Ísland þvert á flokka, hópur sem hefur haldið tvo mótmælafundi á Austurvelli gegn hælisleitendum, ætti að beita sér fyrir að steypa ríkisstjórninni af stóli.
Þetta er mat Margrétar Friðriksdóttur, sem kom fram fyrir hönd hópsins á fyrsta fundi hans 31. maí. Hópurinn hélt annan fund 14. júní en þeim næsta var aflýst vegna sumarleyfa. Kröfur hópsins eru að stöðva komu hælisleitenda, loka landamærunum og binda enda á fjölskyldusameiningar.
Hópurinn lýsir sér sem samansafni fólks þvert á flokka en eins og Heimildin hefur fjallað um hafa flestir ræðumanna á fundum hópsins reynt að finna hugmyndum sínum farveg í flokkum á hægri væng stjórnmálanna.
„Hver verður næsta áhersla fundarins, að ríkisstjórnin víki, því hún hefur sýnt og sannað að hún ætlar ekki að gera neitt til að lagfæra hrun okkar kerfa, öllu heldur bæta í ófögnuðinn?“ spyr Margrét meðlimi Facebook-hóps Íslands þvert á flokka.
„Við höfum einu sinni áður sem ég man eftir steypt ríkisstjórn af stóli“
„Við höfum einu sinni áður sem ég man eftir steypt ríkisstjórn af stóli fyrir að standa sig ekki, og vegna þess er komið fordæmi og vel framkvæmanlegt ef viljinn en fyrir hendi,“ skrifar hún. „Krafan yrði: Farið að vinna fyrir þjóðina, fyrst og fremst, við eigum ekki að sæta afgangi í eigin landi. Ef þið eruð ekki fær um það, segið af ykkur, eða við rekum ykkur! Hvað finnst ykkur um þetta?“
Færsla Margrétar hefur fengið yfir hundrað „like“ og enginn sett sig á móti hugmyndinni um að ríkisstjórnin víki.
„Við rákum hana árið 2009 með hörðum mótmælum, af hverju ættum við ekki að geta það aftur?“ bætir Margrét við í athugasemd við færslu sína og vísar þar í Búsáhaldabyltinguna 2009 þegar mótmælendur börðu í potta til að mótmæla setu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í kjölfar bankahruns. Þá hafði krónan hrunið, neyðarlög verið sett og ríkisstjórnin leitað á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um lánveitingar.
„Það er svik við þjóðina að vinna gegn vilja hennar,“ skrifar Margrét að lokum.
Ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins nýtur nú 62,6% stuðnings samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup í júní.
Athugasemdir (2)