjög lengi enn og má vel segja að Kýrus sé enn af­ar vold­ug­ur í hug­ar­heimi Ír­ana. En nú spóla ég að­eins aft­ur í tím­ann og dreg fram ann­an...

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Hann var búinn að öskra á hjálp
3
Viðtal

Hann var bú­inn að öskra á hjálp

Hjalti Snær Árna­son hvarf laug­ar­dag­inn 22. mars. For­eldr­ar hans lásu fyrst um það í frétt­um að hans væri leit­að í sjón­um, fyr­ir það héldu þau að hann væri bara í göngu­túr. En hann hafði lið­ið sál­ar­kval­ir, það vissu þau. Móð­ir Hjalta, Gerð­ur Ósk Hjalta­dótt­ir, lýs­ir því hvernig ein­hverf­ur son­ur henn­ar gekk á veggi allt sitt líf, og hvernig hann veikt­ist svo mik­ið and­lega að þau voru byrj­uð að syrgja hann löngu áð­ur en hann var dá­inn.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár