Staðhæfing SFS um að veiðigjöld séu landsbyggðaskattur var sett fram til að beina umræðu um pólitískt ágreiningsmál frá kjarna þess. Undir staðhæfinguna tóku talsmenn kvótaflokkanna, sem gæta hagsmuna eigenda stórútgerðanna. Ýmsir talsmenn sveitastjórna og smærri útgerða á landsbyggðinni gleyptu við agni SFS og fjölmiðlar tóku staðhæfingum SFS gagnrýnislaust. Með þessu tókst SFS að beina umræðunni frá því að veiðigjöldin eiga að vera endurgjald fyrir aðgang að dýrmætu hráefni sem samfélagið veitir takmörkuðum hópi útgerðarmanna.
Yfirlýsing SFS af þessu tilefni er spádómur um ragnarök sjávarútvegs á Íslandi. Sjósókn leggst af, virðiskeðjur rofna, landvinnsla leggst niður, fiskur fluttur til Póllands, lífæð landsbyggðar þurrkuð upp og tekjur sveitarfélaga hrynja. Allt þetta vegna þess að verðmeta á afla á markaðsvirði en ekki því verði sem útgerðin notar þegar hún færir verðmæti á milli eigin vasa.
Þrenn grundvallaratriði
Það myndi æra óstöðugan að hrekja allar þær mæðusögur sem yfirlýsing SFS hefur kallað fram og fréttamiðlar blásið upp. Í stað þess skal hér bent á nokkur grundvallaratriði sem sýna að þessi spuni er einungis byggður á innantómum staðhæfingu úr herbúðum SFS. Engin vitræn rök eru fyrir því að hækkun veiðigjaldsins leiði til þessara hamfara. Þessi atriði eru:
I Fiskveiðikvótinn, leyfilegt árlegt heildaraflamagn, hefur verið um 500.000 ÞÍG tonn. (Afli umreiknaður í þorskafla miðað við hlutfallslegt verðmæti fisktegunda). Afrakstur af þessum veiðum er mikill, skv. frumvarpsdrögunum og Hagstofunni um 24% af tekjum frá 2014 til 2023, nærri þreföld á við aðra atvinnustarfsemi í landinu. Veiðigjöldin reiknast af hagnaði umfram eðlilega arðsemi. Lækki umframarðsemin lækka veiðigjöldin og falla niður sé hún ekki til staðar. Hækkun veiðigjalda mun ekki breyta því að arðsemi veiða verður mikil og meiri en í flestri annarri atvinnustarfsemi. Samkeppni um veiðiheimildir er mikil og engar líkur á að aflamagn minnki vegna veiðigjalda.
II Líkur eru á að árleg veiði verði um 500.000 ÞÍG á næstu árum. Þeim afla þarf að landa, ísa, frysta eða vinna með öðrum hætti. Þörf á hafnaraðstöðu, vinnuafli, þjónustu við útgerð o.s.frv. helst óbreytt því þrátt fyrir álagningu veiðigjalda.
III Ef markaðsverð er ráðandi við mat á verðmæti alls afla eru veiðigjöldin enginn hvati til að flytja starfsemi, hvorki veiðar né vinnslu, milli staða innanlands eða til útlanda. Aðrir hvatar til þess kunna að vera til staðar eins og dæmin sanna, en veiðigjöldin eða hækkun þeirra hefur ekkert með það að gera.
Þessi grundvallaratriði sýna að engin staðhæfinga SFS er rökrétt. Þær eru allar tilbúningur og fals og ekki settar fram til að verja hagsmuni landsbyggðarinnar heldur pyngju eigenda stórútgerða.
Laun starfsmanna, tekjur sveitarfélaga og landflótti
Óljóst er hvort með orðinu „landsbyggðaskattur” sé átt sé við gjald sem íbúar á landsbyggðinni greiða eða hvort verið sé að vitna til meintra annarra áhrifa af gjaldinu og er ástæða til að skoða hvort tveggja.
Hverjir borga veiðigjöldin?
Veiðigjöldin eru greidd af útgerð þeirra skipa sem landa afla, vinna hann eða selja öðrum. Hún getur ekki velt þeim yfir á aðra, ekki kaupendur aflans ef markaður ræður verðlagningu og ekki á sjómenn eða aðra starfsmenn sem fá laun efir kjarasamningum. Útgerðin situr uppi með veiðigjöldin og þau snerta ekki buddu annarra en eigenda útgerðanna.
Um 64% allra veiðigjalda 2024 voru greidd af 15 fyrirtækjum (Heimasíðu Fiskistofu 6.4.2025). Hin 36% dreifast á um 900 greiðendur. Yfir 71% eigenda þeirra skipa sem greitt höfðu veiðigjald á árinu 2025 áttu lögheimili í 8 sveitarfélögum, Reykjavík, Vestmannaeyjum, Akureyri, Grindavík, Höfn, Neskaupstað, Hellissandi og Sauðárkróki. Raunveruleg samþjöppun er þó enn meiri vegna innbyrðis eignartengsla. Veiðigjöldin eru þannig að langmestu leyti greidd af eigendum stórútgerðanna. Margir þessara eigenda búa á höfuðborgarsvæðinu, eða öðrum stórum sveitarfélögum, greiða þangað útsvar og eyða fé sínu þar.
Veiðigjöldin eru því augljóslega ekki landsbyggðarskattur í þeim skilningi að þau séu fyrst og fremst greidd af þeim sem þar búa.
Breytast tekjur starfsmanna og sveitarfélaga?
Kostur við notkun auðlindagjalda er m.a. að þau hafa ekki áhrif á röklegar efnahagslegar ákvarðanir varðandi rekstur. Veiðigjöld hafa ekki áhrif á laun starfsmanna sem eru ákveðin með kjarasamningum og breytingu á þeim eins og öðrum aðfangakostnaði við útgerð er ekki unnt að velta yfir á launþega. Breyting veiðigjalda hefur þannig ekki áhrif á útsvarstekjur sveitarfélaga. Engin rök standa heldur til þess að tekjur sveitarfélaga af rekstri hafna og annarri þjónustu við útgerð minnki þar sem umfang veiða og afla verður óbreytt eins og að framan segir.
Endalok landvinnslu, fækkun starfa og slit framleiðslukeðju.
Engar líkur eru á að þörf á vinnuafli breytist vegna breyttra veiðigjalda. Viðmiðun þeirra við markaðsverð leiðir til þess að þau eru enginn hvati til nýta aflann fremur með einum hætti en öðrum, hvar hann er unninn eða hvort hann er fluttur út. Ákvarðanir um það byggjast á öðrum sjónarmiðum og löng reynsla er fyrir tilflutning útgerða og vinnslu óháð tilkostnaði vegna veiðigjalda.
Fullyrðing SFS um slit á framleiðslukeðju er líklega byggð á þeim misskilningi að með því að nota markaðsverð til ákvörðunar á stofni veiðigjalda sé einnig verið að taka ákvörðun um milliverð í viðskiptum tengdra aðila eða það skiptaverð sem útgerð og sjómenn ákveða sín á milli. Svo er ekki og geta þeir haldið uppteknum hætti þótt óneitanlega væri til aukins gagnsæis að látið yrði af þeim feluleik.
Samráð og ákvarðanir
Fullyrðingar eru um skort á samráði og að ekki liggi fyrir upplýsingar um áhrif veiðgjalda á einstakar útgerðir og einstaka staði. Upplýsingar um afkomu útgerðar liggja ljósar fyrir eins og gerð er grein fyrir í frumvarpsdrögunum, afkoman greind eftir stærð útgerða, aflategundum o.s.frv. og hafa þær árum saman verið aðgengilegar í gögnum Hagstofunnar. Þessar upplýsingar sýna að afkoma útgerðarfyrirtækja, ekki bara þeirra stærstu, er góð og að jafnaði betri en fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum. Veiðigjöldin eru endurgjald til þjóðarinnar fyrir aðgang að auðlind í hennar eigu. Það væri lítið réttlæti í því að nota þau til að hygla einni atvinnugrein eða sníða þau að þörfum einstakra fyrirtækja.
Vissulega er afkoman mismunandi milli fyrirtækja innan greinarinnar, sem getur stafað af aðstæðum eða því hvernig tekist hefur til með reksturinn. Slíkt er að finna í öllum atvinnugreinum og er eitt af einkennum frjálsrar samkeppni og markaðsbúskapar. Saga útgerðar eftir að kvótakerfið var tekið upp er að hluta saga fyrirtækja sem hættu starfsemi af ýmsum ástæðu. Það var óhjákvæmilegt í atvinnustarfsemi sem gengur í gegnum hagræðingu en var ekki og er ekki nú afleiðing af gjaldtöku fyrir aðgang að fiskveiðiauðlindinni. Þá ber að nefna að bókhald margra rekstrarfélaga í útgerð gefur takmarkaðar upplýsingar um arðsemi þeirra vegna óeðlilegrar skuldsetningar og vaxtagreiðslna eignarhaldsfélaga.
Lokaorð
Ákvörðun skatta og gjalda eins og auðlindagjalda á að byggja á almennum sjónarmiðum, jafnrétti og hlutleysi. Ákvörðun veiðigjalda samkvæmt frumvarpsdrögunum er með þeim hætti. Vel rekin útgerðarfyrirtæki stór sem smá eru þess megnug að greiða eðlilegt verð fyrir að nýta fiskveiðiauðlind þjóðarinnar. Þau starfa eðlilega við mismunandi aðstæður í félagslegu og efnahagslegu tilliti sem þrátt fyrir almennar grunnreglur um gjaldtöku kunna að réttlæta að hún séu að einhverju leyti löguð að öðrum samfélagslegum markmiðum svo sem byggðaþróun. Slík aðlögun á að ráðast af þeim markmiðum en ekki hagsmunum einstakra fyrirtækja eða sveitarfélaga.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi birtu fréttatilkynningu sína, fulla af rangfærslum og órökstuddum staðhæfingum, áður en ríkisstjórnin kynnti tillögur sínar um breytingu á útreikningi veiðigjalda. Var hún augljóslega skilaboð til fylgjenda um hvernig baráttunni skyldi háttað. Að sumu leyti minnir þessi púkablísturherferð á ástandið vestanhafs þar sem falsupplýsingum er dreift til að kæfa vitræna umræðu en hún minnir einnig á ævintýri HC Andersen, Nýju fötin keisarans, sem er ekki um heimskan karl og hreinskilinn strák heldur dans hirðarnnar um gullkálfinn.
Og nota bene. Sjón skattsins nær ekki út fyrir landsteinana... svo er Bjarna og hans likum fyrir að þakka.