Óhætt er að segja að íslenski hópurinn hafi vakið athygli. Íslenski hópurinn hefur komið á óvart. Hann hefur slegið í gegn. Íslenski hópurinn er síkvikur. Eina stundina stendur hann hérna, þá næstu þarna. Eina stundina er hann þú, þá næstu ég, svo: leigubílstjóri í Keflavík, ræstitæknirinn hér í blokkinni, utanríkisráðherra, útvarpsstjóri, raunar allir sem við þekkjum, við erum íslenski hópurinn og við erum ekkert smáveigis atriði.
Íslenski hópurinn teygir hendur sínar upp í næturhimininn, tínir þar silfraðar stjörnur. Íslenski hópurinn ríður brjáluðum hesti inn í augu eilífðarinnar – það hefur komið á óvart, allt að því slegið í gegn.
Við erum íslenski hópurinn og kvöldið í kvöld snýst ekki um að sundra heldur sameina. Hvað þetta varðar hefur íslenski hópurinn talað skýrt á blaðamannafundum sem hafa reyndar vakið mikla athygli. Þar hefur íslenski hópurinn skotið upp flugeldum – slegið í gegn. Við í íslenska hópnum, við hér í blokkinni, bakarinn og trésmiðurinn, leikskólakennarinn og læknirinn, við viljum árétta að stríðsglæpir fara fyrir brjóstið á okkur. Við erum almennt á móti því að börn séu tekin af lífi fyrir óljósar sakir.
Einmitt þess vegna munum við stíga á svið, öll sem eitt, við munum stíga dans, því það er trú íslenska hópsins að dansinn og tónlistin geti sameinað þjóðir, fært þær nær hver annarri, fært útlimi sem þeytast út í buskann nær búknum sem liggur bara þarna, feiminn við að dansa, kannski var það líkami barns sem var ekki einu sinni byrjað að ganga, kunni ekki að dansa.
En við í íslenska hópnum erum ekki ein um að trúa á mátt tónlistarinnar, á þann mátt trúa allir hinir hóparnir líka og þegar hjálpargögnin hætta að berast má alltaf prófa að syngja lítið lag um lífsgleðina sjálfa í brjósti þér og hver veit nema gleðin eigi þetta eina kvöld greiðan aðgang að Gaza.
Athugasemdir