Árið 2025, þrjú hundruð og fjörutíu árum eftir fæðingu Georgs Friedrich Händel, er nafn hins þýsk-enska tónskálds sveipað heilögum anda. Samtímafólki tónskáldsins, sem þekktastur er fyrir Hallelúja-kórinn úr óratoríunni Messías, var hann þó jafnmannlegur og það sjálft. „Ég er Belsíbúbb, konungur djöflanna,“ hvæsti skapstórt tónskáldið á sópransöngkonu á hljómsveitaræfingu árið 1722 um leið og hann kallaði hana kvendjöful og hótaði að kasta henni út um opinn glugga.
Hefðu gildi samtímans ráðið ríkjum á 18. öld hefði Händel vafalaust verið slaufað í snatri og veröldin orðið af einu vinsælasta tónverki mannkynssögunnar. En þótt satanískar ofbeldishótanir á vinnustað virðist fjarri samtímanum, á tími Händel meira sammerkt með árinu 2025 en sýnist í fyrstu.
Þjáning mannsins
Ég á mér aðeins eina hefð sem ég reyni að brjóta ekki. Föstudaginn langa ár hvert held ég í tónleikasalinn „Royal Albert Hall“ í London og hlýði á Messías. Sambærileg hefð á sér lengri sögu en jarðleg tilvist mín. Allt frá árinu 1876 hafa gestir flykkst í hinn sögufræga tónleikasal á föstudaginn langa til að hlusta á sömu söngsveitina flytja Messías. Aðeins á tímum loftárása Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni og Covid-19 faraldursins þótti ástæða til að aflýsa tónleikunum.
Í dag virðist staða Messíasar óhjákvæmileg. Hver nóta verksins sem og aldalöng sigurganga þess eru eins og guðleg örlög. En þar sem Händel sat og klastraði verkinu saman í flýti – á 24 dögum nánar tiltekið – þreyttur, þunglyndur, heilsuveill og þjakaður af áhyggjum yfir hnignandi vinsældum, óraði hann ekki fyrir útkomunni.
Messías fjallar um þætti í ævi Krists, þjáningu hans og dauða. Verkið er þó einnig spegill á samtíma Händels.
Textann setti saman Charles Jennens, enskur landeigandi, bölsýnismaður og þunglyndissjúklingur sem grét að hafa orðið fyrir því óláni að fæðast á kvíðaþrungnum hnignunartímum. Hvert sem hann leit blasti við pólitísk sundrung og óánægja, samsæri, umdeildir ráðamenn, efnahagsleg ráðabrugg og stríð. Ástandið magnaði upp nýjung sem kallaðist dagblöð þar sem fluttar voru æsifengnar fréttir af því sem fram fór. Að mati Jennens var ekki annað hægt en að örvænta.
Aðeins í fögrum listum, bókmenntum og tónlist fann Jennens birtu í skuggalegri veröld.
Dag einn tók Jennens til við að rífa bækur úr bókahillu sinni, hripa niður tilvitnanir úr trúartextum og raða þeim saman. Hvað ef hægt væri að fanga þjáningu mannsins í tónverki? Gæti slík sviðsetning orðið samtímamönnum hans til huggunar og upplýsingar, haldreipi eins og hinar fögru listir voru honum?
Jennens sendi Händel textann. Messías var borinn.
Óður til tilverunnar
Árið 2025, tvö hundruð áttatíu og fjórum árum eftir að Händel samdi Messías, lifum við enn kvíðaþrungna hnignunartíma. Hvert sem litið er blasir við pólitísk sundrung og óánægja, samsæri, umdeildir ráðamenn, efnahagsleg ráðabrugg og stríð. Ástandið magnar upp nýjung sem kallast samfélagsmiðlar þar sem fluttar eru æsifengnar fréttir af því sem fram fer. Það er ekki annað hægt en að örvænta.
Samfélag okkar mannanna er eins og elfur sem rennur um tímann. Áin er alltaf sama áin þótt um hana streymi aldrei sama vatnið.
Í dag flytur Messías sama söngsveit og flutti verkið í „Royal Albert hall“ árið 1876 – áin er sama áin þótt um hana renni ekki sama vatnið. Á flutninginn hlýðir sama áhyggjufulla mannkynið og hlýddi á frumflutning verksins í Dublin árið 1742.
Fyrstu orð Messíasar syngur tenór sefandi röddu: „Comfort ye ...“ – huggið lýð minn.
Höfundar Messíasar leituðust við að vekja með okkur von. Händel og Jennens tókst ætlunarverk sitt. Sú staðreynd að mesti tónlistaróður til tilverunnar skyldi spretta upp úr jarðvegi ólgu og kvíða gefur sannarlega tilefni til bjartsýni á þeim örvæntingartímum sem við lifum.
Kannski að allt fari vel að lokum. Gleðilega páska.
Athugasemdir (2)