Aleksander Moshensky hefur verið leystur undan störfum sem ræðismaður Íslands í Belarús.
Moshensky hefur verið sagður einn nánasti bandamaður Aleksanders Lukashenko, forseta Belarús frá árinu 1994, og í hópi manna sem uppnefndir eru „veski Lukashenko“. Moshensky var umboðsmaður forsetaframboðs Lukashenko árið 2010 og beitti sér til að tryggja áframhaldandi völd mannsins sem hefur sjálfur kallað sig „síðasta einræðisherra Evrópu“.
RÚV greindi frá því í morgun að utanríkisráðuneytið hafi leyst ellefu ræðismenn Íslands undan skyldum sínum í vor, þar á meðal Moshensky. Ekki hefur verið skipaður nýr ræðismaður í hans stað.
Stundin, fyrirrennari Heimildarinnar, greindi frá því árið 2022 að íslensk stjórnvöld hefðu beitt sér fyrir því að taka nafn Moshensky af lista þeirra Hvít-Rússa sem Evrópusambandið hugðist beita viðskiptaþvingunum. Fulltrúar utanríkisráðuneytisins hringdu hátt í þrjátíu símtöl í ESB fyrir hönd Moshensky.
„Ísland fjarlægði hann af listanum“
„Það hefur ekki verið neitt leyndarmál í samskiptum okkar við ESB að það hafi verið viðskiptahagsmunir Moshensky á Íslandi sem gerðu gæfumuninn fyrir hann,“ sagði Natalia Kaliada, einn þekktasti stjórnarandstæðingurinn í Belarús. „Okkur var sagt hreint út oftar en einu sinni: „Ísland fjarlægði hann af listanum“.“
Flutti makríl til Rússlands þrátt fyrir viðskiptabann
Moshensky hefur átt viðskipti við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki frá aldamótum og var skipaður kjörræðismaður Íslands í Belarús árið 2006.
Eftir innrás Rússlands í Úkraínu og innlimun Krímskaga árið 2014 mættu Rússar viðskiptaþvingunum frá ESB sem Íslendingar skrifuðu undir. Rússar settu á móti viðskiptabann á íslenskan fisk árið 2015. Fyrirtæki Moshensky hófu þá innflutning á íslenskum makríl í milljarðavís, sem síðan var umpakkað og hann sendur til Rússlands og sagður hvít-rússnesk framleiðsla. Fyrir daga viðskiptabannsins, hafði Moshensky lítið sem ekkert keypt af makríl frá Íslandi. Gott samband hans við yfirvöld í Belarús bjó þannig til hjáleið með íslenskan makríl til Rússlands.
Þá flutti hann tugi milljarða króna til dularfulls aflandsfélags á Seychelles-eyjum með aðstoð félags sem stýrt er úr heimahúsi í Reykjavík, ávinning af fiskviðskiptum og lánveitingum til fyrirtækja hans í Austur-Evrópu, sem allt benti til að hafi verið til að koma hagnaði undan sköttum.
Pólsk stjórnvöld beittu Moshensky nýverið refsiaðgerðum en hann hefur ferðast á milli Minsk og Varsjár og stundað viðskipti. Moshensky gat náð sér í dvalarleyfi í Póllandi eftir að eiginkona hans og dóttir komust yfir kýpversk vegabréf. Þau veittu rétt til búsetu og ferðafrelsis innan ríkja ESB. Sem maki handhafa þess háttar vegabréfs gat Moshensky fengið sama rétt. Þannig gat hann auðveldlega ekið daglega til Brest í Belarús, fáeinna klukkutíma leið, er í Brest eru höfuðstöðvar fyrirtækjaveldis hans.
Athugasemdir (1)